09.03.1982
Sameinað þing: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2934 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

127. mál, hagnýting orkulinda

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það kemur fram við flutning þessarar þáltill., sem er efnislega hin sama og hluti af Sjálfstfl. flutti á síðasta þingi, að sá hópur hefur ekkert lært á þeim tíma, sem síðan er liðinn, og hefur ekki bætt neinu við sig í sambandi við stefnumörkun í þeim mikilvægu málum sem varða hagnýtingu orkulinda landsins.

Hv. 1. flm. þessarar till., 1. þm. Reykv., heldur því fram í máli sínu, að núv. ríkisstj. og iðnrn. og þeir, sem þar hafa völd, vinni gegn því, að hægt sé að ráðast í hagnýtingu á þeirri miklu auðlind Íslendinga sem orkulindirnar eru. Hv. 1. þm. Reykv. skiptir engu hvað gert er í þessum efnum. Hann endurtekur hér sömu fullyrðingar og á síðasta ári og dásamar stefnu Sjálfstfl. á liðnum árum og áratugum í sambandi við stóriðjumál, þrátt fyrir þær staðreyndir sem fyrir liggja í þeim efnum og alþjóð eru kunnar.

Ég vil aðeins í upphafi rifja upp fyrir hv. 1. þm. Reykv. hver er stefna núv. ríkisstj. í sambandi við uppbyggingu meiri háttar nýiðnaðar í landinu, þ. á m. orkufreks iðnaðar. Í stjórnarsáttmála segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkið stuðli að uppbyggingu meiri háttar nýiðnaðar, er m.a. byggi á innlendri orku og hráefnum, enda verði slíkur nýiðnaður og frekari stóriðja á vegum landsmanna sjálfra.“

Í fyrirliggjandi þáltill. ríkisstj. um iðnaðarstefnu er þetta markmið orðað með svofelldum hætti, með leyfi hæstv. forseta: „Að nýta sem best þá möguleika til iðnaðarframleiðslu, sem felast í innlendum orkulindum, og efla innlenda aðila til forustu á því sviði. Orkufrekur iðnaður verði þáttur í eðlilegri iðnþróun í landinu og jafnframt verði lögð áhersla á úrvinnsluiðnað í tengslum við hann.“

Grein hefur verið gerð fyrir vinnu á vegum ríkisstj. að þessum málum á síðasta þingi og á núverandi þingi. Á síðasta þingi fylgdi greinargerð um vinnu og stefnumörkun ríkisstj. í sambandi við hagnýtingu orkulindanna frv. um raforkuver sem lagt var fram síðla á síðasta þingi og samþykkt fyrir þinglok. Þar var dregin upp meginstefna af hálfu ríkisstj. í þessum efnum jafnframt því sem teknar voru ákvarðanir í sambandi við næstu stórvirkjanir í landinu, aflað heimilda Alþingis til stórátaka á því sviði. Nú hefur einnig verið lögð fram hér á þinginu í sambandi við tillögu um röðun virkjana, sem aflað var heimilda fyrir á s.l. vori, greinargerð varðandi undirbúningavinnu að hagnýtingu orkulindanna eftir þeim stefnumiðum og markmiðum sem ríkisstj. hefur sett sér. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir verulegri nýtingu á raforku í landinu í tengslum við næstu stórvirkjanir, eftir því sem hagkvæmir og hagstæðir orkunýtingarmöguleikar eru undirbúnir og liggja fyrir. Þar hefur verið gert ráð fyrir því sem eðlilegu markmiði, að unnt sé að tvöfalda orkufrekan iðnað í landinu á næstu 10 árum eða svo, en auðvitað eru settir skýrir fyrirvarar um það, að þetta byggist á því að vænlegt sé að ráðast í þungaiðnað í auknum mæli, að það finnist arðbærir iðnaðarkostir.

Ég tek það fram, að ég er ekki í nokkrum vafa um að staða okkar Íslendinga til þess að hagnýta okkur orkulindirnar í atvinnurekstrarskyni af eigin rammleik og fyrir eigin frumkvæði er fyrir hendi. Samkeppnisaðstaða okkar í þeim efnum á að vera tiltölulega sterk. Það getur hins vegar ekki þýtt það, að við rösum um ráð fram í þessum efnum. Við þurfum að sjálfsögðu í sambandi við þá miklu fjárfestingu, sem þarna er um að ræða, að vanda vel allan undirbúning og ganga fram af gætni. Þar er sá hallarekstur sem komið hefur fram á stóriðjufyrirtækjum í landinu að undanförnu vissulega víti til að varast. Það er ákveðin aðvörun í sambandi við iðnað af þessu tagi, en það á ekki að hrekja okkur frá því markmiði að hafa tögl og hagldir í þessum þætti atvinnurekstrar í landinu nú og framvegis, eins og skilja mátti af málflutningi hv. f. flm. hér áðan sem einmitt vildi draga þetta atriði fram til stuðnings þeirri erlendu stóriðjustefnu sem hann og meðflm. hans standa hér enn fyrir.

