10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2964 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

228. mál, barnalög

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. það, sem fyrir liggur á þskj. 417, 228. mál þingsins, ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Matthíasi Bjarnasyni og Níels Á. Lund. Frv. þetta er viðbótartillaga við 35. gr. barnalaga, en sú grein þeirra fjallar um foreldraskyldur, forsjá barns og umgengnisrétt. Er í frv. okkar lagt til að félmrn. komi á fót foreldraráðgjöf sem landsmenn geti átt aðgang að um þau vandamál sem upp kunna að koma í fjölskyldum og varða hag og þroska barna.

Barnalögin hafa breytt verulega réttindum og skyldum foreldra gagnvart börnum og nauðsynlegt er að leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi umgengnisrétt og önnur atriði laganna séu á boðstólum. Víða erlendis hefur verið komið á fót umboðsmannsembætti sem fyrst og fremst á að reka erindi barna, nú síðast í Noregi. Þetta embætti er ekki fyrir hendi hér á landi enn og ekkert skal fullyrt um hvort það henti aðstæðum hér á landi. Menn ættu stundum að flýta sér hægt við að fara nákvæmlega eftir því sem gert er í öðrum löndum við allt aðrar aðstæður og meiri fólksfjölda.

Að mörgu leyti tel ég að fjölskyldan sé betur stödd hér á landi sem þjóðfélagseining en víða annars staðar. Koma þar til m.a. nánari fjölskyldutengsl, full atvinna hér á landi, jafnari lífskjör og minni stéttaskipting, svo að eitthvað sé nefnt. En fjölskylduvandamál og uppeldiserfiðleikar koma upp hér sem annars staðar og með skynsamlegum aðgerðum ættum við að gera leyst slík mál fremur en þær þjóðir sem orðið hafa meiri firringu að bráð. Því er ekki að leyna að þjóðfélag okkar ber í æ meira mæli merki þessarar firringar. Fjölskyldur eru einangraðri en áður var. Í mörgum tilvikum fer öldruðum fækkandi á heimilum og með aukinni atvinnuþátttöku beggja foreldra reynir meira á börn og unglinga. Mikilvægt er því að brugðist sé við þessum breytingum á högum barna sem best. Oft má koma í veg fyrir meiri háttar erfiðleika með því að óháður aðili leiðbeini foreldrum og börnum við þau vandamál sem upp koma, áður en þau verða að stórkostlegum félagslegum vanda.

Öllum er ljóst hið gífurlega vandamál sem margar þjóðir glíma nú við, eiturlyfjaneysla ungs fólks. Í æ meira mæli hafa ráðamenn gert sér ljóst að þar er ekki við unglingana eina að sakast. Þær öru þjóðfélagsbreytingar. sem orðið hafa síðan síðari heimsstyrjöld lauk, og sú heimsmynd, sem nú blasir við ungu fólki, hefur orðið því mörgu ofviða. Þess má geta, að ráðherranefnd Evrópuráðsins hefur lagt fram ákveðnar tillögur um úrbætur í málefnum fjölskyldunnar. Þar er lögð áhersla á að koma í veg fyrir erfiðleika í uppvexti svo að ekki verði úr meiri háttar vandamál sem við sjáum allt í kringum okkur og raunar einnig hér heima. Aðildarþjóðum Evrópuráðsins hefur verið falið að skila skýrslum til ráðsins fyrir ársbyrjun 1984 um það. hvað gert hefur verið í hverju landi til styrktar og eflingar börnum og fjölskyldum þeirra. Geta ber þess, að mikið starf hefur verið unnið í heilsugæslustöðvum landsins og þá ekki síst í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. þar sem almenn könnun hefur staðið yfir um nokkurt skeið á högum fjögurra ára barna undir forustu Halldórs Hansens yfirlæknis. Nauðsynlegur liður hennar er að hægt sé að vísa foreldrum til stofnunar sem leyst geti hin ýmsu vandamál sem í ljós koma, áður en þau verða alvarlegri. Okkur hér á hinu háa Alþingi verður tíðræddara um tölur efnahagslífsins en nokkuð annað og er það auðvitað ekki nema eðlilegt. En ljóst má vera að sú hagstjórn verður farsælust sem vinnur að sem mestum og bestum þroska barna og ungmenna landsins. Og þó að mannúðarsjónarmiðum sé sleppt og einungis hugsað um fjármagn er hvert einasta mannslíf, sem forgörðum fer, þungur baggi á þjóðfélaginu eins og við öll vitum.

