14.10.1981
Efri deild: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Víst er ástæða til að fagna því, að lagt skuli fram enn einu sinni frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands sem markar henni starfsgrundvöll og vettvang. En öðruvísi mér áður brá. Á undanförnum þingum hefur þetta frv. venjulega komið fram svona tveimur vikum fyrir þinglok, gerðist síðast á þinginu í fyrra, og hæstv. menntmrh. ætlaðist þá til að það yrði afgreitt á skömmum tíma, athugunarlitið að því er virtist. En batnandi manni er best að lifa og nú leggur hæstv. ráðh. frv. fram í þingbyrjun og leggur greinilega mikið kapp á að málið komi til umr. sem allra fyrst.

Ég gerði á s. l. vori nokkrar athugasemdir við þetta frv. og vil gjarnan minna á þær hér að nýju.

Það er þá í fyrsta lagi hvernig ráð er fyrir gert að rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar verði fjármagnaður. Hér segir, með leyfi forseta, í 3. gr.: „Ríkissjóður 56%, Ríkisútvarp 25%, borgarsjóður Reykjavíkur 18% og bæjarsjóður Seltjarnarness 1%.“

Ég tel þessa fjáröflun og þessa fjármögnun á starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar að ýmsu leyti óeðlilega. Ég tel að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eigi að leggja sitt af mörkum til þessa rekstrar, og í öðru lagi, sem er höfuðatriði þessa máls, er fullkomlega óeðlilegt, eins og fjárhag Ríkisútvarpsins er nú háttað, að það standi undir fjórðungi af rekstarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur hneppt Ríkisútvarpið í fjárhagslega spennitreyju og fjárhagslegar viðjar, og þessi greiðsla er þeirri stofnun gersamlega um megn. Þegar hefur þurft á þessu ári að draga saman dagskrá, beita margvíslegum sparnaði til þess að rýra og megra dagskrána, þá er þetta óeðlilegt. Og ég legg áherslu á það sem skoðun mína, að sú nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, leiti annarra leiða til fjármögnunar á rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar heldur en þeirra að láta RÍkisútvarpið, sem berst í bökkum fjárhagslega, greiða þessi 25%.

Þetta er höfuðatriði gagnrýni minnar á þessu frv. Ég minnist þess, að hæstv. menntmrh. kallaði þessa gagnrýni í fyrra nagg, hann á sjálfsagt eftir að gera það hér aftur. En það verður að hafa það. Mér finnst þetta vera töluvert veigamikið atriði í þessu máli eins og fjárhag Ríkisútvarpsins er háttað og eins og hæstv. menntmrh. hefur talið æskilegt að búa að rekstri þessarar stofnunar nú þegar hún er hálfrar aldar gömul.

Það voru önnur atriði sem ég spurði hæstv. menntmrh. um í fyrra í sambandi við þetta frv., en fékk engin svör. Ég spurði hvernig skilja bæri ákvæði 2. gr., niðurlagsorðin: „Tengja ber starf hljómsveitarinnar tónlistarkennslu í landinu svo sem kostur er.“ Með hvaða hætti er hugsað að þetta verði framkvæmt? Með hvaða hætti á að framkvæma þetta?

Sömuleiðis þykir mér að markið sé ekki ýkjahátt sett í síðustu mgr. 3. gr. þar sem segir — með leyfi forseta: „stefna að því að eigi minna en 12% af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greidd af slíkum tekjum hennar“, þ. e. a. s. tekjum af sjálfstæðu tónleikahaldi. Þarna held ég að mætti setja markið hærra.

Í þriðja lagi benti ég á atriði í 6.gr. frv. og raunar tók hæstv. ráðh. undir það á sínum tíma. Ég sé ekki nauðsyn þess, að Sinfóníuhljómsveitin þurfi sérstaka lagaheimild til að fá til flutnings verk hjá tónskáldum. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli, og ég minnist þess, að hæstv. ráðh. tók vel í að hugað yrði að þessu og þetta fellt niður, en það hefur ekki verið gert.

Þetta eru, herra forseti, þær athugasemdir, sem ég hef við þetta frv. að gera á þessu stigi máls.