09.03.1982
Sameinað þing: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2926 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

127. mál, hagnýting orkulinda

Flm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. 19 þm. Sjálfstfl. flytja till til þál. um hagnýtingu orkulinda landsins til stóriðju sem greint er frá á þskj. 131. Með þessum hætti vilja þm. Sjálfstfl. leggja áherslu á þessa leið til að auka megi atvinnu um land allt og bæta lífskjör þjóðarinnar. Auðlindir landsmanna felast í gróðurmætti landsins, fiskimiðunum umhverfis landið, orkulindum fallvatna og jarðvarma og síðast en ekki síst í fólkinu sjálfu sem landið byggir. Aukning atvinnu um land allt og bætt lífskjör þjóðarinnar velta á hagkvæmri nýtingu allra þessara auðlinda. Þrátt fyrir mikinn sjávarafla og hagstæð viðskiptakjör hefur tekið fyrir vöxt þjóðarframleiðslu og þjóðartekna á mann, sem er grundvöllur bættra lífskjara. Stöðnun lífskjara hefur þegar gert vart við sig í góðæri.

Verg þjóðarframleiðsla óx um 6% 1977 eða 5.2% á mann, en 1.2% 1981 eða 0.5% á mann. Spáð er að þjóðarframleiðslan á yfirstandandi ári minnki og þjóðartekjur sömuleiðis þar sem búist er við óbreyttum viðskiptakjörum. Ef litið er með sama hætti til þróunar þjóðartekna á sama tíma og áður er getið litur myndin þannig út: Þjóðartekjur uxu um 9% 1977 eða 8.1% á mann, en 2% 1981 eða 0.7% á mann. Þar sem horfur eru á því, að þjóðartekjur minnki á yfirstandandi ári en þjóðinni heldur áfram að fjölga, er ljóst að þjóðartekjur á mann rýrna verulega.

Af þeirri þróun þjóðarframleiðslu og þjóðartekna, sem hér hefur verið rakin, er ljóst að við Íslendingar höfum verið í vörn ef ekki beinu undanhaldi. Snúa verður vörn í sókn og koma í gang á ný kröftugum vexti þjóðarframleiðslu.

Til eru þeir menn sem skella skollaeyrum við nauðsyn hagvaxtar og tala jafnvel lítilsvirðandi um lífsgæðakapphlaup í því sambandi. En þetta eru gjarnan þeir sömu og gerast mestu kröfugerðarmenn í þjóðfélaginu ef því er að skipta. Staðreyndin er sú, að við verðum að sjá 2000 manns fyrir nýjum störfum, verðugum verkefnum á hverju ári ef hér á ekki að verða atvinnuleysi. Við verðum og að mæta eðlilegum kröfum launþega um aukinn kaupmátt launa, hærri rauntekjur. Okkur hér á Alþingi og þeim, sem starfa í sveitarstjórnum landsins, ætti að vera ljóst að nauðsynleg þjónusta, samfélagsleg þjónusta ríkis og sveitarfélaga við borgarana krefst fjármuna. Aukinn hagvöxtur, aukin þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur eru forsendur þess, að við getum leyst þessi verkefni á viðunandi hátt.

Mörg og mikilvæg verkefni blasa vissulega við í landbúnaði. Þar ber að skapa skilyrði fyrir nýjum búgreinum og leitast við að bæta afkomu og framleiðni hinna eldri í framhaldi af þeim árangri sem náðst hefur. En ljóst er að beitarþoli landsins eru takmörk sett og viðunandi markaður fyrir helstu landbúnaðarframleiðslu okkar erlendis er ekki í sjónmáli.

Sjávarútvegur hefur verið okkur Íslendingum sá undirstöðuatvinnuvegur sem atvinnulífið í heild sinni hvílir á og fært hefur okkur þær framfarir og lífskjör á þessari öld sem líkja má við iðnríki nútímans. Tæknibylting í sjávarútvegi með tilkomu sífellt fullkomnari togara og fiskiskipa, fiskleitartækja og veiðarfæra samhliða stóriðju í fiskvinnslu og sölustarfsemi hefur fram á síðustu ár verið vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs. En allt hefði þetta dugað skammt ef fiskveiðilögsagan hefði ekki verið færð út í 200 mílur 1975 og fullur sigur unnist í þeirri baráttu.

