02.11.1981
Efri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

7. mál, útvarpslög

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 7 að flytja frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, nr. 19 frá 5. apríl 1971. Breytingin, sem lagt er til í frv. að gerð verði á útvarpslögum, er sú, að inn í 2. gr. laganna bætist ein setning. Á eftir 1. málslið 1. mgr. 2. gr. komi: „Ríkisútvarpið útvarpar og sjónvarpar dagskrá hvern dag árið um kring.“ Þá mundi 1. mgr. 2. gr. útvarpslaganna hljóða svo, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið hefur einkarétt á útvarpi, þ. e. útsendingu til viðtöku almennings á tali, tónum, myndum eða öðru því efni, hvort sem er þráðlaust, með þræði eða á annan hátt. Ríkisútvarpið útvarpar og sjónvarpar dagskrá hvern dag árið um kring. Í þessu skyni reisir Ríkisútvarpið sendistöðvar og endurvarpsstöðvar eftir þörfum.“

Mér þykir það miður að vísu, að hæstv. menntmrh. skuli ekki hafa tíma til að vera hér á þingfundi í dag til að hlýða á umr. um Ríkisútvarpið. Það er langt síðan frv. var lagt fram og ég hef dregið að mæla fyrir því, vegna þess að hæstv. menntmrh. hefur ekki setið hér á þingi a. m. k. undanfarnar 2–3 vikur og hlýtur það að eiga sér sínar skýringar.

Meginefni frv. er að taka af tvímæli um það, að Ríkisútvarpið skuli útvarpa og sjónvarpa dagskrá hvern dag árið um kring. Í fyrra voru 50 ár liðin frá því að Ríkisútvarpið tók til starfa. Á þeirri hálfu öld hefur dagskrá útvarpsins jafnt og þétt verið að lengjast, eftir því sem vaxandi kröfur hafa verið gerðar til útvarpsins um lengri og lengri dagskrá. Nú er það svo, að það er útvarpað í Ríkisútvarpinu frá kl. 7 að morgni og fram undir og stundum fram yfir miðnætti, 17–18 klukkustundir á dag, og enn eru uppi vaxandi kröfur um að útsendingartími Ríkisútvarpsins verði lengdur, m. a. með næturútvarpi eða annarri dagskrá beinlínis, annarri dagskrárrás.

Sjónvarpsdeild Ríkisútvarpsins hafði á þessu hausti, hinn 30. sept. s. l., starfað í rétt 15 ár. Andstætt því, sem er um Ríkisútvarpið eða hljóðvarpið, hefur dagskrá sjónvarpsins nánast ekkert lengst frá því stuttu eftir að sjónvarp tók til starfa. Dagskrá sjónvarpsins hefur að magni til verið nánast óbreytt í 14 ár. Það er sjónvarpað 20–25 klst. á viku. Á þessu ári gerðist það svo í fyrsta skipti í sögu sjónvarpsins, að vegna fjárhagsörðugleika varð að stytta dagskrána frá því sem verið hafði.

Hæstv. núv. ríkisstj. hefur ekki séð sóma sinn í því að búa þannig að þessari mestu menningarstofnun þjóðarinnar að hún geti haldið uppi óbreyttri dagskrá, hvað þá lagt meira í dagskrána, lengt hana eða bætt. Ríkisútvarpið hefur ekki átt velvild að fagna hjá núv. ríkisstj., svo sem sér glögg merki í þeirri skerðingu sem dagskráin hefur orðið fyrir.

Frá upphafi sjónvarps hér á landi hefur það verið svo, að útsendingar hafa ekki verið á fimmtudögum og ekki í júlímánuði. Hvað veldur? Skýring þess að ekki var sent út alla sjö daga vikunnar mun m. a. hafa verið sú, að þegar sjónvarpið tók til starfa var það sumpart með lánsbúnaði, með gömlum tækjum sem þurftu töluvert viðhald. Það var því talið brýnt og nauðsynlegt, að einn dagur í viku gæfist fámennu starfsliði til þess að sinna viðhaldi tækjabúnaðarins. Þá var það og, að menn töldu eðlilegt að einn dagur í viku yrði sjónvarpslaus, m. a. til þess að koma í veg fyrir að þessi nýi fjölmiðill gengi of nærri almennri félagsstarfsemi í landinu. Þessi röksemd um fimmtudaginn á nú ekki lengur við. Auðvitað hefur félagslíf aðlagað sig þessum nýja fjölmiðli og ég hygg að það sé ekkert algengara að fundir í félögum séu haldnir á fimmtudögum nú en öðrum dögum. Vissulega var það svo í upphafi sjónvarps en það er nú breytt.

Ekki verður heldur séð að þeirri ákvörðun, sem upphaflega var tekin um að hafa ekki sjónvarp í júlímánuði, hafi verið ætlað að standa til frambúðar. Sú ákvörðun átti sér fyrst og fremst þá einföldu orsök, að í upphafi var starfslið sjónvarpsins fámennt. Og það sem meira var, það voru ákaflega fáir hér á landi sem kunnu til verka við sjónvarpstækni. Þess vegna var nauðsynlegt að loka stofnuninni meðan sumarleyfi starfsmanna stóð yfir allra fyrstu árin. Þessi röksemd á engan veginn við lengur. Nú er til nóg af tæknimenntuðu fólki í landinu sem kann til starfa við sjónvarp. Þess vegna væri auðvelt að hafa starfsemi sjónvarpsins í gangi allan ársins hring eins og auðvitað er eðlilegt. Þetta er m. a. fréttamiðill og það ekki sá áhrifaminnsti í landinu og verður auðvitað að gera þá kröfu, almenningur á þá kröfu á hendur þessari stofnun, að þar séu fluttar fréttir alla daga.

