10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2961 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

221. mál, búnaðarmálasjóður

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég hygg að það sé misskilningur hjá hv. 7. landsk.þm. að ekki sé nauðsynlegt að hafa lagaákvæði um það gjald, sem hér er um að ræða, búnaðarmálasjóðsgjald, því ella væri ókleift að innheimta það og gæti hver sem er skotið sér undan slíkri innheimtu. Auk þess er þetta, eins og áður sagði, gjaldstofn sem miðað er við um innheimtu gjalda til annarra sjóða á vegum landbúnaðarins og er nauðsynlegt að það sé ákvarðað í lögum.

Ég vil taka það fram, að hér er ekki um nýja gjaldtöku að ræða. Hér er um lítils háttar breytingar á gjaldtöku að ræða með tilvísun til nýrra búskaparhátta og nýjum búgreinum er ívilnað með því að hafa gjaldið lægra á alifugla- og svínaræki og fiskeldi og fiskrækt og land- og viðileigu, eins og fram kemur í frv. Er það gert með samkomulagi allra aðila sem um þetta fjalla.

Hv. þm. gaf í skyn að það, sem fram kemur í lögum um að gjald þetta skuli ekki valda hækkun á útsöluverði vöru, sé markleysa. Þetta er ekki rétt. Þessi gjöld valda ekki hækkun á verðlagsgrundvelli landbúnaðarins og koma ekki fram í útsöluverði.