11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3033 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki teygja lopann miklu lengur, enda satt að segja sýnast mér ekki vera mörg atriði sem ég þarf að svara hér að nýju. Þó eru fáein sem ég vil leyfa mér að koma að.

Hv. þm. Friðrik Sophusson taldi að ég hefði ekki gert hreint fyrir mínum dyrum. Hann verður að hafa þá skoðun í friði. Ég leitaði eftir því í hans ræðu, hvað það væri einkum sem hann teldi að ég hefði ekki gert nægilega góða grein fyrir. Mér virðist það vera tvennt. Í fyrsta lagi taldi hann mjög grunsamlegt að svo lengi hefði dregist að veita Arnarflugi þessi tvö flugleyfi, á Düsseldorf og Zürich. Ég skal með ánægju skýra það.

Hv. þm. gat þess ekki, að ég skrifaði Arnarflugi bréf eða svaraði réttara sagt umsókn Arnarflugs um flugrekstrarleyfi mjög fljótlega eftir að flugráð hafði um þessi mál fjallað. Mig minnir að þetta bréf hafi verið dagsett 11. nóv. eða a.m.k. mjög nálægt því. Þar tjáði ég Arnarflugi að ég mundi veita því leyfi til að fljúga á Þýskaland og Zürich, en tjáði því jafnframt að áður en unnt væri að ganga frá þeim leyfum yrði að ræða við flugmálayfirvöld viðkomandi landa. T.d. erum við ekki með samning við Sviss. Í þetta var farið. Flugmálastjóri fór í það og fékk staðfestingu þar á því að þetta mundi verða í lagi. Síðan óskaði ég eftir að utanrrn. gengi formlega úr skugga um þetta, m.a. vegna þess að í svari þýsku flugmálayfirvaldanna komu fram óskir um ákveðnar upplýsingar. T.d. sögðust þeir vilja fá staðfest að hér væri um raunverulegt flug á milli Þýskalands og Íslands að ræða en ekki gegnumflug, þ.e. farþegar fluttir hingað og svo áfram til Bandaríkjanna. Þetta eru eðlilegar spurningar, mjög eðlilegar, og þetta var upplýst. Þá kom einnig fram að þýsk flugmálayfirvöld vildu síður að flogið yrði á Hamborg, af ástæðum sem ég veit ekki hverjar eru. Þetta varð til þess, að forstjóri Arnarflugs fór til Þýskalands og ræddi við flugmálayfirvöld þar um þessi mál og gerði grein fyrir þeim. Þetta tók allt alllangan tíma.

Þegar þetta var svo nokkurn veginn komið í höfn höfðu staðið yfir nokkuð lengi viðræður Arnarflugs og Flugleiða sem ég — eins og ég sagði áðan í ræðu minni batt miklar vonir við. Ég hélt að þær mundu leiða til flugmálastefnu sem menn gætu þá sætt sig við og væri viðunandi að mínu mati. Í þeim viðræðum kom m.a. fram, eins og ég sagði einnig áðan, að Flugleiðir lögðu á það mjög ríka áherslu að ekki yrði veitt leyfi til að fljúga á Frankfurt. Ég taldi mér skylt að ræða þetta við Flugleiðir. Það gerði ég og vildi fá að heyra þeirra rök. Þetta tók einnig einhvern tíma. Það var að þessu loknu sem ég gaf út heimild til að fljúga á Düsseldorf og Zürich. Menn eru með getsakir um að dagsetningar þarna séu eitthvað einkennilegar. Menn verða bara að fá að vera eins getspakir og þeim sýnist. Það stóð bara þannig á, að þetta var tilbúið til afgreiðslu og ég afgreiddi málið þá.

Mér heyrist annars vegar að þetta eigi að vera einhvers konar umbót fyrir Arnarflug, að kaupa Iscargo, en hins vegar að hálfpartinn sé verið að þvinga Arnarflug til að kaupa Iscargo. Menn verða að fá að meta það. Ég kann ekki svör við slíkum hugrenningum.

