09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2904 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

187. mál, framkvæmd orkumálakafla stjórnarsáttmálans

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Í þeirri fsp., sem hér er fram borin og upphaflega var lögð fram af Jóni Inga Ingvarssyni, er spurt um hvað líði framkvæmd ákvæða stjórnarsáttmálans um verðjöfnun orku og hvernig rannsóknir standi vegna hugsanlegra olíulinda á íslenska landgrunninu. Hér er vikið að máli sem oft hefur borið á góma á yfirstandandi þingi, en sjálfsagt er að draga fram nokkur atriði eftir því sem hægt er að koma við á takmörkuðum tíma.

Í fyrsta lagi er þess að geta varðandi raforkuna, að verulegt átak hefur verið gert til að jafna verð á raforku í landinu. Einn þáttur í þeirri viðleitni var fólginn í að hækka verð jöfnunargjald af raforku. Það var gert á árinu 1979 og í kjölfar þess tókst að lækka hlutfallslega þann mikla mun sem var á almennum taxta Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða og annarra rafveitna á vegum sveitarfélaga. Munur á þessum töxtum var, eins og hv. þm. eflaust muna, kominn upp í milli 80 og 90% á árinu 1978, en með ýmsum aðgerðum, og þá ekki síst með atbeina verðjöfnunargjaldsins og fjárhagslegrar fyrirgreiðslu við Rafmagnsveitur ríkisins og stuðningi við Orkubú Vestfjarða í formi lánveitinga m.a., hefur tekist að ná þessum mun niður í um 24% á almennum heimilistaxta. Verð á raforku samkvæmt þessum taxta er nú svipað hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða og hjá öðrum rafveitum sveitarfélaga, nema hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur sem sker sig þarna helst úr og hefur um 24% lægra orkuverð í smásölu samkv. þessum taxta en flestar aðrar rafveitur. Nú hefur Rafmagnsveita Reykjavíkur óskað eftir hækkun á sínum taxta um 22%, svo sem kunnugt er, þannig að ef við þeim óskum væri orðið verður orkuverðið orðið nokkuð hliðstætt hjá þessum veitum, en ég ætla ekki að gera þá umsókn að sérstöku umtalsefni að þessu sinni.

Það hefur líka tekist að jafna verulega verðmun á öðrum töxtum frá því sem mest var, bæði varðandi taxta í vélanotkun eða iðnaði og eins í sambandi við húshitun, þó að munur sé þar meiri en á hinum almenna heimilistaxta.

Sá verðmunur, sem tilfinnanlegastur er á orku og oft hefur verið rætt um á yfirstandandi þingi, er í húshitun. Vorið 1980 voru samþykkt hér á Alþingi lög um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, en með þeim skyldi stefnt að jöfnun hitunarkostnaðar og lækkun á heildarkostnaði við upphitun húsnæðis í landinu, m.a. með eftirfarandi ráðstöfunum: greiðslu olíustyrks vegna þeirra sem búa við olíukyndingu, hagkvæmari orkunotkun og orkusparnaði og aukinni notkun innlendra orkugjafa í stað olíu. Samkvæmt þeim lögum er heimilt að breyta olíustyrk miðað við breytingu á verði gasolíu og verði annarra orkugjafa. Þessi lög hafa verið til endurskoðunar og samkvæmt tillögum nefndar, sem að þeirri endurskoðun hefur unnið, var olíustyrkur hækkaður allverulega fyrir s.l. ár eða úr 200 kr. í 350 kr. hver styrkeining miðað við síðasta ársfjórðung 1981.

Enda þótt framkvæmd ákvæða nefndra laga, sem varða jöfnun á hitunarkostnaði, sé af mörgum talin fyrst og fremst tengjast ákvörðunum um upphæð olíustyrksins, þá er ljóst að sterkt samhengi er á milli þeirra ráðstafana sem lögin gera ráð fyrir. Þannig hefur t.d. ákvörðun um upphæð olíustyrks ótvírætt mikil áhrif á samkeppnismöguleika innlendra orkugjafa.

Of snemmt er að draga ályktanir af heildaráhrifum þeirra aðgerða sem gerðar hafa verið til þessa, en augljóst er að þær eru ófullnægjandi — það leyfi ég mér að segja-því að verðmunurinn á orku til húshitunar er mjög mikill og óviðunandi enn sem komið er þannig að það þarf að gera verulegt átak til viðbótar ef vel á að vera.

Með umræddri hækkun olíustyrks er kyndingarkostnaður með niðurgreiddri olíu um 65% af raunkostnaði við olíukyndingu. Framangreind áhrif olíustyrks á samkeppnismöguleika innlendra orkugjafa eiga bæði við um raforku og nýrri hitaveitur. Þannig er olíukynding miðað við meðaltalsaðstæður nú innan við 10% dýrari en rafhitun, miðað við gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, og til eru hitaveitur í landinu með hærri gjaldskrá en svarar til meðaltals kostnaðar með olíukyndingu.

