10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2968 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

233. mál, söluskattur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er hreyft ágætu máli, gömlu baráttumáli, ef svo mætti komast að orði, þeirra sem koma frá þeim svæðum landsins þar sem mest fennir. Og þó að ég sé vissulega sammála hv. 1. þm. Norðurl. v. um að öruggast hefði verið til að koma málinu fram að hæstv. fjmrh. hefði flutt það, þá sýnist mér engu að síður að hér beri nokkuð vel í veiði, svo ekki sé meira sagt. Það má einstakt vera, hafi það nokkurn tíma gerst að ríkisstj. væri felld út á það að varamaður fjmrh. yrði til að leggja svo einstæða till. fram á þingi að fjmrh. sæi brýna nauðsyn bera til að fella hana eða víkja úr stóli ella. Ég tel að hæstv. fjmrh. verði að bera fulla ábyrgð á sínum varamanni og fylgja hans málum eftir í sölum þingsins eins og ég hef haft reynslu fyrir. Ég vænti þess, að það gerist nú í þessu máli, að hv. 1. þm. Norðurl. v. uni því að við fylgjum góðu máli eftir, þingmenn stjórnarinnar, þegar það er flutt af þeim næstbesta valkosti sem hugsanlegt var, varamanni hæstv. fjmrh.