09.03.1982
Sameinað þing: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

223. mál, brú yfir Hvalfjörð

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hér er til umr. till. um athugun á gerð brúar yfir Hvalfjörð. Flm. er hv. 5. þm. Vesturl. en í því sæti situr nú hv. þm. Guðmundur Vésteinsson sökum anna hv. þm. Eiðs Guðnasonar við störf í Norðurlandaráði. Ég fagna þessari till. og mér finnst ekkert að því að enn sé flutt till. um samgönguleið yfir Hvalfjörð, þótt hér hafi verið til meðferðar á hv. Alþingi till. um sama efni á 102. og 103. löggjafarþinginu og reyndar miklu ítarlegri en sú sem nú er flutt og er hér til umr. Þá var lagt til að kannaðir yrðu fjórir möguleikar, þ.e. í fyrsta lagi ferja yfir fjörðinn, í öðru lagi brú yfir fjörðinn, í þriðja lagi göng undir fjörðinn og í fjórða lagi vegur fyrir fjörðinn. Sú till. var afgreidd á þann veg að henni var vísað til ríkisstj. og er því málið á þeim vettvangi nú.

Þótt búið sé að ræða þetta mál mjög mikið og ýmsir hafi lagt þar orð í belg er þetta umræðuefni langt frá því útrætt. Með nýjum tíma koma nýir möguleikar til framkvæmda. Rök liðins tíma eru kannske litin öðrum augum og málið jafnvel ekki það mikið rætt eða úthugsað að enn sé ekki hægt að finna eða benda á nýjar lausnir í sambandi við þessa samgönguleið.

Eins og fram kom í ræðum frsm. og hv. 2. landsk þm. var 1967 skipuð nefnd til að rannsaka þetta málefni. Sú nefnd skilaði áliti haustið 1972. Nefndin var sammála um að öll rök hnigu að þeirri niðurstöðu, að leggja bæri fullkominn veg fyrir Hvalfjörð. Þá varð nefndin einnig sammála um að athuga bæri gaumgæfilega rekstur skips til fólksflutninga eingöngu milli Reykjavíkur og Akraness. Gerði nefndin athugun á rekstri skíðaskips er tæki 70 farþega. Segja má að stjórnvöld hafi farið eftir þessu áliti nefndarinnar þótt þau frávik hafi verið gerð, að í fyrsta lagi væri fyrir forgöngu Akurnesinga ekki fengið skíðaskip, heldur góð farþega- og bílferja á leiðinni Akranes-Reykjavík, og í öðru lagi að í stað þess að ljúka vegarlagningu fyrir Hvalfjörð á 8–10 árum er nú að 9 árum liðnum frá útkomu skýrslunnar ófullkominn vegur meginhluta leiðarinnar. Það er ekki rétt fyrir okkur nú 9 árum eftir útkomu nefndarálitsins að fara að skilgreina það á neinn hátt. Hitt held ég að menn gætu verið sammála um, að niðurstöður þess eru orðnar úreltar og enn er þetta samgönguvandamál að vissu leyti óleyst og því er þörf á umræðum og nýjum athugunum á þessu máli.

Herra forseti. Ég skal nú í stuttu máli gera grein fyrir skoðun minni á því, út frá hvaða forsendum eigi að athuga þetta mál:

1. Framtíðarlausnin er brú yfir Hvalfjörð.

2. Ákveðið verði að brú verði staðsett utarlega við fjörðinn og þar með verði Akranes orðið tengt Reykjavíkursvæðinu á svipaðan máta og Hafnarfjörður.

3. Meðan brú er ekki smíðuð verði í námunda við væntanlegan brúarsporð byggð hafnarmannvirki fyrir ferjur sem önnuðust bíla- og farþegaflutninga yfir fjörðinn. Vegur, sem lagður yrði að þessum hafnarmannvirkjum, kæmi að fullu gagni þegar brú yrði smíðuð og að sumu leyti hafnarmannvirkin einnig í sambandi við brúargerðina.

Þegar ég nefni að brú skuli smíðuð utarlega er ég með leiðina frá Kjalarnesi að Innra-Hólmi í huga, innan við Hnausasker. Ég tel að ef brú væri smíðuð innar færi samgöngubótin fyrir Akranes að minnka og með því móti væri haldið við þeim möguleika að halda uppi ferju milli Reykjavíkur og Akraness og þar með væri vafasamur ávinningur að brúarsmíði.

