10.03.1982
Efri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. segist hafa bréf upp á að þetta frv. hafi verið unnið af mönnum sem gerst þekkja til, og hann segist hafa bréf upp á að Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitarinnar sé á móti öllum breytingum. Hann virðist gera þetta sjónarmið að sínum málstað því að hann orðar það svo, að hann vari við öllum breytingum á frv. Auk þess er hann haldinn áfram þeirri áráttu, sem hefur komið áður fram í þessum umr., að það mætti yfirleitt ekki og væri ekki ráðlegt að breyta neinu í þessu frv.

Það er dálitið einkennilegt við afgreiðslu máls á Alþingi, að það skuli vera lögð svo mikil áhersla á að þm. megi ekki breyta neinu sem lagt er þeim í hendur. Ég hygg að þetta sjónarmið sé nokkuð einstaki. En hv. 11. þm. Reykv. fór ákaflega létt í að skýra hvers vegna mætti ekki breyta neinu í þessu frv. Það verður ekki komist hjá því að leita eftir skýringum á því, hvers vegna engu megi breyta. Hvers vegna má ekki samþykkja 1. brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. á þskj. 373? Ég óska eftir skýringu á þessu. Hv. 11. þm. Reykv. sagði ekkert um hvers vegna það mætti ekki.

Hv. 3. þm. Vesturl. vék að tveim atriðum. Annað var að ekki væri ástæða til að taka fram, eins og við flm. brtt. gerum með okkar brtt., að Sinfóníuhljómsveitin miði að því að auka tónmenningu Íslendinga, efla áhuga og þekkingu á æðri tónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar, m.a. með tónleikahaldi sem víðast um landið og með tónlistarflutningi í útvarp. Hv. 3. þm. Vesturl. gerir aths. við það. Hann gerði aðra aths. við þessa brtt. í brtt. segir: „Sérstaka áherslu ber að leggja á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar, utan lands sem innan, ef tilefni gefast.“ Hv. 3. þm. Vesturl. gerir aths. við þetta. (DA: Ég held að þetta sé sjálfsagt.) Nú kallar hv. þm. fram í fyrir mér og segir að þetta sé sjálfsagt. Ég lít svo á að í þessu frammíkalli felist að honum finnist sjálfsagt að greiða atkv. með þessari brtt. Læt ég þá útrætt um 1. brtt. á þskj. 373.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að það fælist móðgun í till. okkar hv. 4. landsk. þm. um að fella niður úr frv. að sveitarsjóður Seltjarnarness skyldi standa undir rekstri hljómsveitarinnar að 1%. Hvað ætti þá að segja um þau mörgu sveitarfélög í landinu sem hefur ekki verið boðinn sá heiður? Er þá búið að móðga nær öll sveitarfélög í landinu? Það er algerlega út í hött að tala um móðgun í þessu sambandi.

Það eru tvær ástæður fyrir því, að það séu einungis ríkissjóður, Ríkisútvarpið, og borgarsjóður Reykjavíkur sem standi að rekstri hljómsveitarinnar. Það er í fyrsta lagi, að þessir aðilar hafa staðið að rekstri hljómsveitarinnar frá upphafi. Og það er í öðru lagi, að þessir aðilar eiga eitt sameiginlegt sem ýmsir aðrir eiga ekki sameiginlegt með þeim. Ríkissjóður er eign allra landsmanna. Ríkisútvarpið er eign allra landsmanna. Höfuðborg Íslands er höfuðborg allra landsmanna. Það er þetta sjónarmið sem sker úr. Það á ekki að taka inn sveitarsjóð Seltjarnarness frekar en bæjarsjóð Kópavogs, Garðabæjar eða sveitarsjóð Mosfellshrepps eða bæjarsjóð Ísafjarðar eða Akureyrar. Það skiptir hér ekki máli hvort sveitarfélag er í nálægð við Reykjavík eða ekki. Það skiptir máli að Sinfóníuhljómsveitin er eign og stofnun allra landsmanna, en ekki hluta þjóðfélagsþegnanna. Ég verð að segja að ég fæ ekki séð hvaða hætta er fólgin í því að fylgja brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. um að fella 1% framlag bæjarsjóðs Seltjarnarness niður og bæta því við hlut ríkissjóðs. Ég hef ekki heyrt nein frambærileg rök gegn þeirri breytingu.

