11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2994 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Það verður helst ráðið af orðum hv. 4. þm. Vestf., Þorvalds Garðars, að það hafi gersamlega farið fram hjá honum að staðið hafa yfir viðkvæmar deilur í heimahéraði um virkjun Blöndu. Það verður helst ráðið af hans máli hér, að það hafi gersamlega farið fram hjá honum að viðamiklar samningaviðræður hafa farið fram við heimamenn um hvernig hægt væri að ná samkomulagi og friði um þessar miklu virkjunarframkvæmdir við Blöndu. Það virðist hafa farið fram hjá hv. þm. að atkvgr. í heimahéraði hafi farið fram og að eftir það hafi enn á ný verið teknar upp samningaviðræður til að leysa þessi mál.

Ég hygg að flestir muni sammála um að hagkvæmasti kostur okkar nú sé virkjun Blöndu. Ég hygg að flestir séu sammála um að æskilegt sé að ná þar eins víðtæku samkomulagi og unnt er. Ég held að öllum sé ljóst að með framlagningu þessarar þáltill. kemur alveg skýrt fram hver vilji ríkisstj. er í þessu máli. Það kemur alveg skýrt fram í þessari þáltill., að ríkisstj. leggur til að Blanda verði virkjuð næst. Það er ekki bara Alþingi, sem er það ljóst með framlagningu þessarar þáltill., heldur þjóðin öll. Umr. um þessa þáltill. eða flýting þeirrar umr. hefur enga þýðingu fyrr en menn fara að sjá fram á lokastig þeirra umræðna sem eiga sér stað nú í heimahéraði Blöndu. Þetta hlýtur öllum að vera ljóst. Orð eins og hv. þm. hafði hér í upphafi umr. eru gersamlega út í hött.

Hv. þm. gerði hér að meginumræðu stefnu Sjálfstfl. í orkumálum. Ég verð að játa að ég er ekki hrifinn af þeirri stefnu, og í ljósi fortíðarinnar — eða kannske öllu heldur skugga hennar — yrði ég ekki hrifinn af því að þurfa að lúta forustu Sjálfstfl. í orkumálum.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að nú standa yfir talsverðar deilur um álverið í Straumsvík. Það er alveg rétt, að Sjálfstfl. hafði forgöngu um þá orkunýtingu. Árangurinn er sá, að Íslendingar fá nú greitt eitthvert lægsta orkuverð sem þekkist í veröldinni til orkuiðnaðar. Árangurinn er sá, að þannig gengu sjálfstæðismenn frá þessum málum með sinni orkustefnu að engin endurskoðunarákvæði eru í þessum samningi. Það er eðlilegt að við séum í nokkrum erfiðleikum með hvernig við eigum að bregðast við. Þessi samningur rennur ekki út fyrr en 1994. En ekki bara það: Sjálfstæðismenn gengu þannig frá þessum samningi að það eru framlengingarákvæði í honum til 2014, og það er vafaatriði, hversu mikinn rétt við höfum samkv. þeim samningum og framlengingarákvæðum til að ná fram hækkun á orkuverði. Það er ekki furða þó að þessir hv. þm. komi hér í ræðustólinn og belgi sig út yfir orkustefnu sinni og krefjist þess að fá að ráða í þeim málum.

Ég treysti ekki Sjálfstfl. til að sjá um samninga við erlenda aðila. Ég ætta ekki að hafa mörg orð um það, en ég minni þó á landhelgissamninginn við Breta. Hann var gerður þannig að sjálfstæðismenn lofuðu Bretum því að færa aldrei íslensku landhelgina út fyrir 12 mílur nema með samþykki þeirra eða úrskurði Alþjóðadómstólsins. (Gripið fram í: Hver var forsrh. þegar við fengum 200 mílurnar?) 200 mílurnar eru seinni tíma áfangi sem komu á eftir 50 mílunum, og þær hefðu aldrei orðið að veruleika nema samningurinn, sem sjálfstæðismenn gerðu um 12 mílurnar, hefði verið rofinn. Þetta veit hv. þm. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér, en það er auðvitað alveg ljóst, að það þorir enginn Íslendingur að hugsa þá hugsun til enda, hvað hefði gerst og í hvernig þjóðfélagi við lifðum núna ef við hefðum ekki brotist út úr þeim samningi sem sjálfstæðismenn eiga meginheiðurinn af. Það hefur verið þeirra stefnumörkun í þeim málum.

