11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3030 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þetta er orðin löng og býsna fróðleg umr. sem hefur farið fram um þessi mál. Ég vil byrja á að taka það skýrt fram vegna orða hæstv. viðskrh., að í ræðu minni var ég ekki fullyrðingasamur í þessu máli. Ég dró upp nokkrar staðreyndir, og ég óska eftir að ráðh. lesi þá ræðu þegar hún kemur hér á prenti. Ég er nánast viss um að hann gerir það.

Ég gætti þess vandlega í ræðu minni að draga fram staðreyndir í þessu máli, greina frá dagsetningum, greina frá kaupsamningum, greina frá samningi Útvegsbanka við Iscargo og Arnarflug og fleira af því tagi. Ég ætla að gera það fyrir hæstv. ráðh. að gera aftur grein fyrir því, hvers vegna ég óskaði eftir þessari umr., svo að málin skýrist dálítið meira fyrir honum.

Ég sagði orðrétt: Íslenska ríkið er eignaraðili að Flugleiðum hf. er nemur 20%. Flugleiðir eiga 40% í Arnarflugi. Það gefur því auga leið að hér er um beina hagsmuni ríkisins að ræða. Getur nokkur maður neitað þessu?

Ég sagði einnig: Einn af ríkisbönkunum, þ.e. Útvegsbanki Íslands, kemur mjög við sögu í þessu máli. Nýlega hafa verið gerðar ráðstafanir til aðstoðar þessum banka og það hljóta því að vera beinir hagsmunir ríkisins hverjar ákvarðanir hann tekur í tengslum við þetta mál. Þetta sagði ég einfaldlega og ekkert annað.

Ég sagði í þriðja lagi: Sé það ætlun hæstv. samgrh. að svipta eitt flugfélag a.m.k. tveimur áætlunarflugleyfum til að afhenda þær öðru flugfélagi býður það heim stórfelldum skaðabótakröfum á hendur ríkissjóði. Það eru því beinir hagsmunir ríkisins hverjar ákvarðanir verða teknar í þeim efnum.

Ef þessi þrjú atriði koma ekki löggjafarsamkundu þjóðarinnar við veit ég ekki hvað kemur henni við. Ég blæs því á allar aðrar fullyrðingar sem hér hafa komið fram um að þessi umr. af minni hálfu í dag sé runnin af einhverjum undarlegum rótum. Ef hv. þm. gera sér ekki grein fyrir því, hvert er hlutverk löggjafarsamkomu í lýðfrjálsu ríki, er best að þeir fari að gera það úr þessu.

Ég sagði einnig — og það er best að ég endurtaki það orðrétt svo það fari ekki fram hjá neinum manni — án þess að vera með nokkrar fullyrðingar: „Hæstv. samgrh. hefur í mín eyru sagt að hann og hans ráðuneyti hafi engin afskipti haft af máli þessu. Sé svo tel ég að ráðh. hafi brugðist skyldu sinni því auðvitað ber honum að gæta hagsmuna ríkisins, sem vegna eignarhluta í Flugleiðum hf. er einnig eigandi að Arnarflugi. Ég leyfi mér hins vegar að draga í efa að hæstv. ráðh. hafi engin afskipti haft af þessu máli, en þau hafa að mínu viti ekki verið til að gæta hagsmuna ríkisins. Það er svo önnur saga,“ sagði ég enn fremur, „hvort ráðh. hafi gert það með glöðu geði að skipta sér af þessu máli.“ Ég vil að menn muni þessa setningu.

Ég sagði líka til að renna stoðum undir að ráðuneytið eða ráðh. hefði haft afskipti af þessu máli, að sérstakur fulltrúi ráðh. í stjórn Flugleiða hefði fylgst með einum samningafundanna þegar verið var að koma á samkomulagi á milli Iscargos og Arnarflugs. Samningurinn var gerður aðfaranótt 3. þ.m. og var kynntur fyrir ráðh. daginn eftir. Ég sagði líka að 2. þ. m., daginn fyrir næturfundinn þar sem bráðabirgðasamkomulagið tókst og var undirritað með fyrirvara, þá og fyrst þá frá því í nóvembermánuði s.l. undirritaði hæstv. ráðh. bréf þar sem Arnarflugi var heimilað áætlunarflug til Düsseldorf og Zürich í Sviss. Getur verið, er hugsanlegt að einhver hv. þm. sé svo blindur að sjá ekki samhengið á milli þessara dagsetninga? Er það út í hött að láta sér detta í hug að það sé samhengi á milli þessara dagsetninga? Svari hver fyrir sig.

