09.03.1982
Sameinað þing: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2922 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

223. mál, brú yfir Hvalfjörð

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Að því er þessa till. til þál. varðar gefur það auðvitað auga leið, að fyrr eða síðar mun það samgöngumannvirki, sem þessi till. fjallar um, rísa. Hins vegar er spurt annars vegar um forgangsröðun verkefna í samgöngumálum og hins vegar tíma og fjármagn, þ.e. hvenær mannvirki af þessari tegund muni rísa og hvort önnur eigi ekki að koma á undan. Þetta þekkja menn hér á hv. Alþingi auðvitað allt saman mætavel. Hins vegar eru feikilega mörg rök sem hníga að hagkvæmni þessa mannvirkis. Bæði er mikill vaxtarbroddur í byggðunum fyrir norðan Hvalfjörð og svo hitt, að þarna liggur auðvitað lykilumferðaræð fyrir alla umferð héðan og vestur og norður um land.

En ástæðan fyrir því, að ég hef kvatt mér hljóðs um þessa till., er að velta upp þeim möguleika sem einu sinni var reyndur og það var í sambandi við Keflavíkurveginn svokallaða. Þegar hann var opnaður var lagður sérstakur skattur á þá sem um hann fóru. Það gjald, sem menn greiddu, var lægra en nam bensíni og sliti á ökutækjum. Um þetta voru feikilegar deilur á sínum tíma og niðurstaðan varð sú, að nokkrum árum síðar gafst löggjafinn upp fyrir þrýstingi og þetta gjald var afnumið. Síðan hefur þessi leið ekki verið farin og ekki gerð tillaga þar um. Ég held að álykta megi að það hafi verið meiri háttar mistök að hverfa frá þessari fjármögnunarleið á sinni tíð. Það má endurtaka að gjaldið var við það miðað, að það var hvernig sem á var litið sparnaður fyrir þá farþega og þá ökumenn sem hlut áttu að máli, en í annan stað má leiða að því gild rök, að það hægir mjög á öllum framkvæmdum og framförum í svo brýnum málaflokki sem samgöngumál vitaskuld eru að beita ekki þessari aðferð.

Ég vil því leiða að því hugann og vekja athygli hv. þm. á því, að leið til að fara, þegar verið er að hyggja að mannvirki eins og því sem hér er gert að umræðuefni, er að fjármagna það með lántökum og greiða þær aftur með sköttum sem lagðir eru á þá sem þetta mannvirki nota. Þessi leið er auðvitað mjög víða farin erlendis. Nefndur hefur verið Noregur og nefnd Ítalía. Við erum að horfa á og huga að mannvirki af þessu tagi sem allir eru sammála um að muni rísa. Spurningin er hins vegar aðeins hvenær. Hve lengi á að bíða eftir því? Þá virðist ekki úr vegi og alla vega má undirstrika rækilega þá hugmynd að fjármagna það með tolli af þeim sem það nota. Það er ekki lítil upphæð. Hv. frsm. nefndi 300 þús. bíla sem fara um Hvalfjörð á ári hverju. Ef þessi fjármögnunarleið lætur slíkt mannvirki kannske rísa aldarfjórðungi fyrr en það mundi ella gera, — og hér erum við að tala um mannvirki á slíkum lykilstað í samgöngukerfinu sem allir vita og ekki aðeins fyrir byggðirnar við norðanverðan Hvalfjörð, heldur allt þar fyrir norðan, — ef tollheimta af þessu tagi, þó svo mönnum hafi þótt hún ósanngjörn á sínum tíma, flýtir slíkum mannvirkjum um aldarfjórðung, þá held ég a.m.k. að það sé mjög vel þess virði að velta því fyrir sér.