Hv. þm. gerði að miklu umræðuefni hér skipulagsmál orkumála. Ég verð að játa að mér er alls ekki ljóst hvaða stefnu Sjálfstfl. hefur í þeim málum. Við höfum markað þá stefnu, að einn aðili skuli sjá um meginorkuvinnslu og megin orkuflutning í þessu landi. Sjálfstfl. var lengi á móti því. Hann vildi hafa þetta nokkurs konar landshlutaveitur. Nú er hann kominn með stefnu sem ég eiginlega skil ekki. Mér skilst að hann vilji hafa einn aðila, en samt marga, þeir megi vera margir og það eigi að verða ofan á hvað sem er í þeim málum. Það er ekki glæsileg stefna. Ég veit ekki hvað er stefnuleysi eða sýndarmennska ef þetta er það ekki. En ofan á allt þetta er auðvitað langsamlega óglæsilegast af öllu saman sú orkusölustefna sem Sjálfstfl. hefur barist fyrir. Ég verð að játa að reyndar finnst mér svolítið rofa til í þeim málum, miðað við þá ræðu sem formaður Sjálfstfl. flutti fyrir stuttu í þinginu, þar sem hann fór svolítið öðrum orðum um eignaraðild Íslendinga að þessum fyrirtækjum. En ég vil segja að ég óttast ekkert meira varðandi framtíð íslenska þjóðfélagsins en einmitt ef Sjálfstfl. fengi völd til að koma þessari orkusölustefnu sinni í framkvæmd, þ.e. að Íslendingar byggðu upp sinn orkuiðnað og nýttu sínar orkulindir á þann hátt að við seldum erlendum alþjóðafyrirtækjum orkuna á lágu verði, en fengjum svo sæmilega launaða vinnu hjá þeim sjálfir. Með því stefnir Sjálfstfl. beint í að Íslendingar verði nokkurs konar vinnumannaþjóð eða hálfnýlenda erlendra stórfyrirtækja. Það er beinlínis háskaleg stefna sem Sjálfstfl. er með á þessu sviði. Ég skal koma nánar inn á það á eftir.

Það hlýtur öllum að vera ljóst, að með þeirri þáltill. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu, sem hér er lögð fram, og þeim umr., sem um hana fara fram, er ítrekuð sú stefna sem íslenska ríkisstj., núv. ríkisstj., hefur um orkunýtingu og um virkjanir fram til aldamóta. Það er stefnt að því að virkja þrjár stórvirkjanir á næstu 12 árum. Þar með er ráðist í meiri virkjunarframkvæmdir en nokkur íslensk ríkisstjórn hefur ákveðið að ráðast í áður. Það er stefnt að því að jafna orkureikninginn fram til aldamóta. Það er stefnt að því að orkunotkun í landinu verði um 10 terawattstundir um aldamót og þar af verði 6 terawattstundir til orkuiðnaðar eða þreföldun um aldamót frá því sem nú er. Þetta eru stórfelldari áform um orkunýtingu og orkuiðnað en nokkur íslensk ríkisstjórn hefur haft uppi áður.