Ég sagði líka: „Fimmtudaginn 4. mars var haldinn fundur í fullskipaðri stjórn Arnarflugs þar sem samkomulagið var kynnt, en morguninn eftir, hinn 5. mars, óskaði hæstv, ráðh. eftir fundi í flugráði, sem síðan var frestað.“ Getur verið að það sé samhengi á milli þessara tveggja dagsetninga?

Herra forseti. Ég held að það sé nánast ástæðulaust að karpa miklu meira um þetta mái. Ég held að allir menn, sem vilja skilja, skilji hvað hér er á ferðinni. Ég ætla ekki að fara að rífast eða deila við hæstv. samgrh. frekar um þetta mál, enda held ég að málflutningur okkar beggja hér í dag hafi verið á þann veg að það hafi ekki verið um beinar deilur að ræða, heldur frekar skipti á upplýsingum sem við höfum. Ég er nánast viss um að þegar öll kurl koma til grafar er álit okkar beggja á þessu máli mjög svipað. Það er kannske hin sorglega staðreynd að þurfa stundum að taka ákvarðanir sem ráðh. Ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, spyrja nokkurra spurninga.

Hv. þm. Albert Guðmundsson skýrði hér frá því, að Útvegsbankinn hefði veitt Iscargo frest vegna þess að það hefði verið hugmyndin að reyna að selja Electra-flugvél þá, sem um ræðir í þessu máli, til Perú. Hann sagði að það verð, sem hefði átt að fást fyrir vélina, hefði verið mjög nærri því hámarksverði sem nú er á þessum vélum á Bandaríkjamarkaði, 1.9 millj. dollarar. En hvers vegna, ég spyr hv. þm., metur bankinn vélina á 1 millj.?

Hann sagði jafnframt að kaupendur hefðu ekki reynst vera fyrir hendi síðast þegar reynt var að selja vélina. Hefur hv. þm. trú á að kaupandinn sé kominn, að hann hafi skotist upp úr jörðinni rétt í því samhengi dagsetninga sem við höfum núna hlustað á?

Þá sagði hann, og þar get ég verið honum hjartanlega sammála, að það hlyti að vera sársaukafullt að gera 7–10 manns eignarlausa eða 7–10 fjölskyldur — nú veit ég ekki hvort hann átti við. Það gerir sér enginn að leik, ekki nokkur maður. En ég spyr um leið: Hvað mega litlu karlarnir gera sem verða fyrir áföllum, — fólkið sem kaupir sér íbúðir og getur ekki staðið í skilum og er auglýst í dagblöðum Reykjavíkur á nauðungaruppboðum dag eftir dag? Er það ekki bara gert upp? Og ég spyr líka: Hvar er hin frjálsa samkeppni þar sem menn eiga að standa og falla með fyrirtækjastofnunum þar sem þeir tapa eða græða? Er það með þetta eins og svo margt annað í þessari svokölluðu frjálsu samkeppni, að þegar vel gengur á hagnaðurinn að renna í vasa eigandans, en þegar illa gengur á ríkið að hlaupa undir bagga? Þetta er algildur málflutningur þeirra manna sem prédika fullt frelsi í viðskiptum.

Síðan var spurt hér: Eru það bara Flugleiðir sem eiga að fá ríkisaðstoð? Hafi þessari spurningu verið beint til mín vil ég að það komi skýrt fram, og það kemur fram í þskj., að ég var á móti því á sínum tíma að haldið yrði áfram að styðja Flugleiðir til Norður-Atlantshafsflugs. Hér hef ég því ekki nokkurra minnstu hagsmuna að gæta. Ég hafði engan áhuga á að það flugfélag yrði stutt til Norður-Atlantshafsflugs, einfaldlega vegna þess að ég hafði enga trú á að það flug mundi bera sig, og það hefur komið í ljós. Ég taldi að það væri unnt að halda uppi eðlilegum samgöngum við Bandaríkin með u.þ.b. tveimur ferðum í viku eða einni ferð í viku, en allt það flug, sem nú fer fram á milli Luxemborgar og Bandaríkjanna, væri fjarstæða og væri út í hött.

Ég veit ekki af hverju hæstv. viðskrh. hlær, nema hann hafi verið að tala við hv. skrifara deildarinnar. (Gripið fram í.) Það var gott. Annars hefði ég viljað fá að heyra það strax. (Gripið fram í: Ég get nú eiginlega ekki sagt það.) Það var gott. Ég gleðst mjög með hæstv. viðskrh. að honum er hlátur í huga og skemmtir sér við þessa upptalningu. Ég er kominn að honum svo það er indælt að geta átt við hann orðastað.