Þá vék hv. 3. þm. Vesturl. að brtt. okkar við 4. gr. frv. Hv. 11. þm. Reykv. gerði raunar enga tilraun til að færa fram nokkur rök máli sínu til stuðnings eða fyrir því að vara við því, að nokkrar breytingar væru gerðar. En hv. 3. þm. Vesturl. gerði tilraun til að færa rök fyrir sínu máli. Hv. 3. þm. Vesturl. er á móti því að fjölga í stjórn hljómsveitarinnar, eins og við leggjum til með okkar brtt. Hann sagði ekkert um það, hvers vegna hann er á móti því að fulltrúi frá Tónskáldafélagi Íslands eigi sæti í stjórn hljómsveitarinnar. Hann sagði ekkert um það, hvers vegna hann er á móti því að skólastjóri Tónlistarskólans sé í stjórn hljómsveitarinnar. Þetta er breytingin sem við gerum tillögu um. Við gerum ráð fyrir og leggjum til að allir hinir fimm, sem yrðu í stjórn hljómsveitarinnar, væru hinir sömu og gert er ráð fyrir í frv. Það væri fróðlegt að heyra einhver rök fyrir þessu. Hvers vegna eru menn á móti þessu?

Ég skal ekki gera leik að því að lengja þetta mál. Ég vík aðeins að aðalatriðunum í því sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. Hann vék að þeirri brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. að leggja niður verkefnavalsnefndina. Hann taldi að það væri ákaflega þýðingarmikið að hafa þá nefnd, reynslan væri sú. Hv. 11. þm. Reykv. lagði mikla áherslu á að það hefði reynst svo vel að hafa sérstaka verkefnavalsnefnd að þar mætti ekki breyta. Ég hef áður í umr. um þetta mál lýst því, hvers vegna við gerum brtt. um að leggja niður verkefnavalsnefndina og gerum ráð fyrir að verk hennar sé unnið af stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar eða hljómsveitarráði, eins og við köllum það. Ég hef skýrt það, að það væri misráðið að hafa tvo stjórnunaraðila í þessu efni og skilja svo mjög á milli fjárhagshliðar og hinnar listrænu hliðar vegna þess að í rekstri hljómsveitarinnar væri það hvort öðru nátengt og háð. Slík tvö stjórnvöld stuðluðu að því að dreifa ábyrgðinni og gera stjórn hljómsveitarinnar veikari en ella og væri hætt við að menn skytu sér undan ábyrgð fyrir fjárhagslegum rekstri hljómsveitarinnar með því að segja að þeir hafi farið að tillögum verkefnavalsnefndarinnar í verkefnavali. Við teljum að það fari best á því, að í hljómsveitarráði séu menn sem bæði hafa fjármálalega þekkingu og tónlistarþekkingu, og vörum við að ganga út frá því, að tónlistarunnendur eða þeir, sem hafa þekkingu á tónlist, kunna að lesa nótur t.d., þurfi að vera einhverjir fávitar í fjármálum. Það á ekkert frekar við um sérhæfða menn á tónlistarsviði en sérhæfða menn á öðrum sviðum:

Þetta er skoðun okkar, sem flytjum brtt., en hv. 11. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Vesturl. segja að reynslan sé allt önnur. Við teljum okkur miða við reynslu þegar við flytjum þessa till., en því til áréttingar leyfi ég mér að vitna í skýrslu ríkisendurskoðunar fyrir árið 1981 um starfsemi hljómsveitarinnar, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Verkefnavalsnefnd starfar ákaflega sjálfstætt. Nefndin er aðeins stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands til aðstoðar og því er það stjórnin sem ætti að leggja endanlega hönd á starfsáætlun og verkefnaval. Svo virðist þó ekki vera. Verkefnavalsnefnd setur saman starfsáætlun. Þótt stjórn sinfóníuhljómsveitar Íslands mælist til að nefndin taki mið af fjárhagsgetu hljómsveitarinnar er ekki um að ræða nokkra beina samhæfingu á milli starfsáætlunar og fjárhagsáætlunar.“ — Og enn fremur segir í þessari sömu skýrslu ríkisendurskoðunarinnar: „Alvarlegur veikleiki í stjórnkerfi hljómsveitarinnar felst í aðskilnaði listrænnar framkvæmdastjórnar og fjárhagslegrar.“

Ég ætla ekki að fara að fjölyrða um þetta álit ríkisendurskoðunarinnar, en ég held að því verði ekki neitað, að það kemur heim við skoðanir okkar hv. 4. landsk. þm. og till. okkar um breytingar í þessu efni falla að þessu sjónarmiði.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að sér félli ekki vel að gert væri ráð fyrir því í frv., að stefna ætti að því að eigi minna en 12% af útgjöldum hljómsveitarinnar fengjust greidd af tekjum hennar. Hv. 3. þm. Vesturl. fann að þessu og ég er honum sammála. Ég færði rök fyrir brtt. okkar um að fella þessi 12% niður og orða greinina á annan veg. Ég færði rök fyrir því þegar ég mælti fyrir tillögunum. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þau hér. En mér sýnist að það sé augljóst, að ef hv. 3. þm. Vesturl. er andvígur þessu efni í frv. hljóti hann að greiða atkv. með brtt. sem lagfærir það.

