10.03.1982
Efri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

232. mál, öryggisráðstafanir gegn jónandi geislum

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir litlu frv. til breytinga á lögum frá 1962 um öryggisráðstafanir gegn jónandi geislum frá geislavirkum efnum eða geislatækjum. Frv. gerir ráð fyrir að heimilt verði að taka upp eftirlit með geislatækjum þótt geislar þeirra séu ekki jónandi og að þetta eftirlit fari fram á vegum Geislavarna ríkisins. Hér er um að ræða lampa af ýmsu tagi sem talsvert hafa verið notaðir á undanförnum árum og hefur notkun þeirra færst í vöxt. Sem dæmi má nefna örbylgjuofna, gigtarlampa, sólarlampa og fleira þess háttar.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða um mál þetta — hér er um að ræða sjálfsagt og einfalt öryggismál — og legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.