Frá árinu 1979 hefur Barnaverndarráð Íslands í raun og veru gegnt þessu hlutverki að nokkru. Það hefur starfrækt foreldraráðgjöf, sem er ráðgjöf fyrir foreldra varðandi ýmis vandamál í fjölskyldum. Tveir sálfræðingar hafa sinnt þessari þjónustu í hlutastarfi, en aðsókn sýnir svo ekki verður um villst að nauðsynlegt er að þeir starfi að þessu að fullu. Unnið hefur verið við þessa þjónustu 15 klukkustundir í viku, en á þeim tveimur árum sem hún hefur verið starfrækt hafa leitað til hennar foreldrar vegna aðstoðar við 137 börn. Þar af eru 7 ungbörn innan tveggja ára aldurs, 46 á aldrinum 2–5 ára, 53 yngri grunnskólabörn og 31 unglingur 13–19 ára. Þessi starfsemi hefur verið byggð á 60. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53 frá 1966, en þar segir m.a. að Barnaverndarráði sé heimilt að efna til námskeiða og annarrar fræðslustarfsemi fyrir foreldra og aðra þá er sinna uppeldisstörfum. Í grg. með þessu frv. er gerð grein fyrir þessari starfsemi, svo ég tel ekki ástæðu til að vera að endurtaka það allt hér.

Ég vil minna á að margir hv. þingmenn hafa sýnt þessum málum áhuga áður. Má þar nefna till. til þál. frá Haraldi Ólafssyni og Alexander Stefánssyni um stefnumörkun í fjölskylduvernd. Þar er m.a. lögð áhersla á gildi fjölskyldunnar sem stofnunar í þjóðfélaginu og bent á leiðir til að tryggja öryggi barna og fjölskyldna þeirra. Á 100. löggjafarþingi fluttu hv. Alþfl. till. til þál. um skipun samstarfsnefndar, sem fjalla skyldi sérstaklega um málefni barna, og þar er m.a. beinlínis lagt til að komið sé á fót fjölskylduráðgjöf.

Ég vil leggja á það mikla áherslu, að hér er ekki verið að taka fram fyrir hendurnar á félagsmálastofnunum þar sem þær eru, heldur er þessi starfsemi hugsuð sem hliðarstarfsemi við félagsmálastofnanir, og auðvitað er gert ráð fyrir að starfsmenn fjölskylduráðgjafar vísi málum til viðkomandi félagsmálastofnunar gerist þess þörf. En þessi starfsemi er fyrst og fremst hugsuð til lausnar á þeim vandamálum sem þarfnast ekki beinlíms meðferðar í félagsmálastofnunum.

Við leggjum áherslu á, flm. þessarar till., að hér er ekki um stórkostlega fjármuni að ræða. Hér er einungis gert ráð fyrir tveimur starfsmönnum til að byrja með og einungis ráðgert að þessi miðstöð verði hér á stór-Reykjavíkursvæðinu í fyrstu, þriggja ára reynsla sýni síðan hvort ástæða sé til að hafa þessa starfsemi annars staðar.

Við flm. þessa litla frv. treystum því, að um þetta mál ríki einhugur og það fái afgreiðslu á þessu þingi. Að lokinni umr. viljum við vísa málinu til hv. allshn, sem annaðist afgreiðslu barnalaga.