Þá var það annað atriði sem hv. 3. þm. Vesturl. fann líka að frv. og að mínu viti réttilega. Hann tók fram að gert væri ráð fyrir því í 6. gr. frv. að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar réði hljómsveitarstjóra, en það sé ekki talað um til hve langs tíma. Hv. þm. taldi þetta ekki af hinu góða og vera varhugavert. Ég er honum sammála. En í brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. er bætt úr þessu. Þar segir að hljómsveitarráð ráði hljómsveitarstjóra til tveggja ára í senn. Ég fæ ekki séð annað en hv. 3. þm. Vesturl. hljóti að vera með brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. Brtt. lagar það sem hann finnur að.

Er þá orðið fátt um væna drætti varðandi umr. um þetta mál eins og það nú stendur. Ég vík því aftur einu orði að því sem er helst bitastætt, og það er varðandi brtt. okkar um að leggja niður verkefnavalsnefndina.. Ég er áður búinn að koma inn á rökin fyrir því að gera slíkt, en ég segi: Ef menn vilja ekki fallast á þau rök eða geta það ekki að öllu leyti, þá er engin hætta á ferðum vegna þess að það er ekkert í brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. sem bannar að það sé sett upp verkefnavalsnefnd. Hljómsveitarráð getur gert það hvenær sem það vill, en það er ekki skylda. Sá er munurinn. En er þetta þá óraunhæft hjá okkur sem stöndum að brtt.? Nei, það er ekki hægt að segja það. Þetta er búið að vera svo frá því að hljómsveitin var stofnuð og þó eru engin lög. Nei, ég held að menn sjái að það er einhver þráhyggja og ekkert annað en þráhyggja að halda við það, að ekki megi breyta þessu ákvæði varðandi verkefnavalsnefndina.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um þessar brtt. á þskj. 373, nema þá að gefnu frekara tilefni. En það er komin fram brtt. á þskj. 412, brtt. við 3. tölul. í brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. og fjallar um að niður falli það ákvæði í brtt. okkar hv. 4. landsk. þm., að formaður hljómlistarráðs skuli vera tónlistarmaður. Ég viðurkenni að það eru tvær hliðar á þessu máli. Það þarf ekki að vera sjálfgefið að það þurfi að setja það skilyrði, að formaður hljómlistarráðs sé tónlistarmaður. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, en vil aðeins segja að ég get fellt mig við hvort heldur er og við flm. brtt. á þskj. 373 setjum okkur ekki upp á mót brtt. á þskj. 412, brtt. hv. 4. þm. Reykn.

Það hefur verið talað um að þetta frv., sem við nú ræðum, hafi verið samið af þeim, sem eru gagnkunnugastir þessum málum, og frv. hafi verið unnið af mönnum sem gerst þekkja til. Ég vil ekkert draga úr þessum fullyrðingum. Ég hygg að það sé sjálfgefið að slíkir menn hafi verið til kvaddir. En það breytir ekki því, að auðvitað ber okkur þm. að afgreiða þetta frv. eftir bestu samvisku og eftir því sem við þekkjum best til. Hv. 11. þm. Reykv. var að spyrja við hverja við hefðum talað, hvaðan við hefðum eitthvert vit á þessum málum, — það lá í orðunum, — hvort við ætluðum ekki að gera hér grein fyrir því, hvers vegna við dirfðumst að flytja brtt. við þetta frv. Ég ætla ekki að svara þessu. Ég hef oft tekið þátt í umr. á Alþingi þar sem hafa komið á dagskrá málefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og ég hef gert mér það að reglu og fundið mið hafa þörf til að leggja þar orð í belg. Ég hef fylgst með starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar frá byrjun og hef gert það á vissan hátt mjög náið, bæði með sambandi við tónlistarmenn og suma sem stundum hafa verið á oddinum í þessum málum og ótvíræðir forustumenn, og einnig hef ég haft náið samband við þá sem hafa þurft að sinna hinni fjárhagslegu hlið. Ég mun því ekki biðjast afsökunar á því að láta þessi mál til mín taka nú þegar verið er að fjalla um mjög þýðingarmikið mál fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og alla tónmenningu í þessu landi.