28.10.1981
Neðri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er leitt til þess að vita ef hæstv. ráðh. er farinn að gleyma því sem hann lofaði fyrir rúmu ári. Það var ekkert innifalið í því loforði, sem hæstv. ráðh. gaf vestfirskum sjómönnum, um að olíugjaldinu yrði breytt, heldur að olíugjaldið yrði afnumið. Meira að segja mun vera hægt að finna einhvers staðar í fórum Sjómannafélags Ísfirðinga skeyti frá hæstv. ráðh. í þessum dúr. Ég held að hæstv. ráðh. ætti að fara að hressa upp á minnið ef hann ætlar að fara að bera til baka þessi loforð hér á Alþingi. Hæstv. ráðh. lofaði því sem einum hluta af lausn deilunnar að hann skyldi beita sér fyrir að olíugjaldið yrði afnumið. Auðvitað er það breyting frá því að hafa það jafnhátt og hann hefur haft það, ef á að skilja orð hæstv. ráðh. á þann veg.

Það ætti hæstv. ráðh. að muna og skilja, að það er liðin tíð að sjómannasamtökin láti draga sig þannig á asnaeyrunum mánuð eftir mánuð og ár eftir ár, að gefin séu loforð og fyrirheit sem öll eru síðan svikin. Hæstv. ráðh. á ábyggilega eftir að komast að þeim sannindum, að slíkt verður ekki liðið öllu lengur.