Þorskafli landsmanna var t.d. 265 þús. tonn 1975, en 457 þús. tonn 1981, og nú hefur hámarksafli á yfirstandandi ári verið ákveðinn 450 þús. tonn. Botnfiskafli landsmanna í heild var þessi sömu ár sem hér segir: 428 þús. tonn 1975, en 714 þús. tonn 1981. Þessu til viðbótar má nefna að loðnuaflinn var um 500 þús. tonn 1975, en frá 640 þús. tonnum 1981 til 963 þús. tonna 1979. Við hljótum að hugleiða hvar við værum staddir Íslendingar án þessarar aflaaukningar, hvert væri atvinnuöryggið og hver væru lífskjörin ef þessarar aflaaukningar hefði ekki notið við. Bæta má því við reyndar, að það er hörmulegt til að vita að svo illa hefur verið haldið á stjórn landsins síðustu 3–4 vinstri stjórnar, að þrátt fyrir aflaaukningu stöðvast vöxtur þjóðarframleiðslu og aukið aflaverðmæti nýtist ekki í baráttunni gegn verðbólgunni.

Sem sagt, fyrir útfærslu 200 mílna fiskveiðilögsögunnar féll nær helmingur af botnfiskaflanum til útlendinga. En nú eins og þá stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að fiskstofnar eru fullnýttir ef ekki ofnýttir, eins og loðnustofninn þar sem veiðibann hefur í raun verið sett á.

Þótt mörg verkefni séu vafalaust fyrir hendi í sjávarútvegi og hann taki jafnvel við auknum mannafla verður hann ekki sá vaxtarbroddur atvinnulífsins sem hann hefur verið á þessari öld og við þurfum á að halda í framtíðinni. Sjávarútvegurinn mun vissulega verða áfram meginstoð atvinnulífsins um langa framtíð, en við þurfum að fá aðrar stoðir við hlið hans. Og þá er komið að þriðju auðlind okkar Íslendinga, hagnýtingu orkulinda landsins.

Það er gæfa þjóðarinnar að eiga þess kost að nýta nýjar auðlindir þegar á þarf að halda, orkulindir vatnsorku og jarðhita. Þær geta orðið í sífellt ríkara mæli í framtíðinni undirstaða almenns iðnaðar og stóriðju til útflutnings. Á vegum Orkustofnunar hafa nýlega verið birtar nýjar áætlanir um vatnsorku landsins. Leiða þær í ljós verulega meiri virkjunarmöguleika en áður hefur verið reiknað með. Samkvæmt þeim nemur tæknilega virkjanleg vatnsorka um 64 þús. gwst. Af því er hagkvæm vatnsorka miðað við núverandi eldsneytisverð yfir 40 þús. gwst. en nú er virkjaður innan við 1/10 hluti þess. Til viðbótar öllu þessu kemur orkan í jarðvarmanum. Af miklu er því að taka. Og orkulindir okkar eyðast ekki eins og olíulindir en halda áfram að mala komandi kynslóðum gull í mund þótt orkan hafi að sjálfsögðu sín mörk eins og annað.

Á síðasta þingi lögðu sjálfstæðismenn fram frv. til l. um ný orkuver. Í grg. þeirri, sem fylgir þessari þáltill. er ég mæli fyrir, segir svo um það frv.:

„Í þessu frv. sjálfstæðismanna um ný orkuver var kveðið á um framkvæmdir í virkjunarmálum. Gert var ráð fyrir að heildaráætlun um tiltekin verkefni sem að yrði stefnt að lokið yrði á einum áratug. Hér var um að ræða stærsta átakið sem enn hafði verið gert til að nýta orkulindir landsins til verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið. Þannig hefði verið tryggt að fullnægt hefði verið þörfum hins almenna notanda. Með þessari aukningu vatnsvirkjana hefði innflutt olía verið að fullu leyst af hólmi, bæði til húshitunar og raforkuframleiðslu. Slíkar orkuframkvæmdir hefðu getað skapað möguleika á nýtingu raforku til að framleiða nýja orkugjafa í stað þeirra sem við nú flytjum inn, svo sem til rekstrar skipa og bifreiða. Það hefðu getað skapast möguleikar til að nota rafmagn beint til að knýja samgöngutæki. Það hefði verið séð fyrir nægri raforku til stóraukinnar iðnvæðingar, sbr. till. til þál. um iðnaðarstefnu sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram á þessu þingi. Orkuframkvæmdir þær, sem hér um ræddi, hefðu lagt grundvöll að stóraukinni iðnvæðingu og stóriðju og gjaldeyrisöflun í formi útfluttrar iðnaðarvöru. Slíkar framkvæmdir hefðu verið besta tryggingin fyrir bættum lífskjörum og atvinnuöryggi landsmanna. Stóraukin hagnýting orkulinda landsins hlýtur að hafa verið hið rétta andsvar við þverrandi orkulindum í heiminum og hækkandi orkuverði.

Framkvæmdir þær, sem frv. þetta fól í sér, voru raforkuver allt að 330 mw. í Jökulsá í Fljótsdal, raforkuver allt að 180 mw. í Blöndu, raforkuver allt að 130 mw. við Sultartanga og stækkun Hrauneyjafossvirkjunar allt að 70 mw. Þessar framkvæmdir námu samtals 710 mw. og er það 104% aukning frá uppsettu afli í núverandi vatnsaflsvirkjunum sem eru alls um 680 mw.

Frv. okkar sjálfstæðismanna um ný orkuver náði ekki fram að ganga. Hins vegar lagði ríkisstj. fram á síðasta þingi frv. til l. um raforkuver. Frv. þetta var samþykkt sem lög frá Alþingi. Lög þessi heimila þær virkjanir sem um var að ræða í frv. okkar sjálfstæðismanna. En sá galli var á gjöf Njarðar, að ríkisstj. aðhafðist ekkert í stóriðjumálunum til þess að skapa grundvöll fyrir þeim stórvirkjunum sem hér er um að ræða. Lögin frá síðasta þingi um raforkuver eru því algerlega óraunhæf, ef reisa ætti á 10 árum eða svo þær stórvirkjanir sem lögin fjalla um. Að svo miklu leyti sem lögin marka nokkra stefnu er þar tekinn versti kosturinn. Þar er ekki um að ræða framkvæmdir, sem eru einungis miðaðar við almennar þarfir heimilisnotkunar, húshitunar og almenns iðnaðar. Þar er ekki heldur gert ráð fyrir stóriðju sem er grundvöllur að stórátaki í virkjunarmálunum. Valinn er versti kosturinn, stórvirkjanir án nauðsynlegs orkumarkaðar, sem stóriðjan ein getur skapað. Slík stefna — eða réttara sagt stefnuleysi — leiðir til sjálfheldu í orkumálum þjóðarinnar.“

Till. sú til þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu, sem ríkisstj. ber fram á þessu þingi og er raunar einnig á dagskrá þessa fundar, er síður en svo líkleg til að brotist verði út úr þeirri sjálfheldu sem um var rætt. Sannleikurinn er sá, að litið þýðir að tala digurbarkalega um virkjun fallvatna ef enginn markaður er fyrir framleiðslu hinna nýju orkuvera. Haft er fyrir satt að raforkuframleiðsla landsins að,aflokinni Hrauneyjafossvirkjun nægi til að fullnægja eftirspurn til almenns iðnaðar, heimilisnota og þeirrar stóriðju sem fyrir er í landinu jafnvel allt til loka þessa áratugar. Og ljóst er að næstu árin renna verðmæti ónotuð til sjávar er nemur um 80 millj. kr. árlega vegna þess að engin fyrirhyggja hefur undanfarin ár verið sýnd til að stækka orkumarkaðinn. Forsenda þess, að orkulindir landsins séu nýttar, er að stóriðja, orkufrekur iðnaður sé efldur í landinu. Fyrirhyggjuleysi stjórnvalda í stóriðjumálum sýnir best að hugur fylgir ekki máli í tillöguflutningi um byggingu nýrra orkuvera.

