10.03.1982
Efri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

93. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á 103. löggjafarþingi lagði ég fram fyrir hönd ríkisstj. frv. til l. um atvinnuréttindi útlendinga. Frv. náði þá ekki fram að ganga, en það hefur nú þegar sætt meðferð í hv. Nd.

Frv. er afurð af starfsemi nefndar sem ég skipaði 18. mars 1980 í samráði við verkalýðssamtökin og atvinnurekendur. Í nefndinni áttu sæti Ásmundur Stefánsson, Ingimar Sigurðsson, Jón S. Ólafsson, Jósef Kristjánsson, Þorsteinn Pálsson og Arnmundur Backman, sem var jafnframt formaður nefndarinnar. Auk þess störfuðu með nefndinni þeir Hjörtur Hermannsson framkvæmdastjóri og Þórir Daníelsson framkvæmdastjóri.

Þessi nefnd tók að sér tvö meginverkefni: annars vegar að vinna að víðtækri könnun á rétti og aðbúnaði innlendra farandverkamanna með það fyrir augum að semja nýjar reglur þar að lútandi og hins vegar að könnun á stöðu og rétti erlendra verkamanna hér á landi, gildandi ákvæðum samninga og laga á hinum Norðurlöndunum hvað þessu viðvíkur, í þeim tilgangi að endursemja frv. um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi. Nefndin gerði tillögur til mín um aðbúnað farandverkafólks og nú nýlega gekk ég frá reglugerð um það efni á grundvelli laga um hollustuhætti og hollustuvernd. Þá gerði hún tillögur um frv. það sem hér liggur fyrir til meðferðar.

Helstu breytingarnar, sem frv. þetta felur í sér, eru þær, að þar er gert ráð fyrir að skilyrði þess, að atvinnuleyfi megi veita útlendingi, séu, auk þess að fyrir liggi umsögn verkalýðsfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein, að við umsókn liggi einnig fyrir undirskrifaður ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og viðkomandi starfsmanns til tiltekins tíma eða verkefnis. Þessi ráðningarsamningur á að tryggja erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn ásamt tilvísun til þess kjarasamnings sem um starfið gildir. Í ráðningarsamningi þessum skulu vera ýmsar upplýsingar sem varða starfskjör útlendings hér á landi. Er gert ráð fyrir að ráðningarsamningurinn liggi fyrir undirskrifaður þegar sótt er um atvinnuleyfið og þar verði ákvæði þess efnis, að viðkomandi starfsmaður hafi kynnt sér þær upplýsingar sem nú er lagt til að félmrn. gefi út og dreifi erlendis, sbr. 5. gr. frv. þessa, áður en skrifað er undir samninginn.

Frv. hefur fengið mjög rækilega meðferð og verið haft samráð við dómsmrn., sem hefur með að gera útlendingaeftirlit hér á landi, og milli dómsmrn. og félmrn. og embættismanna þessara ráðuneyta er fullt samkomulag um þennan texta eins og hann nú liggur fyrir, en hv. félmn. Nd. gerði við meðferð málsins nokkrar lagfæringar, en engar stórar efnisbreytingar.

Þegar málið var til meðferðar í nefndinni kom fram að því er varðar 3. gr. ágreiningur af hálfu Þorsteins Pálssonar fulltrúa Vinnuveitendasambandsins, þar sem hann taldi að þær kröfur, sem frv. gerði í öndverðu um vottorð og fleira, væru óþarflega viðamiklar. Ég tel að nefndin í Nd. og hv. Nd. síðan hafi komið nokkuð til móts við þau sjónarmið sem fram koma af hálfu Þorsteins Pálssonar í séráliti hans, en það sérálit er birt sem fskj. með frv. á þskj. 96.

Þetta frv. er til orðið í framhaldi af viðræðum ríkisstj. við verkalýðssamtökin og atvinnurekendur í tengslum við kjarasamninga á árunum 1979 og 1980. Það hefur, eins og ég sagði, fengið allrækilega meðferð af hálfu embættismanna og annarra sem um þessi mál eiga að véla. Ég vona að á þessu séu ekki tæknilegir hnökrar. Hér er um það að ræða að reyna að tryggja útlendum ríkisborgurum eðlileg starfsréttindi á Íslandi til samræmis við Íslendinga þannig að ekki þurfi að koma hér til spennu og átaka á vinnustöðum milli Íslendinga og útlendinga sem annars er hætta á og við þekkjum því miður mörg dæmi um af blaðafréttum erlendis frá og hafa komið upp þar sem útlendir starfsmenn hafa iðulega orðið að sæta mun lakari kjörum og aðbúnaði en hið innlenda verkafólk. Ég tel því, að hér sé um að ræða mikilsvert réttindamál og nauðsynlegt málefni á alla lund og legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.