10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2968 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

233. mál, söluskattur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa langt mál um það sem hér er til umr. Það er mikið þjóðþrifa- og sanngirnismál sem hér er hreyft, og hefði raunar fyrir löngu átt að vera búið að afgreiða mál sem þetta því að það er augljóst að sveitarfélög eiga ekki að þurfa að skoða hug sinn um hvort greiður aðgangur sé um götur þess sveitarfélags með hliðsjón af því, hvort það þarf að greiða stórar fjárfúlgur vegna söluskattsinnheimtu ríkisins.

Fjallkóngur þeirra framsóknarmanna, eins og hann er kallaður, hv. þm. Páll Pétursson, leggur það í dóm hæstv. fjmrh. hvort hans atkv. fylgi með sem já eða nei í þessu máli. Þó að hann lýsi jafnframt yfir að þetta sé sanngirnis- og réttlætismál ætlar hann að láta hæstv. fjmrh. ráða fyrir sig í því sem og þá líklega öðru, þó að um þjóðþrifa- og réttlætismál sé að ræða. Svo samrýmdir eru þeir orðnir, hv. þm. og hæstv. ráðh., að ekkert skal þar skilja í milli. Skal eitt yfir báða ganga ef hæstv. ráðh. er á öndverðum meiði við hv. þm. Þetta sýnir auðvitað í hnotskurn hvernig ástandið er orðið innan Framsfl. Hann er í raun og veru orðinn nokkurs konar undirlægja Alþb. Það skal ekkert gert í þingflokki framsóknarmanna nema Alþb. segi já og amen við því, nema þá því aðeins að hv. þm. Páll Pétursson, þingflokksformaður framsóknarmanna, sé einn um þessa skoðun í þingflokknum og þá einangraður, en ekki hefur það komið í ljós hér í þingi enn.

Það verður fróðlegt að fá að sjá hver afstaða hæstv: fjmrh. verður í þessu máli, því varamaður hans hér á Alþingi, hv. þm. Hannes Baldvinsson, og hv. þm. Skúli Alexandersson, sem báðir skilja auðvitað nauðsyn þess að söluskattsinnheimtunni verði breytt í þessa átt, eru flm. frv. Þeir skil ja og vita hvernig ástatt er á snjóþungum svæðum. Það ætti raunar hæstv. fjmrh. að vita líka og auðvitað líka hv. þm. Páll Pétursson þó að hann vilji láta vil ja Ragnars Arnalds, hæstv. fjmrh., fyrst og fremst ráða hver framvinda málsins verður.

Ég tek sem sagt mjög undir þetta frv. Þetta er sanngirnismál og réttlætis og raunar furðulegt að það skuli ekki löngu vera búið að afnema söluskatt af snjómokstri hjá sveitarfélögum. Það er furðulegt. En að lokum: Væri nú ekki rétt af hv. þm. Páli Péturssyni, ef það skyldi fara svo að hæstv. fjmrh. vildi setja fótinn fyrir þetta mál, að greiða nú atkv. með því eftir sem áður í þessu tilfelli og skilja sig í einu réttlætismáli frá Alþb.?