Ég vil sérstaklega og einmitt af tilefni þeirrar ræðu, sem hv. 4. þm. Vestf. flutti áðan, ítreka þá stefnu framsóknarmanna og þá stefnu ríkisstj., að Íslendingar hafi sjálfir virk yfirráð yfir þeim orkuiðnaði sem hér á eftir að rísa í landinu. Við höfum lagt á það megináherslu, að meirihlutaeign í þessum fyrirtækjum er ekki næg í þessu sambandi. Framsóknarmenn leggja á það megináherslu, að Íslendingar eigi meiri hluta í þessum fyrirtækjum, en sú meirihlutaeign getur myndast á nokkrum árafjölda. Meirihlutaeign er samt ekki einhlít vegna þess að það er alveg ljóst að verulegur hluti hagnaðar og peninga, sem í kringum þessi mál eru, fer einmitt fram varðandi markaðsmálin. Við leggjum þess vegna megináherslu á að markaðsmál orkuiðnaðarvara verði atvinnuvegur á Íslandi á næstu árum, og við leggjum megináherslu á að Íslendingar taki tæknimálin í svo ríkum mæli sem unnt er í sínar hendur og svo hratt sem unnt er, að Íslendingar verði sjálfir virkir þátttakendur á öllum sviðum orkuiðnaðar og fái þannig virk yfirráð yfir þeim fyrirtækjum sem hér rísa á komandi árum. Með því móti einu getum við tryggt að hér haldi áfram að vera þjóðfélag sjálfstæðra Íslendinga.

Það er auðvitað öllum ljóst, að framtíðin hlýtur að bera það í skauti sér, að Íslendingar nýti í auknum mæli þessar orkulindir. En það er algert meginmál hvernig það er gert. Það er ekki nóg að ætla sér, eins og hv. 4. þm. Vestf., Þorvaldur Garðar, sagði áðan, að reisa hér nokkrar álverksmiðjur og nokkur stór orkuiðnaðarfyrirtæki og láta þau síðan vera undir stjórn og yfirráðum erlendra aðila og erlendra fjölþjóðafyrirtækja. Með því stefnum við að þjóðfélagsuppbyggingu sem Íslendingar munu ekki geta unað við á komandi árum. Það er alveg útilokað. Og það er algert meginmál að við horfum til þeirra þjóða sem þannig hafa staðið einmitt að sinni uppbyggingu á orkuiðnaði. Ég hef oft gert að umtalsefni í því sambandi Kanadamenn sem eiga miklar orkulindir og miklar hráefnalindir og nýta sínar orkulindir nú þegar í meira lagi en nokkur önnur þjóð veraldarinnar gerir og eru hæstu orkunotendur á íbúa allra þjóða veraldarinnar, en eru samt fátæk þjóð á þann mælikvarða sem Íslendingar vilja helst nota við samanburð, vegna þess að þeir hafa farið þá leið sem hv. 4. þm. Vestf., Þorvaldur Garðar, vill fara. Erlend alþjóðafyrirtæki eiga iðnaðarfyrirtækin hjá þeim. Þess vegna eru Kanadamenn bara seljendur orku á lágu verði og tryggja sér vinnu á sæmilegum launum — og búið. Það er sú framtíð sem Sjálfstfl. vill okkur Íslendingum.