Ekki er líklegt að samþykki fáist til þess að ráðast í brúarframkvæmdir á næstu árum, bæði vegna þess, hve mikið fjármagn þyrfti til, og mikil rök eru fyrir því að ef fjármagn væri fyrir hendi væru önnur verkefni brýnni að leysa nú, svo og vegna þess að ekki eru fyrir hendi öruggar upplýsingar um umferð um væntanlega brú. Meðan brú er ekki fyrir hendi skal því velja næstbesta kostinn: ferjur sem mundu anna allri bílaumferð sem kæmi frá Akranesi, Vestur- og Norðurlandi. Yfir mesta annatímann þyrftu tvær ferjur að vera í gangi þannig að aðeins sáralítil bið gæti orðið á ferjustað. Þar með væri Akranes orðið tengt Reykjavíkursvæðinu á svipaðan máta og Hafnarfjörður og meginhluti Vesturlands og einnig hluti Stranda- og Húnavatnssýslna kominn í samgöngutengsl við Reykjavíkursvæðið líkt og Suðurlandsundirlendið. Með slíkri samgöngubót sem ferjum yfir Hvalfjörð á þann máta, sem ég hef hér nefnt, mundi umferð milli Reykjavíkursvæðisins og Akraness, Vesturlands og Norðurlands aukast mjög mikið, jafnvel að það mætti jafna henni við umferð milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar ef Kópavogur og Garðabær eru fráskildir. Þá mundi fljótt koma í ljós mikil umferð sem öruggt væri að byggja á og færa fram rök fyrir brúarsmíði.

Ég tel ekki ástæðu til að útskýra nánar eða draga upp mynd af öllum þeim kostum sem eru því samfara ef leiðin fyrir Hvalfjörð yrði stytt með þeim hætti sem ég hef hér nefnt. Einhverjir ókostir mundu fylgja því, en það er erfitt að finna þá. Mesta breytingin yrði gagnvart Akranesi og sú breyting yrði tvíþætt, þ.e. bættar samgöngur við Reykjavíkursvæðið og Suðurland og einnig, sem ég met jafnvel eins mikils, bættar samgöngur og tenging við Vesturland, Norðvesturland og Strandir. Staða Akraness sem stærsta þéttbýlisstaðar á Vesturlandi er mjög sérstök. Enginn þéttbýlisstaður á landinu, sem mannfjöldalega getur veitt umhverfi sínu þjónustu, er jafnafskiptur af slíkri starfsemi sem Akranes. Þessi staðreynd er mjög neikvæð, bæði fyrir byggðaþróun á Vesturlandi og jafnvel hluta Norðvesturlands og Stranda líka svo og fyrir uppbyggingu Akraness. Með því að aðalumferðaræðin fæti um hlað Akurnesinga, eftir að ferjur og síðan brú væru á Hvalfirði milli Saurbæjar á Kjalarnesi og Innra-Hólms, mundi þjónustuhlutverk Akraness margfaldast. Vesturland kæmist í eðlileg samgönguleg tengsl við þann stað sem hefur alla burði til að annast margþætta þjónustustarfsemi fyrir bakland sitt, en hefur ekki og getur ekki enn nýtt þessa stöðu vegna hins öfugsnúna samgöngukerfis.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns fagna ég þessari till. um athugun á brúarstæði yfir Hvalfjörð. Ég hef trú á að það sé það sem koma skal. En meðan brúin kemur ekki má ekki vera biðstaða í uppbyggingu samgönguleiða og tækja fyrir og yfir Hvalfjörð. Sá valkostur, sem valinn var 1972, að leggja fullkominn veg fyrir Hvalfjörð, er enn nokkuð fjarlægur. Sú ferja eða skip, sem nú er í förum milli Akraness og Reykjavíkur, Akraborg, og reynst hefur mjög vel, er nú orðin allt of lítil og annar ekki þeirri flutningaþörf sem fyrir hendi er. Nýtt og stærra skip þarf að koma í stað Akraborgar og þjóna á þessari samgönguleið þar til önnur ferjuleið, sú sem ég hef lýst, verður valin. Það er skoðun mín, að uppbygging þessara þátta fullkomins vegar fyrir Hvalfjörð, sem er nauðsynlegur hvort sem ferja er yfir fjörðinn eða ekki, ný Akraborg og síðan ferjur yfir Hvalfjörð rétt innan við Innra-Hólm, tilkoma þessara þátta hvers af öðrum og jafnhliða muni koma til leiðar mikilli umferð á þessari leið, svo mikilli að arðsemi brúar og þörf fyrir brú verði auðsönnuð og smíði brúar þá mjög gott fyrirtæki frá þjóðhagslegu sjónarmiði.