09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2898 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

382. mál, norrænt samstarf á sviði menningarmála

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ekki fylgst með öllum þeim umr. sem hér hafa átt sér stað um olíumál þjóðarinnar, en ég vil aðeins að það komi fram, að olíuverslunin hér á landi er, eins og hv. 5. landsk. þm. sagði, í hinum megnasta ólestri og langt frá því að vera rekin á þann eðlilega hátt sem viðhafður er þar sem olíuverslun er rekin, svo að ég blandi ekki blessuðum heildsölunum inn í það mál.

Ríkið á að sjálfsögðu að eiga öryggisbirgðir til í landinu. Ríkið á að eiga þessar öryggisbirgðir og fjárfesta í þeim sjálft, en þær birgðir á ekki að nota nema í einhvers konar neyð. Allar aðrar olíubirgðir eiga að vera hér á landi eins og í öðrum löndum — á kostnað framleiðenda olíunnar í eins konar tollvörugeymslu. Ég hef sagt þetta áður úr þessum ræðustól. Ástæðan fyrir því, að olíubirgðir eru ekki til á þennan hátt í landinu, er einfaldlega sú, að vöruskiptaviðskipti hafa komist á sem gera þetta ókleift. Það þarf að breyta um. Ég tek undir það sem hv. 5. landsk. þm. sagði: Þessi mál eru í ólestri vegna þess að við höfum staðið rangt að málum. Ef menn athuga hvað mikið er fjárfest í gegnum lánastarfsemi viðskiptabankanna, aðallega í olíuversluninni, þá komast menn fljótt að því, að engin furða er að olían er hér eins dýr og hún er raunverulega. Það er vegna þess að fjármögnunarkostnaður er allur á höndum olíufélaganna — og endurspeglast náttúrlega í verði til neytenda — í staðinn fyrir að vera á ábyrgð framleiðendanna sjálfra. Ég veit ekki um eitt einasta land þar sem olíuframleiðendur eiga ekki birgðir í viðkomandi löndum.