11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hefði satt að segja gaman af því að tala hér lengi og mikið um þessi mál og kannske rif ja dálitið upp afskipti eigenda Iscargos af íslenskum flugmálum, bæði fyrr og siðar, en ég sé ekki ástæðu til þess.

Ég kem hérna upp til þess að minnast á örfá atriði sem hv. þm. Albert Guðmundsson hefur nefnt í mjög löngum og skemmtilegum ræðum á undan mér. Hann nefndi í ræðu sinni m.a. að bankaráð Útvegsbankans hefði orðið sammála um ákveðið erindi, ákveðinn hluta þessa máls, á fundi. Ég get aðeins sagt um það atriði, að bankaráðið var ekki spurt um eitt eða neitt. Bankaráði voru sýnd þessi plögg í dag, en ég veit ekki betur en þessir samningar hafi verið gerðir í gær.

Hv. þm. Albert Guðmundsson nefndi það einnig, að ef gengið hefði verið að fyrirtækinu Iscargo hefðu 8–10 einstaklingar orðið öreigar. Sem betur fer hefur verið komið í veg fyrir það. En hvað þýðir svona staðhæfing, að eigendur fyrirtækisins hefðu orðið öreigar ef gengið hefði verið að fyrirtækinu? Hún þýðir það einfaldlega að fyrirtækið er gjaldþrota ef menn missa eigur sínar. Þetta fyrirtæki, sem er svona statt, er keypt af Arnarflugi, og virðist það nú ekki vera sérstaklega góð fjárfesting að kaupa gjaldþrota fyrirtæki fyrir 29 millj. kr., tæpa 3 milljarða gamalla króna, eftir því sem hv. málshefjandi upplýsti mig um.

Ég vil ekki orðlengja þetta frekar, en það er alveg óhætt að fullyrða að þeir Arnarflugsmenn eru ekki aðeins mjög bjartsýnir, heldur hljóta þeir að vera mjög ríkir að kaupa fyrirtæki af þessu tagi. Þegar eitt flugfélag eins og Iscargo leggur upp laupana og hættir störfum, þrátt fyrir nýjar og ferskar hugmyndir sem eigendur þess komu með inn í fyrirtækið árið 1979, ef vitnað er í orð hv. þm. Alberts Guðmundssonar, — nýjar og ferskar hugmyndir um hvernig mætti græða peninga, sem höfðu snúist yfir í bullandi skuldasöfnun, þá er eitt alveg víst, að þau flugrekstrarleyfi, sem það fyrirtæki hefur haft, verða ekki notuð af því lengur. Þetta geta þó andskotakornið ekki kallast dylgjur. Væntanlega munu þessi flugrekstrarleyfi ekki heldur liggja lengi ónotuð. Herra forseti. Ég þori að veðja að Arnarflug hf. fær þessi leyfi.