Ríkisstj. hefur sett fram það markmið í sambandi við hagnýtingu orkulindanna til atvinnurekstrar að jafna orkureikning landsmanna það sem eftir er af öldinni, þ.e. að ná því marki, að við öflum jafnmikilla gjaldeyristekna fyrir afurðir orkufreks iðnaðar eins og við þurfum að greiða fyrir innflutta orku til landsins. Líkur eru á því, að við getum náð hlutfalli innfluttrar orku niður í 33% eða 1/3 af heildarorkunotkun, en það er sú orka sem fer til að knýja bifreiðar landsmanna, þ.e. samgöngutæki á landi og vélar og fiskveiðiflotann. En ástæðulaust er að fullyrða að ekki sé hægt að ná lengra. Það fer vissulega eftir þróun á verði olíu á alþjóðamarkaði hvenær hagkvæmt reynist að framleiða innlenda orkugjafa, innlent eldsneyti í krafti eigin orkulinda. Það er einnig markmið sem horft er til.

Ríkisstj. hefur sett fram stefnu um það, hvernig að uppbyggingu orkufreks iðnaðar skuli unnið. Þar er undirstrikað að þó að við Íslendingar eigum samvinnu við erlenda aðila um vissa þætti beri að tryggja virkt forræði okkar yfir þessum þætti atvinnulífsins. Eignarhaldið er þar vissulega mikilvægt, meirihlutaeign á fyrirtækjunum, en það er engan veginn einhlítt. Þar þurfa að koma til aðrir þættir til þess að við höfum í reynd vald á þessum atvinnurekstri, bæði varðandi hráefnaöflun og markaðsmál. Hefur verið gert mikið átak til að undirbúa framgang þessara stefnumiða. Má rifja það hér upp, að varið hefur verið mjög auknu fjármagni í þessu skyni. Það er alveg ljóst að við komumst ekki áfram með innlenda atvinnustefnu á þessu sviði nema kosta þar nokkru til, enda hefur Alþingi veitt aukið fjármagn, margfaldar upphæðir frá því sem áður var í þessu skyni á undanförnum árum. Fjárveitingar til athugunar á orkufrekum iðnaði voru t.d. tífaldaðar milli áranna 1980 og 1981 og enn aukið við á fjárlögum yfirstandandi árs.

Sú vinna, sem iðnrn. hefur staðið fyrir með aðstoð innlendra stofnana og fyrirtækja, beinist m.a. að því að átta sig á hvert er eðlilegt stefnumið í sambandi við verðlagningu á orku okkar til orkufreks iðnaðar, hvar liggja okkar samkeppnismöguleikar á þessu sviði. Einnig hefur verið að því unnið að kanna hvar skynsamlegt sé að setja niður orkufrekan iðnað í landinu, staðsetja meiri háttar fyrirtæki af þessu tagi. Hv. alþm. munu innan tíðar fá greinargerðir þar að lútandi. Þar er horft til allra þátta sem máli skipta í þessum efnum, allt frá tengingu við raforkukerfi landsmanna til félagslegra sjónarmiða og umhverfissjónarmiða, fyrir utan að sjálfsögðu landfræðilega þætti, hafnarskilyrði og annað þess háttar. Þá hefur einnig verið athugað hvert sé bolmagn okkar Íslendinga út frá þjóðhagslegum forsendum til að standa að uppbyggingu þessa atvinnurekstrar hér í landinu af eigin rammleik, a.m.k. sem forræðisaðilar, þó að við höfnum ekki samstarfi við útlendinga um alla þætti mála.

Ég vil fullyrða, þvert ofan í það sem fram kom hjá hv. 1. flm. þessarar till., að það er engin ástæða fyrir okkur Íslendinga að hafa þá minnimáttarkennd eða ætla það, að við getum ekki staðið fyrir þessari uppbyggingu hér í landinu í krafti eigin aflafjár og lánsfjármagns sem við tökum með eðlilegum hætti. Það getur einnig átt við um stórrekstur á þessu sviði, en vissulega er þarna um misjafnlega stór fyrirtæki að ræða sem til athugunar hljóta að verða. Áliðja er þar einna stærst í sniðum. En einnig á því sviði getum við Íslendingar haft forræði, ef við kjósum að leggja út í slíkan rekstur, og við eigum að binda slíkan rekstur því skilyrði, að við höfum þar einnig tögl og hagldir. Við eigum að geta átt þess kost í sambandi við áliðju hérlendis á vegum okkar sjálfa að gera langtímasamninga bæði varðandi hráefni og aðföng og tryggja orkuverð sem standi undir framleiðslukostnaði við öflun nýrrar orku í landinu. Sú minnimáttarkennd, sem einkennir umr. hv. stjórnarandstæðinga og fyrst og fremst sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu um þessi mál, er með slíkum fádæmum að um það mætti hafa mörg orð. Það er merkilegt að virða fyrir sér málgagn þeirra, Morgunblaðið, sem leggur undir sig síðu eftir síðu þessa daga og oft áður til þess að halda á lofti málflutningi talsmanna þeirra sem vilja halda niðri raforkuverði til stærsta raforkukaupanda í landinu.