Í öðru lagi ræddi hv. þm. um það — og mér skildist að hann teldi eitthvert ósamræmi í því, sem ég sagði hér, og því, sem hann las upp úr minni ræðu um leyfi til Iscargo. að það væri ekki stefnubreyting. Eins og hann las sjálfur upp sagði ég að það út af fyrir sig væri ekki stefnubreyting þó að Iscargo fengi leyfi til að fljúga til Amsterdam, þangað flygi það þegar með frakt og með slíku væri verið að leita að betri grundvelli fyrir það fraktflug með því að sameina þetta tvennt. Ég endurtek: Ég leit ekki svo á um stefnubreytingu væri að ræða í sjálfu sér. Hins vegar vinn ég að því að fá fram verulega stefnubreytingu, ég hef aldrei farið leynt með það, og ég vildi gjarnan leggja hér fram þáltill. um stefnuna í flugmálum. Ég gæti gert það á morgun, ég er búinn að lýsa henni hvað eftir annað í ræðum. Ég hef lýst henni í ræðum hér, ég hef lýst henni á fjölmennum fundi t.d. á Loftleiðum og víðar, þar sem sérstaklega var spurt eftir því. Mig minnir að hv. þm. Árni Gunnarsson hafi spurt eftir því eða Eiður Guðnason. Ég hef aldrei farið leynt með það við nokkurn mann, að ég tel það vera skynsamlega stefnu í flugmálum að litið flugfélag starfi hér við hliðina á risanum og verði skapaður grundvöllur til að starfa, m.a. með því að fá sæmilega góðar áætlunarleiðir á Evrópumarkaðinn.

Menn hafa hér reynt að gera það tortryggilegt, að þessir menn gengu á minn fund. Það yrði nokkur listi ef ég ætti að telja hér upp öll þau skipti sem fulltrúar flugfélaganna hafa komið á minn fund. Ég er ekki viss um að ég hafi hann allan, en gæti þó kannað það í minni dagbók. Þau eru mörg málin sem flugfélögin telja sig þurfa að ræða við ráðh. um. Og ég held að það sé ekkert nýtt.

Um þetta mál er það fyrst að segja, að Arnarflugsmenn ganga á minn fund nokkru fyrir umræddan samningafund á Sögu og segja mér að þeir séu að ræða við Iscargo um að kaupa hlutafé Iscargos, þannig verði eigendaskipti, og þeir spurðu mig hvort ég mundi svipta Iscargo leyfinu ef þeir keyptu hlutaféð? Ég sagðist ekki sjá neina ástæðu til þess, mér dytti ekki í hug að svipta Flugleiðir leyfinu ef Klák hf.—eða hvað það heitir sem á meiri hluta þar — seldu öðrum íslenskum aðila, seldu Hafskipi eða einhverjum öðrum. Mér dytti slíkt ekki í hug. Ég sæi engan grundvöll til þess. Hins vegar verð ég að viðurkenna að þá væri verið að kaupa leyfi. Þegar Flugleiðir hf. kaupa Loftleiðir og Flugfélagið, eru þær þá ekki að kaupa leyfi í raun og veru? Ég er viss um að þær hefðu aldrei gert slíkt nema af því að leyfin fylgdu með. Þær keyptu hlutaféð og reyndar lögðu niður félögin.

Mér þykir ákaflega leitt að heyra að menn telji að ég sé að selja leyfi í þessu sambandi. Mér þykir það ákaflega leitt. Ég verð að segja það eins og er. En ég get ekki gengið lengra en ég hef gert til að sannfæra menn um að svo er ekki. Ég tók það skýrt fram við Arnarflugsmenn og Iscargo, að það væri ekki um það að ræða. Ef þeir hefðu keypt hlutaféð hefði líklega enginn getað staðið hér upp og ásakað mig um eitt eða neitt. En þó hefðu þeir þá líklega verið að kaupa leyfin. Þetta dettur mér í hug þegar ég hlusta á menn tala hér. Þá keyptu þeir hlutaféð með öllu sem fylgdi og Iscargo hefði haldið áfram en aðrir eigendur rækju félagið.

Þeir gengu líka á minn fund og spurðu mig hvort nokkur breyting væri á þeirri hugmynd minni að skapa öðru flugfélagi, Arnarflugi í þessu tilfelli, rekstrargrundvöll með því að veita því áætlunarleyfi. Ég tók skýrt fram við þá að engin breyting væri á þeirri skoðun minni og ég teldi mig reyndar hafa allákveðna viljayfirlýsingu Alþingis þar sem þau skilyrði voru sett, að Arnarflug yrði sjálfstætt félag, og því eðlilegt að reyna að skapa því rekstrargrundvöll. Ég viðurkenni að í því kom ekkert fram um að það ætti að fá áætlunarleyfi. Hins vegar veit ég að fulltrúar starfsmanna Arnarflugs, sem komu á nefndarfundi, lýstu því við nefndirnar, að því er mér er tjáð, að þeir teldu nauðsynlegt í þessu sambandi að fá áætlunarleyfi. Ég held því að það hafi ekki farið fram hjá neinum að þeir töldu alla tíð að þeir þyrftu að fá áætlunarleyfi.

