09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2903 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

187. mál, framkvæmd orkumálakafla stjórnarsáttmálans

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Hér hafa nú farið fram allfjörugar umr. um orkumál, því að olía er orka, svo það er kannske að bera í bakkafullan lækinn að ég fari að bæta þar nokkru við. En erindi mitt hingað er að fylgja eftir fsp., sem hv. varaþm. Jón Ingi Ingvarsson sem sat fyrir mig á þingi síðustu vikuna í janúar og fyrstu vikuna í febrúar, lagði fram. Hann beinir þar spurningu til hæstv. iðnrh. og er hún í tveimur liðum:

„Hvað líður framkvæmd ákvæða um verðjöfnun orku?“ er fyrri liðurinn. Síðari liðurinn er: „Hvernig standa rannsóknir vegna hugsanlegra olíulinda á íslenska landgrunninu?“

Ég er hér með örlitla bók sem nefnist Stjórnarsáttmáli og ég vonast il að ráðh. lesi kvölds og morgna eins og við hinir óbreyttu þm., en þar er þetta að finna í kaflanum um orkumál á bls. 11 í umgetnu riti, með leyfi forseta: „Unnið verði að verðjöfnun á orku, ekki síst á sviði húshitunar.“ — Hér á hv. Alþingi hefur á ýmsum tímum verið rætt um jöfnun á orkuverði um landið. Eins og okkur er öllum ljóst er það ekki það sama alls staðar á landinu. Vegna þessa mismunar og vegna þessa ákvæðis stjórnarsáttmálans er fsp. fram borin.

Það hafa verið nokkrar rannsóknir hafðar um hugsanlega olíu sem mætti finnast innan lögsögu Íslands. Í fyrrgreindum kafla um orkumál í fyrrgreindu riti, þ.e. stjórnarsáttmálanum, má enn fremur lesa, með leyfi forseta: „Haldið verði áfram rannsóknum vegna hugsanlegra olíulinda á íslenska landgrunninu undir forustu íslenskra stofnana og stjórnvalda og í því sambandi gætt fyllstu varúðar með tilliti til umhverfissjónarmiða.“ — Spurningin snýr sem sagt að því, hvað rannsóknum á þessum hugsanlegu olíulindum á íslenska landgrunninu líði.

Ég vonast til að hæstv. iðnrh. eigi einhver svör við þessum spurningum og geti frætt þingmenn um hvað hafi verið gert í þessu tilliti og hvað ætlunin sé að gera.