Ég vil aðeins víkja að nokkrum atriðum í sambandi við könnun á þeim kostum, sem líklegir geta talist til að vera arðbærir hér í sambandi við orkufrekan iðnað, sem komin er vel á veg. Ég mun víkja nánar að þessu þegar ég mæli fyrir máli því sem næst er á dagskrá samkv. fyrirliggjandi dagskrá þessa fundar, en það verður innan tíðar. Það er komið vel á veg athugunum vegna kísilmálmvinnslu og ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um staðsetningu slíkrar iðju á Austurlandi, ef hagkvæmt reynist að athuguðu máli að ráðast í hana.

Það stendur yfir könnun á forsendum íslenskrar áliðju. Þar er unnið að máli í samvinnu við útlendinga um öflun tækni með samningi við norsk ríkisfyrirtæki, en einnig með samningi við innlenda verkfræðiaðila sem standa að þeirri könnun. Sú könnun miðar að því að leiða í ljós hvernig við Íslendingar getum staðið að slíkum rekstri, hvort og þá hvernig það er fýsilegt og gerlegt fyrir okkur. Gert er ráð fyrir að ljúka þessari könnun, sem tekur ekki aðeins til stofnkostnaðar slíkra mannvirkja, heldur einnig til aðfanga og söluafurða, á 9 mánuðum, þannig að niðurstöður úr henni eiga að liggja fyrir fyrir lok þessa árs. Þetta heitir samkv. orðum 1. þm. Reykv. að aðhafast ekkert, vegna þess að það er ekki verið að semja um raforkusölu til erlendrar stóriðju. Það er á máli hv. þm. Sjálfstfl., sem fyrir þessum tillöguflutningi standa, að aðhafast ekkert, ef það er ekki eftir formúlu orkusölustefnunnar sem þeir standa fyrir og virðast hafa eingöngu trú á í sambandi við uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu.

Ég vil nefna orkunýtingu í sambandi við úrvinnslu á trjákvoðu til pappírsvinnslu. Sú athugun stendur nú yfir í samvinnu við finnsk fyrirtæki. Það eru áhugasamir aðilar á Norðurlandi sem hafa ýtt á eftir um það mál, og iðnrn. hefur talið rétt og skylt að taka á því með þeim þó að ekki hafi verið gengið frá neinu endanlega varðandi staðsetningu á slíkum rekstri. Að öðru jöfnu er hins vegar eðlilegt að gera ráð fyrir að taka undir með þeim sem þar hafa sýnt mestan áhuga. Niðurstaða úr slíkri hagkvæmniathugun mun væntanlega einnig liggja fyrir fyrir lok þessa árs.

Iðnrn. hefur einnig athugað, ekki aðeins á þessu ári, heldur líka á síðasta ári, forsendur þess að stækka járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, þ.e. hvort skynsamlegt væri að ráðast í stækkun á því fyrirtæki. Það hefur hins vegar orðið niðurstaðan af þeirri athugun, samdóma álit framkvæmdastjórnar og stjórnar fyrirtækisins og rn. svo og þess erlenda samstarfsaðila sem við erum í samstarfi við varðandi rekstur járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, að ekki væri skynsamlegt miðað við aðstæður að ráðast í stækkun þess fyrirtækis nú. Ég býst við að hv. alþm. komi til með að skilja hvers vegna þannig er staðið að máli, hvers vegna þessi er niðurstaðan, þegar kynnt verður rekstrarstaða þess fyrirtækis eins og hún birtist okkur nú þessi misseri. Ég vænti þess sannarlega, að það eigi eftir að rætast úr hjá því fyrirtæki því að ella væru horfur dökkar. Þær eru sannarlega dökkar miðað við stundina. En að sjálfsögðu eigum við að horfa raunsæjum augum á þennan atvinnurekstur sem annan og átta okkur á eðli hans, þ. á. m. að þar gætir sveiflna. Þær sveiflur ber að sjálfsögðu að taka með inn í myndina og þær eiga að hvetja okkur til að leita eftir fjölbreytni í sambandi við þennan þátt í atvinnurekstri í landinu, en veðja ekki þar á einn hest.

Fleira má nefna sem að er unnið og hv. alþm. hafa fengið gögn og greinargerðir um, sem stundum er kvartað undan. Á sama tíma og látið er að því liggja, að ekkert sé verið að gera, er kvartað undan því, ef hv. alþm. fá greinargerðir og skýrslur til þess að gera þeim kleift að fylgjast með því sem verið er að gera í þessum efnum. Þar er ekki verið að fela neitt fyrir hv. þm. Í þessu sambandi vil ég nefna atriði eins og magnesíumvinnslu, sem er verkefni sem tekur óhjákvæmilega talsverðan tíma að þróa, sérstaklega ef við ætlum að byggja framleiðslu á magnesíummálmi á innlendum aðföngum, eins og vissulega væri æskilegt. En þar reynir á sérstaka tækni þar sem við þurfum að beita eigin hugviti og standa að undirbúningi í samræmi við það.