Í 2. tölul. þáltill. okkar sjálfstæðismanna, sem hér er til umr., er gert ráð fyrir að stefnt verði að því að koma á fót 3 – 4 nýjum stóriðjuverum á næstu 15 árum á þeim stöðum á landinu þar sem þess er þörf og staðhættir og aðrar aðstæður henta, enda sé hægt að flytja þangað nægilega orku á hagkvæman og öruggan hátt. Auk þess skal stefnt að því, að stóriðjuverin, sem fyrir eru í landinu, verði stækkuð sem fyrst. Við Íslendingar höfum nú þegar nokkra reynslu af stóriðju sem komið hefur verið á fyrst og fremst fyrir forgöngu Sjálfstfl., en gegn andstöðu einkum Alþb.

Hrakspár andstæðinga stóriðju, eins og Alþb., hafa ekki ræst. Stóriðjan átti að vera láglaunaatvinnugrein, en hefur reynst greiða starfsmönnum sínum hærri laun en flestar aðrar atvinnugreinar í landinu. Stóriðjan átti að verða mengunarvaldur, en reynslan hefur sýnt bæði í Straumsvík og á Grundartanga að fullnægjandi varnarráðstafanir er unnt að gera á því sviði. Þótt stóriðjufyrirtæki greiði nú lægra orkuverð en skyldi vegna stórhækkaðs orkuverðs á heimsmarkaði, þá er staðreynd að tekjur af orkusölu til ÍSALs borga alla Búrfellsvirkjun, miðlunarframkvæmdir í Þórisvatni, línur til borgarinnar og varastöð í Straumsvík á 20 árum. Án álversins hefði ekki verið unnt að ráðast í Búrfellsvirkjun og almenningur þurft að sæta hærra rafmagnsverði.

Við Íslendingar eigum nú að hafa betri skilyrði til að efla stóriðju hér á landi en áður. Við höfum öðlast ómetanlega reynslu í byggingu og starfrækslu virkjana og stóriðjuvera. Við höfum tollfrjálsan aðgang að Evrópumarkaði Efnahagsbandalagsins og EFTA fyrir afurðir orkufreks iðnaðar. Samkeppnisaðstaða okkar í orkufrekum iðnaði á að hafa batnað með hækkandi orkuverði erlendis, sem hefur leitt til samdráttar í orkufrekum iðnaði þar, eins og t.d. í Evrópu og Japan. Við dyljum okkur hins vegar ekki þess, að verð á áli og járnblendi á heimsmarkaði er lágt um þessar mundir og afkoma bæði ÍSALs og Íslenska járnblendifélagsins á síðasta ári afar slæm. En við hljótum að líta á þessa erfiðleika sem tímabundna. Við þekkjum vel sveiflur í afurðaverði og raunar aflabrögðum sjávarútvegs og höfum ekki gefist upp í þeim atvinnuvegi þótt um tímabundna erfiðleika sé að ræða. Núverandi erfiðleikar í orkufrekum iðnaði minna okkur hins vegar á að fara með allri gát í eignaraðild að þessum fyrirtækjum. Það hefur verið og er stefna Sjálfstfl., að orkuverin sjálf séu eign Íslendinga, en það fari eftir mati hverju sinni hvort og að hve miklu leyti landsmenn stefni að eignaraðild að stjóraiðjufyrirtækjum. Í grg. þáltill. er komist svo að orði: „En rétt er að stefna að því með samningum, að Íslendingar eignist stóriðjufyrirtækin í landi sínu eftir því sem tímar líða og möguleikar eru fyrir hendi.“

