08.03.1982
Neðri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2883 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

190. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. heilbr.- og trn., sem liggur hér fyrir á þskj. 404, um frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, 190. mál þingsins.

Nefndin fjallaði um frv. og varð sammála um að mæla með samþykkt þess, en það hafði þegar fengið sams konar afgreiðslu í hv. Ed. Hér er um að ræða breytingu á lögum um réttindi sjómanna til ellilífeyris við 60 ára aldur hafi þeir verið lögskráðir á íslensk skip í samtals 25 ár. Breytingin felst í því, að þeir, sem stundað hafa sjómennsku á skipum sem ekki voru lögskráningarskyld, þ.e. á opnum bátum eða þilfarsbátum undir 12 brúttólestum, öðlist einnig lífeyrisrétt við 60 ára aldur.

Nefndin ræddi nokkuð að nauðsynlegt væri að herða ákvæði um lögskráningu sjómanna. Var minnt á að fyrir þinginu liggur frv. um það efni sem einn nefndarmanna, hv, þm. Pétur Sigurðsson, hefur flutt. Taldi nefndin rétt að hvetja til að það frv. fengi afgreiðslu á yfirstandandi þingi, en það er nú í nefnd.

Nefndin varð sammála um að leggja til þá breytingu sem finna má á þskj. 404. Hún er fólgin í því, að þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skuli fella meginmál þeirra inn í lög nr. 67 frá 1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum og gefa þau út svo breytt.

Það má ljóst vera, að stór lagabálkur eins og almannatryggingalögin eru er harla óaðgengilegur nema hann sé gefinn út í heilu lagi, auk þess sem viðamiklar breytingar hafa verið gerðar á honum á síðustu þingum. Menn kannast eflaust við að Tryggingastofnun ríkisins hefur um árabil gefið út sérrit með lögunum og fellt breytingar inn í þau eftir föngum. En slíki rit hefur ekki lagagildi og er fremur handbók fyrir starfsmenn. Mikil nauðsyn er á að lögin verði birt í heilu lagi. Vænti ég að hv. heilbr.- og trn. Ed. taki þessari breytingu vel og láti hana ekki tefja afgreiðslu málsins, svo að þeir sjómenn, sem hlut eiga að máli, fari að fá afgreiðslu sinna mála.

Vil ég að lokum þakka nefndarmönnum skjóta og góða afgreiðslu málsins.