Hlutur iðnrn. í þessum málum hefur fyrst og fremst verið samræming verka. Það hefur verið byggt á vinnu rannsókna- og tæknistofnana í landinu, eins og Iðntæknistofnunar og Orkustofnunar. Það hefur verið leitað til Rannsóknaráðs ríkisins og það hefur verið leitað til innlendra verkfræðiaðila til þess að fá þá með í verkin þannig að þeir öðlist reynslu á þessu sviði, hliðstætt því sem gerst hefur í sambandi við undirbúning og uppbyggingu virkjana í landinu. Þar þurftum við fyrir eina tíð að leita til erlendra verkfræðiaðila til undirbúnings, en erum nú sem betur fer þannig í stakk búnir að við erum fyllilega færir um að standa fyrir hönnun og allri uppbyggingu vatnsaflsvirkjana í landinu og getum auk þess miðlað öðrum af okkar reynslu. Á sama hátt eigum við að standa að undirbúningi orkufreks iðnaðar, orkunýtingar í landinu, en ekki fylgja því mynstri sem dregið er upp samkv. fyrirliggjandi þáltill., að stofna nefnd nokkurra manna sem eiga að hafa það hlutverk fyrst og fremst að leita eftir kaupendum úti um heim sem komi færandi hendi með fyrirtæki til þess að kaupa af okkur orkuna, eftir fyrirmyndinni frá álverinu í Straumsvík sem enn er flaggað hér á Alþingi þrátt fyrir þær staðreyndir sem fyrir liggja í því máli.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að við þurfum fyrr en seinna að ganga lengra í sambandi við skipulagsþætti þessara mála. Við þurfum að koma hér upp fyrirtæki sem hafi burði til að standa fyrir undirbúningi og uppbyggingu fyrirtækja á þessu sviði atvinnulífs í landinu, bæði varðandi rannsóknar- og þróunarstarf, og getur tekið á með öðrum aðilum sem vilja leggja fjármagn í uppbyggingu atvinnurekstrar af þessu tagi á móti ríkinu, svo sem sveitarfélög og fyrirtæki svo og einstaklingar sem áhuga hafa á að leggja fjármagn af mörkum í því skyni. Ég tel að það þurfi fyrr en seinna að setja lög um iðnþróunar- eða iðnrekstrarfyrirtæki á vegum hins opinbera sem geti staðið fyrir undirbúningi að orkufrekum iðnaði í landinu og gæti jafnframt orðið frumkvæðisaðili um stofnun nýrra fyrirtækja. Einnig kann að reynast skynsamlegt að fela slíku fyrirtæki samræmingu og stjórn á iðnrekstri á vegum ríkisins til þess að sú reynsla, sem fengist hefur og fæst í framtíðinni, nýtist betur. Náið samstarf þarf að sjálfsögðu að vera milli rannsóknar- og þjónustustofnana í iðnaði og slíks fyrirtækis sem í athugun er að stofnsett verði og sett verði löggjöf um.

Hér var minnst á orkustefnunefnd, sem skipuð var árið 1980 til að vera ríkisstj. til ráðuneytis um mótun stefnu í orkumálum, þ. á m. varðandi orkunýtingu. Sú nefnd er ekki sambærileg við þá nefnd sem hér er verið að leggja til að stofnuð verði. Orkustefnunefnd er ekki ætlað að verða að eins konar stofnun eins og gert er ráð fyrir um þá stóriðjunefnd sem fjallað er um í þessari þáltill. Henni er ekki ætlað að verða varanleg nefnd, heldur er henni ætlað að undirbúa tillögur til ríkisstj. um orkumál í víðu samhengi, þ. á m. varðandi orkunýtingu. Nefndin hefur litið á vissa þætti varðandi undirbúning að orkunýtingu, en ég tel eðlilegt að færa þetta inn á vettvang sérstaks fyrirtækis sem annist þróunar- og undirbúningsstörf á þessu sviði. Greinargerð frá orkustefnunefnd liggur fyrir, eins og ég gat um áðan.

Ég tel það ekki skynsamlega leið, eins og lagt er til í þessari þáltill., að fara að kjósa stóriðjunefnd á vegum Alþingis sem samkv. efni till. á að gera að varanlegu fyrirbæri sem ráði sér framkvæmdastjóra og starfslið og greinilega er ætlað það öðru fremur að eiga viðræður við útlendinga, að ná í kaupendur að orkunni. Það er leiðarljósið, sem hv. flm. fylgja í sambandi við orkunýtingu í landinu, að selja hana til fyrirtækja í erlendri eigu að meiri hluta a.m.k. Ég tel ekki skynsamlegt að hræra saman verkefnum löggjafar- og framkvæmdavalds með þeim hætti sem tillaga þessi gerir ráð fyrir. Ég tel að framkvæmdavaldið eigi að sjá um undirbúning af þessu tagi. En það er eðlilegt að löggjafinn móti stefnu og það er ekki óeðlilegt að hann hafi eftirlitshlutverk í sambandi við stórmál af ýmsu tagi.