Þótt allir telji sig sammála um að orkuverin sjálf séu algerlega eign Íslendinga, þá kemur fram að hugur fylgir ekki máli hjá núv. ríkisstj. Það var stefna viðreisnarstjórnar og ríkisstjórnarinnar 1974-1978 að fjármagna ný orkuver að 1/4 eða allt að 1/3 með eigin fé, auk þess sem dreifikerfi í þéttbýli væru helst að öllu leyti fjármögnuð með eigin fé. Núv. ríkisstj. hefur hins vegar stefnt málum í það horf, að nú verður að fjármagna byggingu nýrra orkuvera að öllu leyti með erlendum lántökum, og það sem meira og verra er: erlend lán verður að taka til að mæta rekstrarhalla Landsvirkjunar. Rafmagnsveitu Reykjavíkur er einnig vísað á erlendar lántökur, að ég nefni ekki Hitaveituna, en Rafmagnsveitan þyrfti 25% hækkun rafmagnsverðs og síðan hækkanir í samræmi við verðbólgu, og ef komast á hjá erlendri skuldaaukningu fyrirtækisins sem hækkar rafmagnsverð enn meira í framtíðinni en hækkunarþörfin í dag ber.

Rétt er að gera sér fulla grein fyrir, hve fjármagnsfrek stóriðja eins og álbræðsla er, þegar rætt er um eignaraðild okkar að stóriðjufyrirtækjum. Fyrsti áfangi nýrrar álbræðslu, sem yrði á stærð við verksmiðjuna í Straumsvík, ásamt tilheyrandi virkjun; höfn og annarri nauðsynlegri aðstöðu mundi kosta nálægt því sem nemur öllum erlendum skuldum landsins í dag, en þær nema um einum milljarði dollara. Slíkur áfangi er ekki nægilegur. Síðan kæmi annar áfangi auk annarra verksmiðja, svo að hver maður ætti að sjá hvað er raunsætt í þessum málum að því er varðar meirihlutaeign Íslendinga t.d. í álbræðslum nú í bráð, ef nægilega hratt á að nýta orkulindir landsmanna til að bæta lífskjörin í landinu.

Ég nefni ekki þá fjarstæðu að ætla að seilast í eignaraðild í núverandi álbræðslu í Straumsvík án þess að um nokkra framleiðsluaukningu og verðmætaaukningu sé að ræða er gæti staðið undir afborgunum og vöxtum af þeim lánum sem við þyrftum að taka til þess að öðlast slíka eignaraðild. Meirihlutaeign Íslendinga í orkufrekum stóriðjufyrirtækjum er ekki heldur skilyrði þess, að Íslendingar haldi forræði sínu í eigin atvinnulífi, þótt að slíkri meirihlutaeign beri að stefna í framtíðinni, eins og ég hef áður greint frá.

Í till. okkar til þál. er þess vegna komist svo að orði í 3. lið till.: „Við uppbyggingu stóriðju verði haft samstarf við innlend og erlend fyrirtæki, sem hafa yfir að ráða nauðsynlegri tækniþekkingu, markaðsstöðu og fjármagni. I samstarfssamningum við þau og samningum um eignaraðild að stóriðjuverum skal fara eftir eðli hvers máls og aðstæðum á hverjum tíma. Í öllum slíkum samningum skal að því stefnt, að innlendir aðilar, sem þess óska, geti þegar í upphafi átt hlut í stóriðjufyrirtækjum og geti, þegar framlíða stundir, keypt hlut hinna erlendu aðila í þeim.“

Ég skal aðeins til viðbótar ítreka nauðsyn þess að skapa skilyrði fyrir því, að innlendir aðilar, hlutafélög, samvinnufélög og einstaklingar, geti tekið þátt í stóriðjufyrirtækjum, en til þess þarf að skattleggja hlutabréfaeign eins og annan sparnað eða með sama hætti þarf að hafa skattlagningarreglur á hlutabréf og annan sparnað til þess að gera landsmönnum kleift að taka þátt í áhættusömum atvinnurekstri sem kemur öllum til góða.

Við sjálfstæðismenn fluttum á síðasta þingi till. til þál. um stefnumótun í stóriðjumálum. Sú till. var svipuð þeirri sem nú er flutt, byggð í höfuðatriðum á sömu forsendum: að skapa grundvöll fyrir hagnýtingu orkulinda landsins. Í till. okkar nú er einnig lagt til, að skipuð verði stóriðjunefnd, og svofelld grein gerð fyrir því:

„Sett skuli á stofn nefnd, sem vinni að hagnýtingu orkulinda landsins til stóriðju, svo að auka megi atvinnu um land allt og bæta lífskjör þjóðarinnar. Gert er ráð fyrir að nefndina skipi sjö menn, kjörnir hlutfallskosningu af Alþingi til fjögurra ára í senn. Skal nefndin skipta með sér verkum. Stóriðjunefnd, sem var fyrrum, var skipuð af iðnrh. til óákveðins tíma. Örlög og hlutverk þeirrar nefndar voru komin undir ráðh. og með ákvörðun ráðh. var hún lögð niður. En í till. þessari er farið inn á nýjar brautir. Í fyrsta lagi er Alþingi ætlað að kjósa nefndina, svo að tilvera hennar sé ekki komin undir duttlungum ráðh. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að hér verði um fastanefnd að ræða, þar sem verkefni hennar hljóta að vera varanleg í mörg ár eða áratugi.

Verkefni það, sem nefndinni er ætlað, er bæði víðtæki og vandasamt. Nefndin á að gera tillögur um stóriðjuframkvæmdir, en slíkar tillögur hljóta að byggjast á margháttuðum athugunum og rannsóknum.

Þegar velja á verkefni í stóriðjuframkvæmdum er undirstöðuatriði að rannsökuð sé hagkvæmni hinna ýmsu framleiðslugreina sem til álita koma. Hér hljóta að koma til athugunar margþætt atriði og margslungin. Margt er það sem ræður hagkvæmni hinna einstöku framleiðslugreina. Er þar helst til að taka orkuverð, flutningskostnað og markaðsmöguleika. Stóriðjumöguleikar eru raunar algerlega háðir því, að reistar verði nægilega margar og stórar virkjanir á næstu árum og áratugum. Hér er um að ræða bæði virkjun fallvatna og jarðvarma eftir því sem nauðsyn krefur og hagkvæmt þykir. Með tilliti til staðsetningar nýrra stóriðjuvera hljóta að ráðast forgangsverkefni við undirbúning nýrra orkuvera, orkuveitna og annarra nauðsynlegra mannvirkja.

Stóriðjunefnd er ætlað að eiga frumkvæði að og samræma samningaviðræður milli virkjunaraðila og annarra innlendra aðila annars vegar og stóriðjufyrirtækja hins vegar um eignaraðild, orkusölu, staðsetningu stóriðjuvera o. fl.“

Síðar í greinargerðinni segir:

„Í till. er stóriðjunefnd veitt heimild til að hafa samstarf eftir því sem þörf krefur, við hvern þann aðila sem hefur sérþekkingu á málum er varða störf hennar. Í þessu sambandi eru tiltekin stjórnvöld, stofnanir orkukerfisins, umhverfismála, efnahags- og fjármála svo og rannsóknastofnanir. Tekið er og fram að opinberum aðilum sé skylt að veita nefndinni hverjar þær upplýsingar sem hún óskar. Þetta leiðir af því, að stóriðjunefnd er ekki ætlað að stunda rannsókna- og þróunarstarfsemi á sviði iðnaðar og orkumála heldur byggja á því starfi sem unnið er af stofnunum og fyrirtækjum sem fyrir eru í landinu.

Þó að ekki sé ætlunin að koma upp sérstöku bákni fyrir stóriðjunefnd og starfsemi hennar, er augljóst að störf á vegum nefndarinnar verði ekki unnin einungis í hjástundavinnu. Þess vegna þykir nauðsynlegt að stóriðjunefnd ráði sér framkvæmdastjóra. Er gert ráð fyrir þessu í þáltill. svo og að framkvæmdastjóri ráði aðra starfsmenn, sem þörf er á, að fengnu samþykki nefndarinnar.

Það liggur í hlutarins eðli, að kostnaður af starfi stóriðjunefndar greiðist úr ríkissjóði og enn fremur að stóriðjunefnd skuli skila árlega skýrslu til Alþingis um störf sín. Till. gerir ráð fyrir þessu hvoru tveggja.

