10.03.1982
Efri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2954 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir flestöll af þeim meginsjónarmiðum, sem komu fram hjá síðasta hv. ræðumann, og ætla ekki hér og nú að fjalla nánar um þær brtt. sem lagðar hafa verið fram. Ég tel að þær séu allar, nema sú fyrsta, þess eðlis, að þær muni raska mjög þeirri samstöðu og því samkomulagi, sem tekist hefur að þróa um lagagrundvöll Sinfóníuhljómsveitarinnar, og það geti verið mjög varhugavert af hálfu þingsins að samþykkja brtt. þessa efnis.

En aðalerindi mitt hingað var að greina frá því, að mér hefur borist bréf frá Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og það hefur að geyma tillögur sem samþykkt var samhljóða á fundi Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands 8. mars s.l. Till., sem varð að ályktun Starfsmannafélagsins, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur haldinn í Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands lýsir ánægju sinni með frv. það til. l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands sem nú liggur fyrir og er til umræðu á Alþingi. Beinir Starfsmannafélagið þeim eindregnu tilmælum til þingmanna að samþykkja frv. óbreytt og vill vekja athygli á því, að við gerð frv. hafa unnið menn sem gerst þekkja til um rekstur hljómsveitarinnar. Fram bornar brtt. telur Starfsmannafélagið ekki vera til bóta. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur sannað tilverurétt sinn svo að ekki verður um deilt. Eftir rúmlega þriggja áratuga starf í öryggisleysi og óvissu á hljómsveitin siðferðilegan rétt á, að tilvist hennar verði tryggð, og þjóðin öll á heimtingu á því, að þessi hornsteinn íslensks tónlistarlífs verði lögfestur.“

Hér lýkur lestri þessarar tillögu sem varð að shlj. ályktun í Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég held að þessi ályktun sýni okkur að það geti verið hæpið að setja Sinfóníuhljómsveitinni þann stjórnunarramma sem gert er með þessum brtt.: að færa framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar það mikla vald sem honum er fangið í hendur með þessum brtt., leggja niður verkefnavalsnefnd og tengja saman í eina heild rekstrarlega stjórn hljómsveitarinnar og verkefnavalið. Ljóst er að þeir, sem starfað hafa við hljómsveitina á undanförnum árum, eru nær allir sammála um að núv. stjórnunar- og rekstrarform hafi gefist vel. Mér hefur borist greinargerð frá forustumanni íslenskra tónlistarmanna þar sem hann víkur að því, að sú samtenging á rekstrarlegri stjórn og verkefnavali, sem lögð er til í þessum brtt., þekkist varla nokkurs staðar þar sem sinfóníuhljómsveitir starfa. Ég held að reynsla annarra þjóða af rekstri sinfóníuhljómsveita ætti þess vegna að vera okkur viss fyrirmynd í þessum efnum og við ættum ekki að fara að raska þessu stjórnunarfyrirkomulagi, enda hefur ekki mér vitanlega verið deilt mjög um það á undanförnum árum.

Það væri mjög fróðlegt ef flm. þessarar brtt. gætu upplýst hvaða aðilar í tónlistarlífi landsins, forsvarsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar eða starfsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar eða þeir, sem staðið hafa að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, telja æskilegt að stjórn hljómsveitarinnar verði fyrir komið með þeim hætti sem lagt er til í brtt. Ef staðreyndin væri sú, að fram hefðu komið einhverjar ákveðnar óskir frá þessum aðilum um breytingar á stjórnunarfyrirkomulaginu, þá held ég að nauðsynlegt sé að það verði upplýst hér. En með allri virðingu fyrir okkur þm. held ég að það sé hæpið að við förum að sniða nánast úr okkar hugarheimi stjórnunarform fyrir þessa menningarstarfsemi, ef það er andstætt vilja þeirra sem bera menningarstarfsemina uppi, og sú ályktun, sem samþykkt var af Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitarinnar, leiðir glögglega í ljós að hljóðfæraleikararnir og starfsmennirnir við hljómsveitina eru andvígir þeim stjórnunartillögum sem hér eru lagðar fram.

Hitt er svo rétt, sem fram hefur komið í þessum umr., að það hefur verið mjög deilt um fjárhagslegan grundvöll Sinfóníuhljómsveitarinnar og bæði þátttöku annarra stofnana eins og Ríkisútvarpsins og Þjóðleikhússins og ríkis og sveitarfélaga í þeim þætti málsins. Eins og hér hefur komið fram hafa komið fram óskir um að það verði upplýst, hvort þetta frv. hefði í för með sér einhvern verulegan kostnaðarauka. Ég tel rétt að menntmrh. svari fyrir það ef hann hefur gefið loforð um að veita þær upplýsingar. (Gripið fram í.) Nei, ég tel rétt að hann geri það. Þær óskir komu ekki fram formlega gagnvart nefndinni, að nefndin aflaði sér þessara upplýsinga, og hæstv. ráðh. lét aldrei í ljós við nefndina þá skoðun, að hann teldi nauðsynlegt að veita neinar viðbótarupplýsingar né að hann væri með neinar viðbótarupplýsingar í undirbúningi. En það er vandamál sem sjálfsagt verður hægt að leysa hér og er tímabundið. Hitt væri hins vegar alvarlegra mál að mínum dómi, ef hæstv. Alþingi færi að afgreiða hér eftir mjög erfiða fæðingu á undanförnum árum frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands sem væri í mörgum veigamiklum þáttum í algerri andstöðu við vilja starfsmanna hljómsveitarinnar.