Ég tel að sú þáltill., sem hér er til umr., endurspegli úrelt viðhorf, sem meiri hluti þingflokks sjálfstæðismanna er því miður enn talsmaður fyrir. Ég hélt satt að segja að þeir hefðu eitthvað lært á því ári, sem liðið er síðan þeir fluttu slíka till. hér á Alþingi, og af þeirri umr. sem fram hefur farið síðan, þ. á m. á Orkuþingi á s.l. vori, þar sem þeir stóðu uppi einangraðir með sinn málflutning og orkusölustefnu. Till. endurspeglar vanmat á getu okkar Íslendinga til að hagnýta þá þýðingarmiklu auðlind sem orkan er í okkar landi, jafnt vatnsafl sem jarðvarmi. Það er talað um svo að vitnað sé til till. sjálfrar, að innlendir aðilar, sem þess óska, geti þegar í upphafi átt hlut í stóriðjufyrirtækjum og geti, „þegar fram líða stundir“, keypt hlut hinna erlendu aðila í þeim. Þetta er nú risið á þessari tillögu. Í till., sem flutt var í fyrra, var þetta orðað svo í grg., að þetta gæti gerst þegar Íslendingum „yxi fiskur um hrygg“, en það orðalag hefur verið tekið út í þessum tillöguflutningi nú. (ÞK: Er það slæm íslenska?) Nei, en það er, hv. þm. Þorvaldur Garðar, ekki mikil trú á eigin getu, getu okkar Íslendinga, að ætla sér í einhverri fjarlægri framtíð að gerast forræðisaðilar í þessum þýðingarmikla þætti atvinnuuppbyggingar í landinu. Svo virðist einnig sem í þessu orðalagi felist ekki mikil trú á stöðu okkar og efnahagslega getu í nútíðinni. Ég tel að við Íslendingar höfum komist sæmilega áfram í okkar atvinnulífi á undanförnum árum og sú vanmáttarkennd, sem skin út úr þessari till., sé því ástæðulaus.

Það segir í sama dúr í grg. með þessari till. á bls. 4, svo að vitnað sé orðrétt í það sem þar er tilgreint í þessum anda: „En rétt er að stefna að því með samning að Íslendingar eignist stóriðjufyrirtækin í landi sínu eftir því sem tímar líða og möguleikar eru fyrir hendi. Hafa verður í huga að farsælast er að atvinnurekstur hér í landi sé að sem mestu leyti í höndum innlendra einstaklinga og samtaka þeirra. Aðild ríkisins og sveitarfélaga kemur þó til greina um stundarsakir, „ — takið eftir, hv. þm., — “ kemur þó til greina um stundarsakir, þar til einkaaðilar hafa bolmagn til að taka við honum, þegar um er að ræða þjóðhagslega hagkvæma starfsemi sem ekki er grundvöllur fyrir með öðrum hætti.“

Mikil er trú þeirra hv. þm. á getu einkaframtaksins á Íslandi ef þeir ætla því að vera frumkvæðisaðilar í þeirri uppbyggingu og fjárfestingu sem hér er um að ræða, jafnvel þó ekki væri fyrr en stundir líða fram, eins og það er orðað í þessari grg.

Í 5. lið sjálfrar þáltill. kemur fram að verkefni stóriðjunefndar, sem hér er gerð tillaga um, skuli vera að „hún skuli eiga frumkvæði að og samræma samningaviðræður milli virkjunaraðila og annarra innlendra aðila annars vegar og stóriðjufyrirtækja hins vegar um eignaraðild, orkusölu, staðsetningu stóriðjuvera o.fl. og gera á grundvelli þeirra tillögur til ríkisstj. um framkvæmdir sem hún telur rétt að stofna til.“

Hér er þessi sama hugsun á kreiki: erlend stóriðja, og nefndin á að samræma aðgerðir innlendra aðila, orkuframleiðandans og annarra í sambandi við orkusöluna til útlendra fyrirtækja.

Í 7. lið fyrirliggjandi till. kemur greinilega fram að henni er ætlað að verða eins konar stofnun sem rekin sé af þessari þingkjörnu nefnd. Þar segir: „Stóriðjunefnd ráði sér framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn að fengnu samþykki nefndarinnar.“ Þetta eru mennirnir sem eru sem oftast að býsnast yfir nefndum og nefndafári. Þeir vilja koma upp fyrirtækjum af þessu tagi á vegum Alþingis.