Við skulum horfa fram til aldamótanna. Hvers konar þjóðfélag mun þá ríkja hér ef orkustefna Sjálfstfl. næði að komast í framkvæmd? Ég held að það sé algert meginmál, að íslenska þjóðin geri sér öll grein fyrir að það má ekki verða. Það voru úrtölumenn hér um aldamótin þegar ráðist var í uppbyggingu fiskveiðiflotans. Það voru úrtölumenn hér sem töldu að Íslendingar gætu ekki átt þessa togara og þessi miklu aflaskip sjálfir; það væri allt of mikil fjárfesting í því, útlendingar þyrftu að koma til með þá eignaraðild. Sem betur fer fengu þeir menn ekki að ráða stefnunni þá. Íslendingar eiga þessi skip og þeir nýta aflann sjálfir. Ég hygg að það þætti mörgum þröngt fyrir dyrum ef fiskiskipaflotinn væri í talsverðum mæli í eigu útlendinga. Hér er um að ræða anga af sama máli. Ég vil þó segja að auðvitað verðum við að hafa nána samvinnu við erlenda aðila um uppbyggingu þessara iðnfyrirtækja, bæði varðandi tækniþekkingu og markaðsmál og varðandi fjárfestingu að einhverju leyti. Það er sjálfsagt enginn vafi á því. Við framsóknarmenn erum ekki talsmenn þess að gera Ísland að einhvers konar þjóðlegu fjósi þar sem engir geislar erlendrar þekkingar eða framfara komast inn, langt frá því. En þar má nokkur munur vera á eða hvort stefna Sjálfstfl. verður ofan á í þessum mæli. Ég hygg að e.t.v. sé það einmitt brýnasta verkefnið í íslenskum stjórnmálum að gera þjóðinni grein fyrir því, hversu hættulegt það er, ef stefna Sjálfstfl. verður ofan á, hvers konar þjóðfélag það er, sem niðjar okkar munu þá lifa í, miðað við þann hraða sem sjálfstæðismenn vilja hafa á orkunýtingu. Hér er ekkert smámál á ferðinni. Hér er um nýtt landhelgismál að ræða eða nýja sjálfstæðisbaráttu nánast.

Ég vil síðan leggja megináherslu á að eignaraðildin, meirihlutaeign í höndum Íslendinga sjálfra, má alls ekki stefna í þann farveg að það sé íslenska ríkið einvörðungu sem gangi inn í þennan atvinnuveg. Það verður að reyna að búa þannig um hnútana að bæði einstaklingar, almenningshlutafélög og samvinnufélög geti komið inn í þennan iðnað, það stefni ekki í það, að með stórfelldri nýtingu orkulindanna á komandi áratugum rísi hér upp einhver allsherjarríkiskapítalismi. Það er algert meginmál að þjóðin sjálf taki á þann hátt þátt í þessari uppbyggingu.

Ég vil fara fáeinum orðum um orkunýtinguna sjálfa. Orkunýtingarkostir koma fram í grg. með þessari þáltill. Ég hygg að þm. viti að líklegt er að mjög fljótlega verði lagt fram á þinginu frv. um kísilmálmsverksmiðju á Reyðarfirði. Verulegar athuganir hafa fari fram og verkefnastjórn hefur nánast lokið störfum varðandi þá athugun. Nú hefur þegar verið ráðið erlent fyrirtæki til að yfirfara þær skýrslur og gefa það sem kallað er „second opinion“ eða álit sitt á þeim áætlunum. Þessar áætlanir líta ekki illa út eins og þær eru. Það er mitt mat, að ef þessi yfirferð skýrslunnar gefur jákvæða niðurstöðu sé sjálfsagt að veita þessu máli brautargengi hér og byggja 25 þús. tonna kísilmálmsverksmiðju á Reyðarfirði sem gæti þá hæglega tekið til starfa á miðju ári 1985 ef allir þættir ganga upp. Við erum hér að tala um orkunýtingu upp á 345 gwst. Við erum að tala um verksmiðju sem er með um 130 starfsmenn — verksmiðju sem að kostnaðarverði er um 750 millj. nýkr. Ég hef reyndar oft verið þeirrar skoðunar, að eðlilegt væri að kanna hvort slíka verksmiðju ætti að reisa að einhverju eða verulegu leyti í samvinnu við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Mér finnst að ef það væri gert ætti hlutur Norðmanna að minnka nokkuð í öllu fyrirtækinu. Mér finnst að það gæti vef komið til greina. Þó er sérstaklega markaður þessara fyrirtækja óskyldur og útlit fyrir rekstur kísilmálmsverksmiðju er miklu, miklu betri en útlitið eins og það er með kísiljárnið. Kísilmálmsmarkaðurinn er að 2/3 hlutum háður álmarkaði, en að 1/3 hluta háður sílikonmarkaðnum, og virðist vera útlit fyrir að sílikon-markaðurinn muni vaxa mjög á næstu árum og þar með kísilmálmsmarkaðurinn. Ég bind nokkrar vonir við þetta fyrirtæki, og komi þessar kannanir nú vel út tel ég sjálfsagt að ráðast í þessa framkvæmd.

