08.03.1982
Neðri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2884 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

123. mál, orlof

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 126 hef ég leyft mér að flyt ja ásamt hv. þm. Pétri Sigurðssyni, Árna Gunnarssyni, Ólafi Þ. Þórðarsyni, Eggert Haukdal og Halldóri Blöndal frv. til laga um breytingu á orlofslögunum. Það þarf í raun og veru ekki að hafa ýkjalanga framsögu fyrir þessu máli. Þetta er í fjórða skipti sem frv. efnislega eins og þetta er flutt og hefur, að ég held, fengið allítarlegar umr. hér í þinginu. Í öll skiptin hefur málið þó verið svæft. Verður að teljast með ólíkindum að slíkt skuli hafa gerst.

Hér er um að ræða að breyta 11. gr. laga um orlof frá því sem er í þá veru að taka af öll tvímæli um að einstökum verkalýðsfélögum sé heimilt að semja við sína viðsemjendur um annað og hagkvæmara fyrirkomulag en gert er ráð fyrir í lögunum eins og þau eru nú. Um það eru skiptar skoðanir, hvort lögin, eins og þau nú eru, heimili ekki slíkt. Í gildandi lögum segir, með leyfi forseta í 2. gr.: „Lög þessi rýra ekki víðtækari eða hagkvæmari orlofsrétt samkv. öðrum lögum, samningum eða venjum.“ Ýmsir halda því fram — og að ég held með nokkrum rökum — að þetta lagaákvæði heimili t.d. það fyrirkomulag sem þetta frv. gerir ráð fyrir að hugsanlega gæti verið á framkvæmd þessara mála.

Nú eru mörg dæmi þess, að einstök verkalýðsfélög hafi samið við sína viðsemjendur heima í héraði um annað greiðslufyrirkomulag á innborgun orlofsfjár heldur en að borga það til Póstgíróstofu. Þetta fer vaxandi og er þegar vitað að fjöldi verkalýðsfélaga hefur í huga að breyta frá núverandi kerfi yfir í það að borga þetta inn á heimastóð, til þess að fá þannig bæði hagkvæmari ávöxtun fjárins og betri eftirlitsskyldu með innborgun en nú er, og í þriðja lagi — og það er það stóra mál sem ég tel að einnig felist í þessu — að féð sé ávaxtað á heimaslóð þar sem það er borgað inn. Það má segja að þessi þáttur sé ekki hvað minnstur að því er varðar breytingu sem þessa. Hér er því um að ræða að mínu viti stórkostlegt byggðamál, ef þessi breyting yrði gerð.

Það verður að segjast eins og er, að það virðist vera allmikil tregða á því, að slíkt réttlætismál fari hér í gegnum þingið þannig að öll tvímæli verði tekin af varðandi löggjöfina, og ýmsir dragbítar virðast vera hér á framgangi þessa máls. Það vill svo til að í öll skiptin sem málið hefur verið flutt hefur t.d. enginn hv. þm. Alþb. fengist til að vera flm. að því. Það segir sína sögu um afturhaldssemi þess flokks, sem er í raun og veru orðinn nokkurs konar varðhundur um óbreytt ástand í kerfinu.

Í þau skipti sem þetta mál hefur verið hér til umr., a.m.k. nokkur, hafa komið fram úrtöluraddir úr hópi þm. Alþb. Og það á ekki bara við um hina pólitísku forustu þess flokks. Það á líka við um einstaka forustumenn flokksins í verkalýðshreyfingunni, sem hafa andmælt þessu og talið að slík breyting ætti ekki að eiga sér stað.

Eins og ég sagði áðan hafa nokkuð mörg verkalýðsfélög í landinu samið um breytt fyrirkomulag og hafa í raun og veru tekið upp efnislega það fyrirkomulag sem við erum hér að tala um, þ.e. að orlofsfé verði borgað inn á t.d. sparisjóðsbækur á viðkomandi stað, sem yrðu þá geymdar til eins árs. Viðkomandi stofnun, sem þetta tæki að sér, bæri sömu ábyrgð og Póstgíróstofan gerir nú samkv. lögum. Breyting í þessa átt á því ekki á nokkurn hátt að verða til þess að skerða hugsanlega útgreiðslu þessara fjármuna til viðkomandi einstaklinga, því að hér er einmitt gert ráð fyrir því í okkar breytingu, að þær fjármálastofnanir, sem þetta tækju að sér samkv. samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins á viðkomandi stöðum, bæru sömu ábyrgð bæði á ávöxtun fjárins og útborgun og Póstgíróstofan gerir nú.

Ég held að það sé mikil skammsýni af löggjafanum að spyrna gegn þessari eðlilegu og sjálfsögðu þróun því að hún fer mjög vaxandi. Og það er ekkert vafamál, að hvað sem löggjafinn gerir í þessum efnum, hvort sem hann fæst til að breyta og taka af öll tvímæli, þá fara orlofsgreiðslur nú í vaxandi mæli út úr póstgírókerfinu og inn á þær brautir sem hér er um að ræða.

Nýlegasta dæmið um það er að nú hafa aðilar vinnumarkaðarins í heilum landshluta, á Vestfjörðum, samið um það í samningum, sem undirritaðir voru 15. febr. s.l., að breyta reglum um innborgun orlofsfjár í þá átt sem við erum hér að leggja til. Það er því augljóst mál, að stór hluti af t.d. aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands eða Verkamannasambands Íslands er þegar kominn inn á þetta breytta kerfi og við því verður ekki spornað. Það ætti því að vera nokkuð augljóst, að breyting í þessa veru, til þess að taka tvímælin af, á fullan rétt á sér og er eðlileg. Þetta er sjálfsögð þróun, og það er skammsýni af löggjafanum að ætla að standa í vegi fyrir að hún nái fram að ganga.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég held að það sé augljóst öllum, sem vilja vita og kynna sér hvað hér er um að ræða. Það ætti því að vera ofureðlilegt að þetta mál fengi nú skjóta afgreiðslu hér á þinginu, svo ljóst ætti það að vera orðið hv. þm. Ég vænti þess a.m.k. og við flm., að nú verði það ekki svæft í fjórða skiptið. En hvað sem því líður og þó að það verði gert, þá er augljóst mál að þróunin stefnir í þessa átt og er vaxandi. Því fyrr sem löggjafinn tekur af tvímæli um þetta, því betra.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.