Ég vil þá víkja aðeins að því að í þessari þáltill., þar sem erlend stóriðja er höfð að leiðarljósi, er hvergi minnst á hvaða viðmiðun hafa skuli í sambandi við orkuverð. Þar er ekki vikið einu orði að því, hvaða kröfur eigi að setja í sambandi við verðlagningu á þeirri auðlind sem á að fara í hendur útlendinganna. Það er kannske af því að þessir hv. þm. eru feimnir við að nefna eðlilegar kröfur og eðlilegar viðmiðanir í því sambandi, því að það mundi rifja upp ýmislegt í sambandi við leiðarljósið frá viðreisnarárunum sem við búum enn við hér suður í Straumsvík, í formi álversins þar, sem hirðir — fyrir gjafverð rösklega helminginn af þeirri orku sem Landsvirkjun framleiðir. Ég ætla ekki hv. flutningsmönnum það að gera ekki kröfur um annað og hærra raforkuverð. Ég ætla þeim satt að segja ekki slíkt. En af hverju setja þeir ekki fram einhverja viðmiðun um þetta atriði í sinni till.? Það er einkennilegt. Ég hélt að það væri lágmarkskrafa, ef menn ætluðu að fylgja stefnu af þessu tagi, að gerð væri sú krafa í sambandi við raforkuverðið, að það skili a.m.k. kostnaði við öflun orku frá nýjum virkjunum í landinu í framtíðinni og rafmagnið sé bærilega verðtryggt. Það hefði ég ætlað að þyrfti að fylgja ef menn ætluðu að leyfa sér að mæla fyrir orkusölu eins og hér er gert ráð fyrir. En það er ekki orð um þetta í till. Það er ekki minnst á það, hvaða viðmiðun eigi að vera í sambandi við orkuverð.

Hvernig í ósköpunum geta menn lagt fram tillögur af þessu tagi hér á hv. Alþingi og leitt gersamlega hjá sér að nefna hvaða viðmiðun beri að hafa um þennan þátt? Ætli það sé af því að menn eru að hampa því, svipað og gert var af hv. 1. flm. áðan, að hafa beri módelið Búrfellsvirkjun — álverið sem leiðarljós, þ.e. að líta einangrað á eina virkjun og einhvern orkukaupanda, sem á hana er hengdur, og segja: Þetta er bara gott, ef það dæmi gengur upp á tilteknu tímabili að stóriðja borgi orkuverðið upp á tilteknum árafjölda? Þetta er það sem borið er fram sem vörn fyrir hinum fráleita álsamning á 7. áratugnum af hans talsmönnum og er flutt sem vörn enn í dag, að tekjurnar af raforkusölunni til álversins í Straumsvík standi undir kostnaði Búrfellsvirkjunar, af langsamlega hagkvæmasta virkjunarkosti sem við áttum völ á.

Nei, góðir hv. þm: Ef við ætlum að fylgja slíku módeli, slíkum aðferðum í sambandi við verðlagningu á orku, þá þýðir litið að tala um að við njótum okkar innlendu orkulinda. Þá getur orðið dýrt að búa við þær þó svo að við náum þeim markmiðum sem voru hér til umr. í deildinni fyrr í dag í sambandi við jöfnun á orkuverði.

Ég vil aðeins rifja upp eitt atriði sem ég n.efndi fyrr í dag, sem segir dálitla sögu um það, til hvers það leiðir að fylgja slíku módeli eins og hv. flm. eru að bera fram þegar þeir eru að verja samninginn um álverið í Straumsvík. Árið 1970, þegar orkusala hófst til álversins í Straumsvík, var munurinn á heildsöluverði til álversins og heildsöluverði til almenningsveitna 81%. Í dag er þessi munur ekki 81%, heldur 413%, þ.e. munurinn á heildsöluverðinu til álversins í Straumsvík annars vegar og til almenningsveitna í landinu hins vegar. Hann hefur fimmfaldast. (Gripið ham í: Hverjir hafa verið iðnrh. undanfarin 7 ár?) Hverjir hafa verið iðnrh. undanfarin 7 ár? spyr hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Þetta var ágæt spurning. Er hv. þm. að gera kröfu til þess, að iðnrh. undanfarandi ára hafi náð fram breytingum á álsamningnum, sem þeir sjálfstæðismenn eru að verja dögum oftar sem lýsandi leiðarljós og taka varla undir kröfur um lágmarksleiðréttingar á þeim samningi? Þá er bara vísað á að það hefði átt að taka sig á á síðustu árum og breyta samningi sem Sjálfstfl. og Alþfl. gerðu 1966 til ársins 2014 án teljandi möguleika á endurskoðun á þessu tímabili. Það er von að hv. þm. komi fram með kröfur um það. Ég þakka kærlega fyrir ef hv. þm. ætlar að gerast liðsmaður í því efni að knýja fram breytingar á þessum fráleita samningi, eins og að er stefnt af stjórnvöldum nú.

Það mætti margt segja í sambandi við þessa till. fleira. En það stingur sannarlega í augu, að ekki eru reist þar nem merki í sambandi við orkuverð þó að leiðarljósið sé orkusala til erlendra fyrirtækja. Ég vil að mönnum sé alveg ljós sá grundvallarmunur sem hlýtur að vera á þeim kröfum sem gerðar eru um orkusölu til útlendinga annars vegar og til innlendra fyrirtækja í landinu hins vegar.