Jafnframt hefur íslenska ríkisstjórnin sett af stað hagkvæmniathugun um nýjan áliðnað. Årdal Sundalverket í Noregi vinnur nú að hagkvæmniathugunum fyrir nýtt álver hér á landi. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það. Ég er þeirrar skoðunar, að áliðnaður eigi mikla framtíð og sé e.t.v., þrátt fyrir stöðuna í dag, eitt af því arðvænlegasta sem við eigum kost á að ráðast í. Ég er líka þeirrar skoðunar, að það sé engin spurning um að stækkun álversins í Straumsvík sé hagkvæmur kostur og geti borgað hærra orkuverð en ný verksmiðja sem reisa þarf þar sem byggja þarf nýja höfn og öll önnur innri mannvirki. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum. Ýmsir aðilar hafa gefið sig fram sem virðast vera tilbúnir til samvinnu við okkur um álverksmiðju og margir þeirra mjög áhugaverðir. Í umræðum að undanförnu hefur sérstaklega komið fram að Japanir hafa leitað eftir viðræðum við okkur um þessa hluti. Þeir eiga í nokkrum erfiðleikum með áliðnað í sínu landi þar sem þeir borga nú allt að 70 mills fyrir kwst. á sama tíma og álverið í Straumsvík borgar 6.5 eða meira en 10 sinnum minna. Það er auðvitað ljóst að Japanir geta ekki rekið sínar álverksmiðjur áfram við slíkt orkuverð og markaður fyrir ál í því landi er mikill, enda Japan eitt af mestu iðju- og iðnaðarlöndum veraldarinnar.

Ýmsar fleiri athuganir eru í gangi sem ég ætla ekki að orðlengja um hér. Ég vil þó segja að þær athuganir, sem nú er unnið að varðandi trjákvoðuverksmiðju í samvinnu við frönsk fyrirtæki, líta ekki heldur illa út. Þar virðist vera um að ræða fyrirtæki sem gæti vel orðið mjög hagkvæmt — fyrirtæki með um 130 starfsmenn sem nýtti um 375 gwst. á ári. Eins og menn vita hér er sjóefnavinnslan þegar komin af stað. Framkvæmdir við 8 þús. tonna verksmiðjuna geta senn hafist og stækkun í 40 þús. tonn er áætluð þar á eftir. Við bindum miklar vonir við að þarna séu um að ræða grundvöll undir víðtækan íslenskan efnaiðnað sem byggir á innlendu hráefni og innlendri orku og þar opnist möguleikar til sérstakrar nýtingar þeirra jarðhitasvæða sem liggja nálægt sjó og nálægt höfnum. Í því sambandi fara nú fram verulegar athuganir á framleiðslu á magnesíum, en við getum náð umeinu tonni af magnesíum úr um 1000 tonnum af sjó, og margt bendir til að þar gæti verið um arðvænlega framleiðslu að ræða og mjög skemmtilega fyrir Íslendinga þar sem um íslenskt hráefni er að ræða. Sjórinn er að verða æ mikilvægara og mikilvægara hráefni í iðnaði. Slíkar athuganir fara líka fram á natríumklórati. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls er öllum ljóst að deilur standa um virkjun Blöndu. Öllum er ljóst að þar er um viðkvæmt deilumál að ræða. Menn hafa reynt að leita þar samninga og fara að með nokkurri gát. Ég undrast að hv. þm. skuli standa hér upp og gagnrýna það. Menn eru sammála um að hagkvæmni Blönduvirkjunar sé mikil, en meginmálið er auðvitað að við erum sammála um að virkja þessar þrjár stórvirkjanir á næstu 12 árum. Ég geri ekki allan mun á því, í hvaða röð þær eru virkjaðar. 12 ár eru ekki langur tími, og ég held að menn verði að reyna að átta sig á því, að einhvern veginn verður að raða þessu. Virkjanirnar koma allar.