Ég lýsti því áðan er Iscargo hefði skilað inn leyfum eins og því ber. Ég hef aldrei farið leynt með það. að ég teldi æskilegt að Arnarflug flygi á þessari leið. Ég hef aldrei farið leynt með það. Vel má vera að þegar Arnarflug kaupir reikni það með að ég standi við sannfæringu mína í þessum málum.

Menn hafa talið það tortryggilegt, að ég kalla til flugmálastjóra, varaflugmálastjóra og þá flugráðsmenn og varaflugráðsmenn sem ég náði til þegar þetta var á döfinni. Ég veit ekki við hverja ég á að hafa samráð ef ekki við þessa menn. Þetta var ekki flugráðsfundur. Fundinum er frestað fyrst og fremst af því að ég varð að fresta þeim fundi. Fundurinn var haldinn síðar, áður en búið var að ganga frá þessum málum. Ég var engin bréf búinn að fá í hendurnar þá. En ég taldi nauðsynlegt að gera þessum mönnum grein fyrir því, sem ég er að vísu oft búinn að segja opinberlega, að ég teldi þetta skynsamlega stefnu. Og ég spurði: Hafið þið eitthvað við það að athuga? Ég vildi gjarnan fá fram athugasemdir frá mönnum áður en lengra væri haldið. Menn lýstu þar skoðunum sínum á þessu máli og ég met það. Ég ætla ekki að fara að lýsa þeim nú, þeir geta gert það sjálfir. Hv. þm. Albert Guðmundsson hefur þegar gert það. Ég taldi mér verulegan stuðning í því sem kom fram hjá þessum ágætu mönnum sem eru önnum kafnir í flugmálunum. Nú er það gert tortryggilegt og á víst að undirstrika það, að ég sé að selja leyfi.

Ég verð að segja að mér hefur þótt dálítið fróðlegt að kynnast hugarheimi sumra sem þannig hafa talað. Þó verð ég að segja að ég varð fyrir mestum vonbrigðum að heyra slíkt frá hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni. Ég er ekki að selja leyfi, en ég ætla að reyna að nota þetta tækifæri til þess að koma á skynsamlegri flugmálastefnu, og ég mun ræða við Flugleiðir á morgun.

Einnig er fullyrt að ég sé að hóta Flugleiðum einhverju. Ég sagði nokkurn veginn með þeim sömu orðum að í viðræðum Flugleiða og Arnarflugs hefðu Flugleiðir náð því, að ég lét ekki Arnarflug fá leyfi til Frankfurt. Þær hefðu líka náð því, að Arnarflug bauð ekki í leiguflug til Kaupmannahafnar, í þeirri trú, að mér er tjáð, að samkomulag yrði um að það færi út af þeim leiðum. (Gripið fram í: Er það hin frjálsa samkeppni?) Frjáls samkeppni. Vitanlega ber að skapa hinni frjálsu samkeppni vissan ramma. Er það ekki iðulega gert? Er ekki t.d. við úthlutun á útflutningsleyfum reynt að skapa hinni frjálsu samkeppni einhvern ramma svo ekki fari út í öfgar? Ég tel mig vera að gera það í því sem verið er að gera. Ég er ekki með neinar hótanir í garð Flugleiða. Ég vísa því á bug. En ég segi: Þær fengu þetta, og ég geri mér vonir um að þeir meti það einhvers og vilji þá semja um málin. Ég ætla að ræða við þá í fyrramálið um það.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Búið er að teygja lopann mikið um þetta mál og margt fróðlegt hefur komið fram. Ég blanda mér að sjálfsögðu ekki í það sem hér er talað um bankastarfsemina. En ég vil þakka hv. þm. Albert Guðmundssyni fyrir þær upplýsingar sem þar komu fram. Ég hef ekki heyrt þær nema að litlum hluta áður. Mér er ljóst að þar hefur verið haldið rétt og vel á málum og hagsmuna bankans gætt. Og út af því sem hér var sagt áðan, að við fengjum fljótlega að sjá hér flugmálastefnu eða till. um slíkt, vildi ég mjög gjarnan gera það sem fyrst og er tilbúinn að leggja fram till. til þál. um það. En ég tel að heilladrýgra sé að ná slíku fram með samkomulagi, og ég er búinn að vera að sýsla við það í allan vetur. Það hefur farið mikill tími margra manna í það og hefur því miður ekki gengið betur.