02.11.1981
Efri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

7. mál, útvarpslög

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða hér sögu hljóðvarps og sjónvarps, mér er hún ekki eins kunn og hv. flm. þessa frv. og hv. síðasta ræðumanni. Ég vil heldur fara örfáum orðum um þá stöðu sem nú er.

Ég get tekið undir með hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, að mér er umhugaðra um efnisval sjónvarps og hljóðvarps en tímalengd útsendingar. Þetta frv. gerir ráð fyrir að það sé útvarpað og sjónvarpað dagskrá hvern dag árið um kring. Hv. síðasti ræðumaður vék að kostnaðarhlið þessa máls. Ég vil taka undir það. Auðvitað þyrfti að athuga hana miklu nánar en gert hefur verið, tíunda hvern kostnað þetta frv. hefði í för með sér.

Ég vil skjóta því hér inn, að betra væri ef hæstv. menntmrh. hefði verið viðstaddur þessa umr., svo mjög sem er tilhlýðilegt að ræða hin margvíslegu málefni Ríkisútvarpsins. En hvað um það, auðvitað er hægt að ræða hin ýmsu mál þótt hæstv. ráðherrar séu ekki við.

Það er ekki höfuðnauðsyn, en í þessu tilfelli hefði það verið æskilegra.

Ég talaði um að það væri mín skoðun, að efnisval í fjölmiðlum, sjónvarpi og hljóðvarpi, væri meira um vert en tímalengd útsendingar. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þessar stofnanir hafa verið í allmiklum fjárhagsörðugleikum. Nú er mér sagt, því miður hef ég ekki um það tölur, að fjárhagur hafi farið batnandi. Einmitt vegna þessara ummæla, sem heyrst hafa, hefði verið æskilegt að hæstv. menntmrh., sem vonandi mun taka þátt í þessari umr. síðar, veitti deildinni innsýn í núverandi fjárhagsstöðu bæði sjónvarps og hljóðvarps. Vænti ég að hann geri það.

Ég er ekki sannfærður um að það sé leiðin að lögleiða lengd útsendingar, hvorki að því er varðar dagafjölda eða útsendingar hvern dag. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því. Nú veit ég að hv. þm. Eiður Guðnason er gjörkunnugur málefnum útvarps og sjónvarps. Það er mér fyllilega ljóst. Vafalaust er ýmislegt í rekstri þessara stofnana og umfjöllun sem hann hefur ekki haft tíma til að koma til skila hér eins og vert væri. En þegar ég horfi á þessa hluti úr fjarlægð sýnist mér eðlilegra að huga frekar að efnisvali en dagskrárlengd.

Það er mín skoðun jafnframt, að sjónvarp — fyrst og fremst sjónvarp — þyrfti að nýta í miklu ríkari mæli til kennslu en gert er í dag. Nú er ég farinn að tala fyrir lengri dagskrá sjónvarpsins. Ég held að mjög skorti á að þessum þætti sé sinnt. Ef um væri að ræða að lengja dagskrá sjónvarpsins vegna kennslu, þá yrði það að mínum dómi fyrst og fremst að gerast yfir vetrarmánuðina. Slíka kennslu mætti viðhafa í sjónvarpi, hvort sem það félli inn í hið almenna skólakerfi eða til endurmenntunar eða hvers konar uppfræðslu sem vera skal. Það er mín skoðun, að þessum þætti hafi verið mjög lítið sinnt á vegum sjónvarpsins allar götur frá upphafi þess.

Ég ætla ekki að fara orðum hér um gildi hljóðvarps og sjónvarps í íslensku þjóðfélagi. Það hlutverk er óumdeilt. Auðvitað þarf að reka slíkar stofnanir með allnokkrum myndarskap. En það er ekki þar með sagt að ástæða sé til þess að ausa í þær fé, ómældu fé, enda er enginn að tala um það. Meginatriðið er að mínum dómi að í rekstri slíkra stofnana sé hæfilegur sveigjanleiki, að hljóðvarp og sjónvarp sveigist að eðli og kröfum þjóðfélagsins á hverjum tíma. Hlutverk þess og skyldur eru ríkar á sviði uppfræðslu. Þar eru miklir möguleikar sem nýta þarf betur en gert hefur verið til þessa.