Ef við eigum þetta við sjálfa okkur skiptir ekki öllu máli hvar hagnaðurinn er tekinn, hvort hann er tekinn í gegnum orkuverðið eða þann hagnað sem við höfum af fyrirtækinu að öðru leyti, ef það er í opinberri eigu og í höndum okkar Íslendinga. Þess vegna er það ekki réttmætur samanburður, sem borinn er fram af ýmsum hv. sjálfstæðismönnum og átrúnaðargoðum þeirra, eins og framkvæmdastjóra álversins í Straumsvík, og lesa mátti um fyrir skömmu í Morgunblaðinu þar sem hann var að bera saman orkuverð í Noregi og í Kanada annars vegar og það orkuverð sem ÍSAL greiðir. Ég ætla ekki að fara út í þær tölur hér, ég hef tekið þær fyrir á öðrum vettvangi. En ég vil benda á þann grundvallarmun sem er á verðlagningu á orku til innlends fyrirtækis annars vegar, ef fyrirtækið er arðbært, og hins vegar til erlends aðila, þar sem eini hagnaðurinn fyrir auðlindina á að skila sér í gegnum orkuverðið ef verið er að selja til útlendinga. Þess vegna er það ekki sambærilegt þegar við erum að líta á orkuverð til orkufreks iðnaðar í Noregi, sem er nú að langmestu leyti í höndum Norðmanna sjálfra, eða í Kanada, sem er að meiri hluta í eigu Kanadamanna. Alcan, sem framleiðir megnið af álinu í Kanada, kaupir orkuna af eigin orkuverum. Alcan á það við sjálft sig hvað það reiknar orkuverðið úr eigin orkufyrirtækjum. Það er sjálfsagt ýmislegt sem kemur inn í þá mynd, skattaatriði og fleira, hvort það tekur hagnaðinn í gegnum sölu afurðarinnar eða í verðlagningu á orkunni og í sambandi við orkuverin.

Það var vikið að því af hv. 1. flm. þess máls sem hér er til umr., að framkvæmdir í orkufrekum iðnaði eigi að miðast við atvinnuþörf þjóðarinnar og byggðaáætlanir, og ég hygg að það orðlag sé að finna í grg. með till. Ég vil taka undir það, að orkufrekur iðnaður getur rennt stoðum undir atvinnulíf í landinu á næstu árum og áratugum. Ég vænti þess, að hann geri það svo að um muni. En við eigum ekki að líta á það fyrst og. fremst sem lausn til atvinnusköpunar í landinu ef við eigum annarra kosta völ. Það er mjög mikil fjárfesting á bak við störf sem skapa þarf með orkufrekum iðnaði, og við eigum því aðeins að standa að slíku að um arðbær fyrirtæki sé að ræða sem skili hagnaði á heildina litið, bæði fyrir orku og þær afurðir sem framleiddar eru. Við eigum ekki að fara að byggja hér upp orkufrekan iðnað til þess að leysa atvinnuvandamálin í landinu, nema við séum vissir um að geta haft þar forræði og að um arðbæran rekstur sé að ræða. Við eigum ekki að líta einhliða á þetta mál. Við eigum að hafa alla möguleika með þegar við athugum atvinnuþróun á Íslandi, möguleika okkar hefðbundna atvinnulífs og vaxtarbrodd sem af því getur sprottið. Margt í þeim efnum getur skilað þjóðhagslega meira en það sem um er rætt í orkufrekum iðnaði og með langtum minni tilkostnaði. Þetta þarf að taka inn í myndina þó að ég dragi ekkert úr því að orkufrekur iðnaður getur staðið undir tiltölulega háu kaupgjaldi. Launin eru ekki hár hluti af framleiðslukostnaði í slíkum iðnaði og hann skapar ýmis störf til hliðar, hefur margföldunaráhrif sem svo eru kölluð.

Herra forseti. Það mætti sannarlega margt um þetta mál segja fleira. Ég hef aðeins vikið hér að fáu af því sem ástæða væri til að ræða, en ég skal fara að stytta mál mitt því að ég mun víkja að þessum málum síðar í þessari umr. og í sambandi við þáltill. ríkisstj. um orkunýtingu sem rædd verður hér væntanlega innan tíðar.

Hv. 1. flm. gerði álsamninginn enn einu sinni að umræðuefni að eigin frumkvæði. Það er einkennileg sektarkennd sem þjakar hv. þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, að vera aftur og aftur nánast að tilefnislausu að rísa upp hér á hv. Alþingi og verja þennan hraksmánarlega samning eins og hann litur út nú. Það eru ekki við stjórnarsinnar sem eru að kveikja slíkar umr., heldur gerðist það á síðasta þingi og aftur nú, þrátt fyrir allt sem fram hefur komið í sambandi við það fyrirtæki, að þeir, sem að samningum stóðu, sjá sig knúna til þess að setja hér á varnarræður miklar og stórar fyrir þennan endemissamning. Ég held að við eigum ekki að eyða mjög miklu máli í að ræða um þá fortíð, jafndapurleg og hrikaleg eins og hún raunverulega er. Við eigum miklu frekar að reyna að sameinast um að knýja þar fram nauðsynlegar leiðréttingar.