Það þarf ekki að rekja hér hverri gagnrýni það hefur sætt þegar stóratburðir hafa gerst í júlímánuði og sjónvarpið verið lokað. Nægir þar að minna aðeins á eitt. Þegar menn stigu fyrst fæti á yfirborð tunglsins og milljónir manna um víða veröld, tugmilljónir, fylgdust með því ýmist í beinni útsendingu eða eftir á, þá var íslenska sjónvarpið lokað. Auðvitað gengur það ekki í nútímaþjóðfélagi, að jafnáhrifaríkur fjölmiðill og mikilsvert menningartæki og sjónvarp getur verið sé lokað í heilan mánuð yfir sumarið. Og nú er raunar svo komið vegna fjárhagsörðugleika stofnunarinnar, að það er ekki aðeins mánuður sem lokað er, heldur eru það milli fimm og sex vikur- og þá sennilega nær því að vera sex vikur heldur en fimm. Þetta nær auðvitað engri átt.

Þá er mér og kunnugt um það, sem er kannske ekki þungt á metunum í þessu sambandi en vegur þó óneitanlega nokkuð, að meðal starfsmanna sjónvarpsins hefur um langt árabil ríkt megn óánægja með það fyrirkomulag að þurfa — einir allra, eftir því sem mér er best kunnugt — að una því að taka alltaf frí á sama tíma. Hvort sem þeim líkar það betur eða verr og hvernig svo sem háttar með sumarfrí maka, þá verða menn að una því að taka sér frí á þessum fasta tíma. Þetta hefur, eftir því sem ég veit best, mælst illa fyrir en engum skilningi mætt hjá stjórnvöldum þegar talað hefur verið um lagfæringu á því.

Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum, hv. þingmönnum er það auðvitað svo vel kunnugt, að undanfarin ár hafa verið mjög vaxandi og æ hærri raddir um að fella niður þessa sumarlokun sjónvarps. Auðvitað má segja sem svo, að fullfrískt fólk geti mætavel verið án s jónvarps yfir hásumarið. Þegar dagur er hér lengstur og veður allajafna best til útivistar fallið er fullfrísku fólki það engin vorkunn — og sumum þykir það raunar ágætt — að vera laus við sjónvarp svolítinn tíma. En þeir eru þó áreiðanlega fleiri og það tryggustu viðskiptavinir Ríkisútvarpsins, þeir sem mest horfa á sjónvarpið, sem óska þess, að sumarlokunin verði niður felld. Þar er auðvitað fyrst og fremst um þá að ræða sem ýmissa hluta vegna eru bundnir heima hjá sér, þá sem eru sjúkir, þá sem eru fatlaðir, þá sem búa afskekkt eða eru bundnir heima vegna veikra skyldmenna eða einhvers þess háttar. Þetta fólk, sem ég hygg að sé býsna stór hópur, hefur látið til sín heyra í mjög vaxandi mæli. Ég held að óhjákvæmilegt sé að taka tillit til þessara radda. Það er tiltölulega einfalt mál og mundi mælast, að ég hygg, vel fyrir að gera þessa breytingu á útvarpslögunum, sem tæki af öll tvímæli um að Ríkisútvarpinu skuli skylt að útvarpa og sjónvarpa alla daga ársins.

Ég vona að hv. þm. taki þessu frv, vel og að það eigi greiða leið í gegnum þingið.

Eitt atriði til viðbótar væri vissulega ástæða til að minnast á og fjölyrða um, en þar sem hæstv. menntmrh. er ekki viðstaddur. mun ég ekki víkja að því mörgum orðum. Á ég þar við þá myndbandavæðingu sem hér hefur átt sér stað og á sér stað, þar sem meginhluti efnisins, sem sýnt er, er — ég vil segja: ótínt rusl og afsiðandi ómenningarefni, ef þannig má taka til orða, nánast hreint rusl. Það er umhugsunarefni að notkun þessa efnis færist svo í vöxt sem raun ber vitni. Og vissulega er ástæða til að hafa áhyggjur af því t. d., þegar borgarráð Reykjavíkur veitir með samþykki atbeina sinn til lögbrota, sem beinast gegn Ríkisútvarpinu, án þess að nokkur maður hreyfi hönd né fót, legg né lið til að spyrna gegn því. Það segir enginn neitt. Hæstv. menntmrh. segir ekki orð, hans háa ráðuneyti segir ekki eitt einasta orð og Ríkisútvarpið segir ekki eitt einasta orð. Þegar svona er komið, lög eru fótum troðin og rétt kjörnar stjórnsýslustofnanir höfuðborgarinnar veita atbeina sinn til lögbrota og enginn segir neitt, þá er vissulega ástæða til að staldra við og hugsa: Hvert erum við að stefna? Enn ítreka ég það, að miður er að hæstv. menntmrh. skuli ekki geta verið viðstaddur hér í þinginu.

Það, sem gerir enn brýnna að Ríkisútvarpið auki sína starfsemi, lengi sína dagskrá og fjölgi útsendingardögum er auðvitað að hafa áhrif í þá átt að fólk eigi alla daga og ævinlega kost á þokkalega góðri sjónvarpsdagskrá. Það er auðvitað ekki hægt að segja að dagskrá Ríkisútvarpsins, sjónvarps sé góð alla daga. En hún er þó örugglega í nær öllum tilvikum langtum betri en það sem mönnum stendur til boða hjá hinum sjálfskipuðu dagskrárstjórum myndbandakerfisins á höfuðborgarsvæðinu.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til hv. menntmn., og ítreka að ég vona að það eigi greiða leið í gegnum þessa hv. deild.