10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2961 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

221. mál, búnaðarmálasjóður

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál. Ég vil aðeins taka það fram, að hér er um eitt af mörgum gjöldum að ræða sem í raun og veru snerta ekki hagsmuni ríkisins beinlínis, heldur hagsmunum þeirra aðila sem hér er fjallað um. Ég sé í rauninni enga nauðsyn bera til að festa þetta gjald í lög. Framleiðendunum er í sjálfsvald sett að greiða þetta án lagasetningar, enda þarf ekki atbeina Alþingis eða ríkisins á einn eða neinn hátt til að eyða fénu eða skipta því. En ég tek það fram, að þetta er ekkí eina gjaldið af þessu tagi. Það eru til gjöld af svipuðum toga fyrir aðrar atvinnustéttir. Þessi gjöld fara flest fram hjá ríkisreikningi og Alþingi hefur síðar meir enga aðstöðu til að fylgjast með afdrifum þeirra eða ráðstöfun. Miklu eðlilegra væri þess vegna að framleiðendurnir kæmu sér sjálfir saman um að inna þetta gjald af hendi með frjálsum hætti fram hjá löggjafanum, þar sem ekki er gert ráð fyrir að hann hafi neitt um það að segja.

Í 3. gr. frv. er að vísu tekið fram að aldrei megi hækka verð vöru eða leigu vegna gjaldsins. Þetta er almenn viljayfirlýsing, en auðvitað vitum við að við verðlagningu vöru er tekið tillit til alls þess kostnaðar sem er við framleiðslu hennar, jafnt þessa gjalds sem annars, þegar fram í sækir. Það vitum við. Þannig er það.

Með þessum orðum mínum er ég síður en svo að mæla á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga. Ég er aðeins að vekja athygli á að ótal lög eru til um gjöld af þessu tagi, smágjöld sem Alþingi hefur lögfest, en fylgist síðan ekki með hvað um verður.