Hv. 1. flm. orðaði það svo hér áðan, að það væri fjarstæða fyrir okkur Íslendinga að hugsa til þess að eignast meiri hluta í núverandi bræðslu í Straumsvík. Þetta sagði hann mjög skýrt. Ég vil spyrja ykkur, hv. þm.: Eruð þið alveg vissir um þetta? Ætlið þið að taka undir það einum rómi, að þetta þurfi að vera fjarstæða? Hvað segðuð þið um það, ef við Íslendingar gætum gert samninga um að eignast meiri hluta í þessu fyrirtæki og ná jafnframt fram leiðréttingu á raforkuverði svo að um muni, kannske allt að því marki að það svari til kostnaðar við raforkuframleiðslu úr nýjum virkjunum í landinu? Munduð þið hafna slíku án athugunar? Ég spyr. (Gripið fram í: Er þetta á borðinu?) Af hverju eru menn með svona yfirlýsingar, hv. þm. Tryggvi Gunnarsson? Þetta er einn af þeim möguleikum sem geta verið til álita. Ég held að við ættum ekki að hafna þeim án þess að athuga þá vandlega.

Það mætti sannarlega margt segja í sambandi við samning þann sem hér hafa verið haldnar varnarræður fyrir. Menn virðast trúa því margir hverjir, að þarna hafi verið um taprekstur að ræða, eins og bókhaldið frá álverinu í Straumsvík ber vott um á liðnum árum, — verksmiðja, sem hefur verið rekin á rauðum tölum flest árin og stillt af í gegnum hráefnaverðið svo að útkoman verði slík, ekki bara til þess að hlunnfara þá aðila sem samið hefur verið við, heldur til þess jafnframt að hafa rök á hendi til þess að hafna eðlilegum og sanngjörnum kröfum Íslendinga um leiðréttingu á raforkuverðinu. (Gripið fram í: Af hverju gerðir þú ekki athugasemdir við reikningana?) Það hefur verið borið fram af talsmanni þessa fyrirtækis og er gert enn og prentað feitu letri í Morgunblaðinu dögum oftar, að afkoman hjá þessu fyrirtæki sé svo bág að það þoli ekki að greiða hærra raforkuverð. (Gripið fram i.) Og undir slíkt er tekið. (Gripið fram í: Þess vegna er það hann sem ber ábyrgðina.) Síðan segja hv. þm., eins og Eyjólfur Konráð Jónsson, að það sé hörmulegt að iðnrn. skuli hafa dregið fram í dagsljósið, hvernig hagað er bókhaldi hjá þessu fyrirtæki, og hafa uppi kröfur um að þetta sé tekið út af borðinu eins og það hafi aldrei gerst. Ég veit ekki betur en hv. 1. flm. væri áðan að tala um að svo illa hefði verið haldið á málum með því að draga fram atriði úr rekstri þessa fyrirtækis í sambandi við aðföng hráefna að það stórspillti fyrir okkur Íslendingum, við værum að glata möguleikum á að fá hækkað raforkuverð og stækka þetta fyrirtæki í samvinnu við þennan aðila. Mörgu má nú fram halda. Hvað eiga menn að vinna með stækkun álversins í Straumsvík? Vilja menn með slíkri stækkun fá fram einhverja pappírshækkun á raforkuverði? Af hverju vilja menn ekki knýja á um það að fá hækkun á raforkuverðinu hjá því fyrirtæki, sem nú stendur í Straumsvík, og á þeim samningi sem þar liggur fyrir? Af hverju þarf að tengja slíkt stækkun? Ætli sé ekki best að sjá fyrst framan í það, að vilji sé á því að leiðrétta það raforkuverð, sem um var samið á sínum tíma, og færa það til eðlilegs horfs?

Herra forseti. Sú till. hv. sjálfstæðismanna, sem hér liggur fyrir til umr. um stóriðjunefnd og orkusölu til útlendinga, er álíka rislág og það minnismerki um erlenda stóriðju sem Sjálfstfl. átti mestan hlut að að koma upp í Straumsvík. Við þurfum á öðru að halda en að fjölga slíkum minnismerkjum. Við skulum sameinast um það, hvar í flokki sem við stöndum. Ég vænti þess, að hv. flm. þessarar till. sjái að sér og þeir leggi góðum málum lið í sambandi við uppbyggingu orkufreks iðnaðar undir íslensku forræði í framtíðinni. Þeir ættu að standa þétt að því með stjórninni að fá fram leiðréttingu á því sem mest hefur farið aflaga í fortíðinni. Ég vil láta þau orð vera mín síðustu að þessu sinni.