10.03.1982
Efri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2959 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka tillitssemi hæstv, forseta. Ég skal vera mjög stuttorð.

Ég hafði ekki gert ráð fyrir að taka hér aftur til máls um frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hv. 11. þm. Reykv. gaf mér tilefni til að koma hér aðeins í ræðustól. Hv. 4. þm. Vestf. hefur gert svo góða grein fyrir brtt. okkar að ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þær.

En hv. 11. þm. Reykv. minntist á bréf sem honum hefði borist frá formanni Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitarinnar. Mér þykir rétt að það komi fram, að það hefur fleirum borist þetta bréf, væntanlega öllum hv. þm. deildarinnar.

Ég verð að segja að mér þykir dapurlegt ef ágætir starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa ekki skilning á því, að við flm. flytjum brtt., sem hér hafa verið ræddar, fyrst og fremst vegna þess að við látum okkur annt um Sinfóníuhljómsveit Íslands, vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því menningarlega hlutverki sem hún gegnir í tónlistarlífi Íslendinga. Hún hefur réttilega verið nefnd hornsteinn íslenskrar tónlistar.

Þeir hv. þm., sem hafa varað við því að gerðar séu breytingar á þessu frv., mega vita að sú vinna, sem liggur að baki þessum brtt., er vinna manna sem hafa mikla þekkingu á starfsemi hljómsveitarinnar. Þetta vildi ég láta koma fram.

Hv. 3. þm. Vesturl. talaði um að það væri móðgun við Seltjarnarnesbæ að taka rekstraraðild hans út úr frv. Ég veit ekki hvort ég hirði um að svara þessu einu sinni enn. Ég tel að það sé ekki móðgun, heldur miklu frekar að honum sé sýnt traust með því að hann megi á frjálsum grunni vera þátttakandi í rekstri hljómsveitarinnar.

Það má gjarnan koma hér fram, að þessar brtt. eru viðleitni okkar flm. til að bæta þetta frv. Ef meiri hl. Alþingis er ekki sömu skoðunar verður frv. ekki breytt. Við skulum vona að frv. fari í gegnum þingið þrátt fyrir það, enda liggur fyrir a.m.k. að við flm. þessara brtt. erum að öðru leyti sammála frv. og munum styðja það hvernig svo sem lyktir þessara brtt. verða.