10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2967 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

233. mál, söluskattur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég held að hér sé um gott og réttmætt mál að ræða. Það er bágt að afla ríkistekna með þeim hætti að einbeita sér að harðindaplássum sem verða fyrir sérstökum útgjöldum vegna snjóþyngsla. Það er eðlilegt að hv. þm. Hannes Baldvinsson hreyfi þessu máli að því leyti til að hann er kunnugur þeim aðstæðum, sem skapast geta í snjóþungum byggðarlögum, og þeim erfiðleikum og kostnaði sem af því leiðir. En að sumu leyti ber þetta frv. óeðlilega að þar sem það eru flokksbræður fjmrh. sem bera málið fram og annar þeirra meira að segja varamaður fjmrh. 1. flm., hv. þm. Hannes Baldvinsson. Ég hefði talið eðlilegri málsmeðferð og öruggara til árangurs og framgangs málsins ef varamaðurinn hefði talið fjmrh. sinn á að flytja þetta mál og beita sér fyrir því í veldi sínu sem hæstv. fjmrh. Ég vil þó alls ekki, þó að hv. þm. Hannes Baldvinsson hreyfi málinu, en ekki hæstv, ráðh. Ragnar Arnalds, líta svo á að hæstv. fjmrh. muni vera ósammála varamanni sínum, þangað til annað kemur í ljós.

En allt um það. Ég held að þetta sé gott mál, og ég vil gjarnan fyrir mitt leyti stuðla að því, að þetta mál nái fram að ganga, svo framarlega sem hæstv. fjmrh. leggur ekki stein í götu frv. (Gripið fram í.) Ég vil ekki gera þetta að stjórnarslitamáli ef hæstv. fjmrh. kynni að vera sárnauðugt að þetta gengi fram.