Varðandi hitaveiturnar eða nýtingu jarðvarmans er þess að geta, að þar er mjög mikill munur innbyrðis hjá hitaveitum sem kunnugt er. Þær, sem hagstæðastar eru eða með lægsta gjaldskrá, eins og Hitaveita Reykjavíkur, eru með aðeins 14% af kyndingarkostnaði með niðurgreiddri olíu, en 20% af olíukyndingarkostnaði ef tekið er tillit til niðurgreiðslunnar. Hins vegar eru til veitur sem eru alveg uppi í sömu mörkum og olíukyndingin, dýrustu hitaveiturnar, og jafnvel aðeins yfir ef allt er samanlagt. Er alveg ljóst að ekki er hægt að ganga með skynsamlegum hætti lengra í niðurgreiðslu olíunnar einnar eða jafna muninn með þeim aðgerðum einum saman.

Samkvæmt lögunum um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar er heimilt að veita varmaveitum framlag til að jafna þann mun sem orkuverð þeirra er metið hærra en sem nemur hitunarkostnaði með olíu að frádregnum olíustyrk. Gert er ráð fyrir því í reglugerð, að helmingur þess framlags greiðist á því ári sem framkvæmdir hefjast og hinn helmingurinn ári síðar. Ég má segja að tvær veitur hafi fengið styrk samkvæmt þessum ákvæðum og eins og málið litur nú út eru ekki margar sem koma inn í þá mynd að njóta styrkveitinga á grundvelli þessara ákvæða.

Möguleikarnir á að jafna þann mun, sem nú er á upphitunarkostnaði, eru auðvitað margir. Ein leiðin er að leyfa hækkanir hjá þeim veitum sem lægstar gjaldskrár hafa, og óskir eru uppi um það, m.a. hjá Hitaveitu Reykjavíkur, og hafa verið um alllangt skeið. Með því móti mundi mismunurinn minnka og hann á auðvitað mjög verulegan þátt í þeim kröfum, sem uppi eru, og þeim samanburði sem eðlilegt er að gerður sé á upphitunarkostnaði.

Annar þáttur, sem ég legg gjarnan ríka áherslu á, er orkusparnaður. Það er með skipulögðum hætti hægt að ná verulegum árangri með orkusparnaði og ég tel að hið opinbera eigi að leggja meira af mörkum í formi styrkja eða hagstæðra lána til að hvetja til orkusparnaðar í húshitun. Við notum um 45% af allri orku í landinu til upphitunar íbúðarhúsnæðis og það er alveg ljóst að mjög mikið fer forgörðum vegna þess að hluti af okkar húsnæði, einkum eldra húsnæði, en einnig reyndar tiltölulegar nýlegar byggingar, svarar engan veginn þeim kröfum sem eðlilegt er að gera. Þarna þarf að gera átak. Það er ekkert óeðlilegt að það átak sé svæðisbundið, þannig að þeir, sem búa við óhagstæðasta kosti í upphitun, njóti þar aukinnar fyrirgreiðslu í þessum efnum. Á vegum húsnæðismálastjórnar hafa verið tekin upp lán í þessu skyni, en fjármagnið til ráðstöfunar hefur verið ófullnægjandi. Þarf endilega að vinna að því, að þar verði meira úr að spila. Ég tel enga goðgá vera að veita jafnvel beina styrki til örvunar í þessum efnum.

Þriðji þátturinn, sem nokkuð hefur verið um rætt, er bein niðurgreiðsla á innlendum orkugjöfum. Ég hef vakið athygli á því og geri það enn, að þar er við nokkuð vandasamt mál að eiga. Slíkar niðurgreiðslur, ef gripið verður til þeirra, mega ekki leiða til þess, að aðilar grípi til þjóðhagslega óhagkvæmra leiða í sambandi við úrlausn í húshitun. Á því getur verið veruleg hætta nema menn gæti að sér og ef verðmyndunarkerfið hefur ekki áhrif á þá kosti sem menn velja. Athuganir hafa verið gerðar á þessum þáttum og verða áfram til athugunar, og ég vil ekkert útiloka í þessum efnum í sambandi við niðurgreiðslu á innlendri orku tímabundið og þar sem munurinn er mestur. En það er alveg ljóst að til þess þarf þá að verja allverulegum fjármunum til að ná árangri eftir þeirri leið.

Herra forseti. 2. liður fyrirspurnarinnar varðaði leit að olíu við landið og rannsóknir vegna hugsanlegra olíulinda. Ég gerði grein fyrir stöðu þess máls í Ed. 4. nóv. s.l. og lagði þá m.a. fram sérstaka skýrslu undir heitinu „Setlagarannsóknir“ sem dreift var til allra hv. þm., þar sem gerð er glögg grein fyrir stöðu þessara mála. Ég held að ég gangi ekki á tíma þingsins, heldur vísi til þessarar skýrslu, en ef sérstakar fyrirspurnir eru um einstaka þætti skal ég nýta mér tímann hér á eftir til að víkja að því.