Jafnframt því sem tillagan kveður á um tilgang, skipan og hlutverk stóriðjunefndarinnar eru verkefni nefndarinnar á næstu árum tiltekin sérstaklega. Kveðið er svo á, að stóriðjunefnd skuli vinna að því að á fót verði komið a. m. k. 3–4 nýjum stóriðjuverum á næstu 15 árum, á þeim stöðum á landinu þar sem þess er þörf og henta þykir, m.a. með tilliti til þeirra virkjana sem reisa þarf til að sjá þeim fyrir orku. Hér er kveðið á um framkvæmdahraða, sem tekur mið af atvinnuþörf þjóðarinnar og byggðaáætlunum.“

Þess má geta, að í till. þeirri til þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu, er ríkisstj. flytur, er í grg. birt skýrsla svonefndrar orkustefnunefndar, ef ég man rétt, en sú skýrsla gefur ekki mikil eða góð fyrirheit um árangur af starfi þeirrar nefndar. Eftir að fyrri stóriðjunefnd var lögð niður af iðnrh. og ekkert hafði í raun verið aðhafst til þess að skapa skilyrði fyrir nýjum orkuframkvæmdum, þ.e. stóriðjufyrirtækjum, var þessi orkunefnd skipuð. Hún er eingöngu skipuð fulltrúum þeirra aðila sem að ríkisstj. standa, en í till. okkar sjálfstæðismanna er gert ráð fyrir að stóriðjunefnd, sem till. fjallar m.a. um, verði kosin með hlutfallskosningu hér á Alþingi. Og það er gert ráð fyrir ákveðnum tengslum milli nefndarinnar og Alþingis, þannig að alþm. séu á hverjum tíma kunnugir störfum slíkrar nefndar og geti þess vegna fylgst með og haft áhrif á þá stefnu sem uppi er höfð hverju sinni í stóriðjumálum. Það gefur að skilja, að þegar mál koma til kasta Alþingis á þessu sviði er það betur í stakk búið til þess að fjalla um málin þegar þannig er háttað málum, en ekki, eins og nú er háttur hafður á, að halda þessum málum innan vébanda iðnrn. og láta þingmönnum í té aðeins mjög yfirborðslegar upplýsingar, eins og fram kemur í þeirri greinargerð um orkunýtingu sem svokölluð orkustefnunefnd hæstv. iðnrh. lætur frá sér fara.

Það er enginn vafi að almennur skilningur er vaxandi á mikilvægi orkufreks iðnaðar til þess að auka atvinnu og bæta lífskjör. Benda má á fjölmargar samþykktir sem hníga í þá átt, m.a. frá sveitarstjórnarmönnum víða um land. Hér vil ég sérstaklega vitna til samþykktar svokallaðrar 54 manna nefndar Alþýðusambands Íslands 31. ágúst s.l. þar sem komist er svo að orði:

„Aukinn hagvöxtur, sem staðið getur undir efnalegri framþróun, er ein helsta forsenda verðbólguhjöðnunar og aukins kaupmáttar. Skipuleggja verður sókn til bættra lífskjara í landinu svo að við Íslendingar stöndum jafnfætis grannþjóðum okkar hvað lífskjör varðar og að atvinnuvegirnir verði samkeppnisfærir við atvinnuvegi annarra landa um íslenskt vinnuafl. Samtímis því, sem tækifæri eru nýtt til framleiðsluaukningar í hinum hefðbundnu greinum, er höfuðnauðsyn að stjórnvöld vindi bráðan bug að nýsköpun atvinnulífs, sem byggi á orku fallvatna og jarðvarma. Tryggja verður stöðugleika og eyða óvissu í atvinnumálum með því að hafa jafnan á reiðum höndum áætlanir um arðbærar vinnuaflskrefjandi framkvæmdir.“

27. okt. s.l. samþykkti svokölluð 72 manna nefnd Alþýðusambands Íslands eftirfarandi lið sem kröfugerð varðandi atvinnumál:

„Teknar verði upp viðræður við ríkisstj. um öfluga uppbyggingu atvinnulífsins, þar sem m.a. verði knúið á um ákvarðanir og framtíðarstefnumótun varðandi orkufrekan iðnað.“

