10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2967 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

233. mál, söluskattur

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skildi satt að segja ekki ræðu hv. formanns þingflokks Framsfl. Hann er fylgjandi málinu og á móti um leið. Það eru ekki allir hv. þm. En ég skil svo fátt í þessum sölum. Ég sagði það líka í ræðu í gær.

En ég verð að taka undir með hv. flm. Ég held að það sé orðin alvara á ferðum þegar sveitarstjórnir eru að fara að hugsa um hvort það eigi að láta byggðina fenna í kaf eða ekki vegna söluskatts. Ég skildi ræðu hv. flm. þannig. Hér á suðvesturhorninu er ekki að tala um neinn snjó eða stórhríð því hér er lognmolla og ekki neitt og er horfið næsta dag. En það er stórhríð á Norðurlandi og Norðausturlandi líka. Það er orðið alvörumál ef sveitarstjórnir fara að hugsa sig um, hvort það eigi að láta húsin og byggðirnar fenna í kaf eða moka snjó, vegna söluskatts. Þetta er orðið alvörumál. Ég styð þetta frv. eindregið.