Hæstv. viðskrh. kom hér upp býsna myndugur á svipinn, eins og hans var von og vísa, og studdi sinn flokksbróður, eins og honum bar, og bar af honum þar sem hann taldi að illa hefði verið um hann talað. Var auðvitað bæði drengilegt og rétt af honum að gera þetta. Hann sagði hins vegar og fordæmdi það, að menn ræddu í þessu sambandi einhver hneykslanleg viðskipti. Ég hef aldrei viðhaft það orðalag. Hann talaði líka um að þm. bæru sakir á ráðh. Það, sem ég gerði í mínu máli, var að biðja ráðh. að svara spurningum, og til að fá möguleika til að bera upp þessar spurningar þurfti ég að færa rök fyrir því hvers vegna. Það hlýtur hæstv. ráðh. að skilja.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði áðan, að það kemur ekkert nýtt fé frá Útvegsbankanum inn í þessi kaup. En einhvers staðar verður Arnarflug að fá þá lausafjármuni sem félaginu er ætlað að greiða þegar kaupsamningurinn tekur gildi, í fyrsta lagi 3.8 millj. í peningum og í öðru lagi 1 millj. í ríkissjóð. Einhvers staðar verða þessir peningar að fást. Getur kannske hæstv. bankamálaráðh. sagt mér hvaðan þeir koma? Hann getur það ekki. Það kemur kannske í ljós hvaðan þetta viðbótarfé kemur.

Ég vil láta það verða endinn á þessum málflutningi mínum, að ég stend við það sem ég sagði upphaflega og voru kannske þau grófustu orð sem ég notaði. Ég sagði að það væri ólykt af þessu máli. Við það stend ég. Telji menn að þetta sé ekki rétt fullyrðing hafa þeir auðvitað fullan rétt til að líta svo á málin. En ég er sannfærður um að allt það fólk, sem hefur sæmilega góða heyrn og sæmilega góða skynsemi, hljóti að átta sig á að hér er ekki allt með felldu, hvað sem hver segir. Það er ekki allt með felldu þegar svona viðskipti fara fram á sama tíma og bréf berast frá ráðuneytum með dagsetningum sem koma heim og saman við kaupsamninga. Það er ekki allt með felldu. Ég held að ég þurfi ekki að taka dýpra í árinni en ég hef gert. Ég get hins vegar sagt það að lokum, að ég vænti þess fastlega, eins og fleiri ræðumenn í dag, að hæstv. samgrh., sem að vísu hefur mikið og margt á sinni könnu, vindi nú bráðan bug að því að leggja fram á Alþingi formlega till. um mótun íslenskrar flugmálastefnu. Sá háttur, sem hafður hefur verið á um úthlutun á flugleyfum m.a., leiðir bara til vandræða. Hann getur aldrei gert neitt. Það var sagt á sínum tíma, þegar Iscargo fékk Amsterdam-flugleyfið, að félaginu mundi ganga vél, það mundi hagnast á þessu og það væri blómleg tíð fram undan. Hvernig er komið nú? Ég verð að segja að ég ber það mikla virðingu fyrir flugfélaginu Arnarflugi að ég vil ekki að þannig fari fyrir því. Ég vil ekki að það sé að vissu leyti ginnt til kaupa á fyrirtæki sem hlýtur að verða stórkostlegur baggi á því. Öll skynsamleg rök að mínu mati mæla gegn því, að þetta dæmi þeirra geti gengið upp með öllum þeim skuldum, sem félagið, hefur fyrir, þeim skuldum, sem það nú tekur á sig, þeim vaxtargreiðslum, sem hljóta að hrannast upp, og þeim lausafjármunum, sem félagið verður að reiða af hendi við þessi kaup. Þó að það fái fyrirgreiðslu í bönkum með þessa lausafjármuni hlaðast líka á vextir. Það verður að ganga býsna vel í flugrekstrinum hjá því í sumar ef það á að greiða allar afborganir og vexti af öllum þeim lánum sem það hefur tekið og það hefur nú yfirtekið — ég segir því miður.

Herra forseti. Þetta mál er auðvitað af þeim toga spunnið að hvorki ég né aðrir þm. geta dregið hingað upp í stólinn menn eða konur sem geta borið vitni um eitt eða annað sem sagt hefur verið, undirritað á fundum eða á skrifstofum einhvers staðar úti í bæ. Slíkt er gjörsamlega útilokað. Það eina, sem við getum gert í þingræðislandi, er að renna stoðum undir það sem við erum að segja, og það tel ég mig hafa gert hér í dag fullkomlega og þannig að hver maður hljóti að skilja hvert ég er að fara.