02.11.1981
Efri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

7. mál, útvarpslög

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil taka fram í upphafi að ég ætla ekki að fara að rekja hér sögu útvarps og sjónvarps. Hér er nú í deildinni allmikil sérþekking á því sviði, ef grannt væri skoðað, og ekki víst að allir muni alla hluti eins. En ég ætla strax að víkja að því sem ég tel meginatriði málsins í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir.

Í fyrsta lagi er ég sammála hv. 4. þm. Vestf., að ég sé ekki beina ástæðu til lagasetningar í þessu tilfelli. Ég held að þetta sé mál sem stjórn sjónvarpsins, yfirstjórn útvarpsins, útvarpsráð og ráðuneyti, geti leitt til lykta. Ég man ekki betur en þegar sjónvarpið var að hefja starfsemi sína — þá var ég reyndar nýkominn að Ríkisútvarpinu, var m. a. um skeið ritari útvarpsráðs og fylgdist þar eiginlega óviljandi talsvert með undirbúningi og umræðum um málið í upphafi, — ég held að það hafi ráðið einfaldar samþykktir og samkomulag um útsendingartímann.

Ég get ekki stillt mig um að fara yfir söguna. Ég held að það sé óumdeilanlegt, að tækjakostur og þjálfun tæknimanna hafi átt talsverðan þátt í því, að ekki var farið strax út í sjónvarpssendingar alla daga vikunnar, þó að fjárhagsatriði hafi náttúrlega skipt mjög miklu máli. En ég man vel að þetta atriði var mikið rætt á sínum tíma, enda voru aðstæður allar með þeim hætti og tækjabúnaður, — að vísu voru ýmsir snillingar sem fóru af gamla „gufuradíóinu“ yfir í sjónvarpið, og þarf ekki að nefna nein nöfn þar, menn sem virtust læra á þetta og þekkja þetta á augabragði, — en staðreyndin er sú, að það þurfti allmikilla viðgerða við í fyrstu þannig að það veitti ekkert af þessum lausu dögum.

En það, sem ég hef aldrei getað fellt mig við í starfsemi sjónvarpsins, er lokunin í júlímánuði. Ég held að þar hafi verið tekin röng stefna frá upphafi. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið í rúmlega 15 ár, að útvarpa ætti allt árið um kring. Hins vegar er ég ekki jafnsannfærður um að útvarpa eigi alla daga vikunnar. Það er nefnilega talsvert mikill munur á þessu. Með því að loka í heilan mánuð og jafnvel upp í sex vikur eins og gerðist á þessu ári, að vísu vegna fjárhagsástæðna, en það er önnur saga, er raunverulega verið að lýsa yfir að sjónvarpið sé ekki alvörufréttastofnun. Það er verið að lýsa því yfir, að sjónvarpið sé raunverulega einhvers konar viðbót, einhvers konar myndbandaskemmtitæki, sem eigi að grípa til á kvöldin, en ekki alvarlegur frétta- og fræðslumiðill. Þetta tel ég meginatriði. Ég minnist þess sumarið 1969, þegar fóru að gerast þeir atburðir sem hvað mesta athygli hafa vakið a. m. k. á síðari helmingi aldarinnar, þ. e. tunglförin 20. júlí, að þá varð að opna sjónvarpið til þess að geta sýnt frá þessum merkilega atburði. Slíkir atburðir eru alltaf að gerast og geta alltaf gerst, og fréttamiðill, sem er ekki í sambandi, sem bókstaflega fer í sumarfrí á hverju einasta ári, er ekki tekinn alvarlega. Ég tel hins vegar að það geti vel komið til greina að ekki sé útvarpað alla daga vikunnar. Kannske væri alveg nóg að útvarpa 4–5 daga vikunnar. En ég vil taka undir þá skoðun, sem fram hefur komið, að efnið eða efnistökin séu meira virði en magnið. Það er vel hugsanlegt, og ég vil reyndar varpa því hér fram, að ég tel að dagskrá sjónvarpsins núna sé meira en nógu löng. Hins vegar tel ég eðlilegt að hún dreifist um allt árið. Ég er algjörlega sammála því, að júlímánuður verði sjónvarpsmánuður eins og aðrir mánuðir ársins, en ég tel ekki þörf á því, núna a. m. k., að breyta þessu með fimmtudaginn. Og ég tel ekki að lagafrv. þurfi hér að koma til. Ég er sammála því, sem hv. 4. þm. Vestf. sagði, að réttara hefði verið og kannske fullnægjandi að koma með þáltill. um þetta efni. En það geri ég ekki að neinu aðalatriði.

Hitt atriðið er að sjálfsögðu fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins. Þar er um stórmál að ræða sem þingið og stjórnin verða að taka föstum tökum. Það er gjörsamlega óverjandi að þessi stofnun, hvort sem hún er mikil eða lítil menningarstofnun, sé látin koðna niður. Og það er algjörlega óverjandi að Ríkisútvarpinu sé haldið í fjársvelti þannig að ekki sé unnt að sinna lágmarkskröfum um fræðslu- og fréttaefni. Ríkisútvarpið, hljóð- og sjónvarp eru líklega þeir fréttamiðlar sem almenningur í þessu landinu á greiðastan aðgang að. Það eru þeir miðlar sem koma fyrstir og fljótast með fréttirnar og eiga að vera áreiðanlegustu fjölmiðlarnir, eiga að vera áreiðanlegustu fréttamiðlar landsins. Ég held að það verði að stuðla að því eftir megni, að þeim takist að vera slíkur miðill.

Ég tel að fjárhag Ríkisútvarpsins verði að koma í gott horf og leyfa því að byggja upp sitt menningarstarf, en ekki að lenda í undarlegri og ég vildi næstum því segja óhugnanlegri baráttu við þann draug sem myndbandavæðingin er. Ég tek eindregið undir með hv. 5. þm. Vesturl., að það er furðulegt að verða vitni að því á þessum vikum, að hver einasti aðili, sem málið snertir skuli þegja og ekki lyfta fingri þó lögbrot séu framin, að borgarstjórnin og bæjarstjórnir skuli aðstoða og beinlínis ýta undir þessi lögbrot. Þá eigum við frekar að breyta lögunum. Af hverju er ekki gengið fram fyrir skjöldu í því efni? Af hverju í ósköpunum eigum við að horfa upp á það, að lög séu einskisvirt? Eiga þau bara að vera í gildi og síðan hver og einn að ganga yfir þau eins og honum sýnist og allir bara að klappa saman lófunum af ánægju? Ef þetta er frelsi, þá vil ég biðja um einokun ríkisfjölmiðla.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.