Hv. 4. þm. Vestf. gerði að nokkru umræðuefni stækkun Búrfellsvirkjunar. Það er alveg rétt, að þeir Landsvirkjunarmenn telja nú að stækkun Búrfellsvirkjunar sé mjög hagkvæmur kostur, og auðvitað þarf að kanna það. Á hinu verð ég að lýsa nokkurri undrun minni, að það skuli ekki koma fyrr fram hjá þeim, að stækkun Búrfellsvirkjunar sé í þessari röð, miðað við að þar sé um svo hagkvæman kost að ræða. Ég verð að lýsa undrun minni á því, að þeir menn hjá Landsvirkjun, sem um þessi mál fjalla, skuli ekki hafa komið auga á þann kost og skýrt frá honum fyrr en nú. Ég vona að þær áætlanir standist betur en áætlanir fyrirtækisins um vatnsrennsli. Ég hygg að það hafi komið flestum Íslendingum nokkuð á óvart, eftir að vera komnir með tvær aflvélar í gang við Hrauneyjafoss, að standa frammi fyrir vatnsskömmtun samt. Ég hygg að áætlanir Landsvirkjunar hafi ekki staðist nægilega vel í því sambandi. Það gæti vel verið að það væri ástæða til að láta hana gera frekari grein fyrir því, hvernig stendur á að þær áætlanir hafa brugðist.

Það er hins vegar alveg ljóst, að stefna ríkisstj. um, að næsta stórvirkjun sé utan eldvirka svæðisins á Suðurlandi, hlýtur að teljast rétt. Þó að menn geti greint á um hvort raunverulega séu líkur á hættu, þá hlýtur að vera rétt að dreifa þessum virkjunum, bæði með tilliti til eldvirkni, með tilliti til jarðskjálfta, með tilliti til öryggis flutningslína og með tilliti til úrkomu og vatnasvæða. Allt hlýtur þetta mæla með því að næsta stórvirkjun sé utan þessa svæðis á Suðurlandi, að menn tali ekki um að með aukinni orkunotkun um allt land er auðvitað alveg ljóst, að það er mikil hagkvæmni vegna flutningslínanna að dreifa þessum virkjunum. Ég vil líka leggja megináherslu á þá stefnu ríkisstj. að haga þessum framkvæmdum þannig að innlendir verktakar geti í sem ríkustum mæli tekið þessar framkvæmdir að sér. Íslendingar búa yfir verkkunnáttu og tækni til að gera þetta sjálfir, og það er auðvitað algert meginmál að útboðum sé hagað þannig að Íslendingar geri sem allra mest og íslenskir verktakar framkvæmi þetta sjálfir. Við höfum lagt áherslu á að einn virkjunaraðili verði í landinu fyrir þessar stórvirkjanir. Samningar standa nú yfir um það og við höfum lagt áherslu á að einmitt málið verðandi stofnlínurnar, byggðalínurnar, verði leyst í þessu sambandi. Það er auðvitað alveg óviðunandi að reka byggðalínurnar á lánsfjáráætlun. Það getur ekki gengið lengur. Það hlýtur að vera ljóst að einhver verður að borga. Þjóðin verður að borga fyrir rekstur byggðalínanna. Það verður öll þjóðin að gera. Þetta hlýtur mönnum að vera ljóst, þegar raforkan kemur um allt land, að byggðalínurnar eru fyrir alla þjóðina. Við leggjum áherslu á verðjöfnun á raforku í heildsölu sem fram kemur í þessari þáltill. og í frv. sem samþykkt var á sínum tíma.

Ég vil að lokum taka undir orð iðnrh. og vonast til þess að þessi þáltill. fái góða meðferð hér í þinginu og málefnalega.