Hér er um eðlilegan þátt í kröfugerð stærstu launþegasamtakanna í landinu að ræða. Ekkert skiptir eins sköpum um kjör launþega í landinu og hagnýting orkulinda landsins. Uppbygging orkuvera getur orðið undirstaða atvinnuaukningar um land allt. Þótt stóriðjufyrirtækin séu nú aðallega við Faxaflóa eiga þau góð framtíðarskilyrði á Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi og víðar. Það er óhjákvæmilegt að minna á að samkv. stefnuskrá Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar hefði stækkun Búrfellsvirkjunar, stífla við Sultartanga, stækkun álbræðslunnar við Straumsvík sennilega allt verið tekið í notkun á næsta ári, ásamt hærra raforkuverði til ÍSALs, án þess að það ylli neinni töf á virkjunum í öðrum landsfjórðungum. Þvert á móti hefðum við byggt á traustari grundvelli í frekari framkvæmdum orkuvera og stóriðjufyrirtækja ef stefna Sjálfstfl. hefði komist í framkvæmd. En þess í stað hefur hin dauða hönd Alþb. stöðvað allar aðgerðir og þróun mála.

Forsaga Alþb. er líka sú að beita sér á móti stóriðju og stórvirkjunum. Alþb. var á móti byggingu álbræðslunnar í upphafi og þar með í reynd á móti Búrfellsvirkjun. Alþb. snerist á móti járnblendiverksmiðjunni þótt iðnrh. þess, Magnús heitinn Kjartansson, tæki málið á tímabili upp á sína arma og hlyti litla þökk flokkssystkina sinna fyrir. Alþb. var á móti inngöngu í EFTA og tregðaðist við að gerður væri tollasamningur við Efnahagsbandalagið, en hvort tveggja eru forsendur arðbærrar stóriðju á Íslandi. Alþb. leitaðist við að fresta fyrsta áfanga Hrauneyjafossvirkjunar, sbr. bréf Hjörleifs Guttormssonar iðnrh. til Landsvirkjunar þar að lútandi.

Alþb. situr enn við sama heygarðshornið þótt það hafi breytt um starfsaðferðir. Alþb. gerir sér ljóst að ekki er lengur stætt á því að vera beint á móti stóriðju og virkjunum vegna vaxandi almenns skilnings á nauðsyn þess að hagnýta orkulindir landsins til stóriðju svo og vegna krafna verkalýðshreyfingarinnar í þessu efni. En í stað þess að vera í beinni andstöðu er beitt öðrum aðferðum til að stöðva málin. Iðnrh. dregur mál á langinn og drepur þeim á dreif í óteljandi starfshópum sem hver um sig veit ekki sitt rjúkandi ráð. Iðnrh. sjálfan skortir alla yfirsýn, hvað þá ákvarðanatöku. Iðnrh. spillir fyrir endurskoðun samningsins við ÍSAL um stækkun álversins og endurskoðun raforkuverðs, sbr. meðferð hans á súrálsmálinu, og gerir allt sem í hans valdi stendur til þess að gera samstarf við erlenda aðila tortryggilegt og fæla þá frá slíku samstarfi við Íslendinga í lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Alþb. hvorki vill né þorir að grípa ný tækifæri til atvinnuuppbyggingar, þegar þau gefast, og lýsir það best römmu afturhaldi sem raunar einkennir kommúnista almennt hvar sem er.

Herra forseti. Við Íslendingar erum á vegamótum í atvinnumálum. Gróður landsins og fiskimiðin geta ekki ein verið áfram sá vaxtarbroddur í atvinnulífinu sem saga okkar sýnir. Hagnýting orkulinda landsins, stóriðja og almennur iðnaður verða nú að taka við sem vaxtarbroddur til að tryggja atvinnu og bætt lífskjör og skapa skilyrði fyrir því, að mesta og dýrmætasta auðlind landsins fái notið sín: atgervi og framtak fólksins sem landið byggir. Við verðum að hugsa fram í tímann. Nú verða alþm. að sýna stórhug og framsýni í atvinnumálum. Mikið veltur á því, að stjórnmálaflokkar og Alþingi fari að taka ákvarðanir og bregðist ekki skyldum sínum við þjóðina.

Herra forseti. Ég legg til að þáltill. þessari verði vísað til nefndar að lokinni þessari umr., en það mun væntanlega vera atvmn.