11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3038 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það fer nú að verða nokkuð öruggt og fast starf að leiðrétta eða reyna að fá menn til að skilja rétt það sem talað er og farið er með í tölum. 1 millj. dollara verð á þeirri flugvél, sem hér um ræðir og kom fram hjá fyrirspyrjanda, hv. þm. Árna Gunnarssyni, og ég staðfesti að komið hafi réttilega til umræðu í bankanum, er ekki nauðsynlega söluverð vélarinnar. (Gripið fram í: Verðmæti hennar.) Fyrirgefið, virðulegi þm., nú er komið að mér að tala. Þegar aðrar eignir, sem standa að veði fyrir þeirri skuld sem Iscargo er í við Útvegsbanka Íslands, eru seldar, miðað við að þær seljist á því verði sem þær eru metnar á, og er hér um að ræða heimili þeirra sem ég var að tala um áðan, fasteignir, hús og annað sem þeir eiga í verðmætum, þá er talið að söluverð vélarinnar þurfi að vera 1 millj. dollara til þess að Útvegsbankinn fái allt sitt. Þess vegna er talað um að söluverð vélarinnar þurfi að vera 1 millj. dollara til þess að Útvegsbankinn nái sínu út úr uppgjöri. En það er ekki þar með sagt að Útvegsbankinn, ef hann ætti nú þessa vél til sölu án þess að hafa Arnarflug með í myndinni mundi láta vélina fyrir 1 millj. dollara, því að sá, sem þá keypti, væri að gera mjög góð kaup.

Ég vil upplýsa það, að þau ár sem ég hef verið flugráðsmaður — og á þeim tíma var hæstv. núv. flugmálaráðherra flugráðsmaður líka — hef ég þrisvar sinnum verið kallaður á fund ráðh., fyrst í tíð hæstv. fyrrv. ráðh. Halldórs E. Sigurðssonar. Þá var það til að leggja okkur lífsreglurnar á sínum tíma og kynna okkur nýjar reglur, reglugerð sem hann hafði sem starfsreglur fyrir flugráð. Næst var það í ráðherratíð hæstv. núv. fjmrh., en þá var kallaður saman flugráðsfundur. Þá var formaður flugráðs ekki viðstaddur og hæstv. ráðh. setti flugráðsfund undir sinni stjórn, en ég mótmælti því á þeim fundi þar sem hann væri ekki í flugráði, þó hann væri yfirmaður flugmála hefði hann ekki heimild til að boða flugráðsfund og setja flugráðsfund í ráðuneytinu. Það var tekin ákvörðun um úthlutun á flugleiðum. Tekin var ákvörðun um að úthluta þeim flugleiðum sem áður voru í höndum Vængja, og það hefur ekki verið gerð nein athugasemd við það. Sá flugráðsfundur var að mínu mati ólöglegur. En í þetta sinn kallar ráðh. flugráðsmenn á sinn fund og setur ekki neinn sérstakan flugráðsfund, heldur óskar að kynna flugráðsmönnum það sem hann hafði í huga í væntanlegum ráðstöfunum og að sumu leyti endurskipulagningu á flugleiðum vegna þess að eitt flugfélag er að leggja niður störf. Það er mikill eðlismunur á þessu. Og ég undirstrika það við ráðh., að ég lýsi ánægju minni yfir þessari málsmeðferð.

Mér þykir leiðinlegt að félagi minn í bankaráði Útvegsbankans, hv. þm. Garðar Sigurðsson, er ekki í salnum — kannske Garðar sé ekki langt í burtu. Ég hef hann grunaðan um að vera hér einhvers staðar, en mér þykir leiðinlegt að þurfa að rifja upp fyrir honum gang þessa Iscargo-máls. Það er annar bankaráðsmaður hér staddur sem ég bið um að leiðrétta mig ef ég fer ekki með rétt mál.

Þannig atvikaðist, að seint í síðustu viku — ég held að það hafi verið á fimmtudag — fékk ég uppkast að þessum samningum og alla vitneskju um þessa samninga milli Iscargos og Arnarflugs og þátttöku bankans í því máli. Þar sem bankaráð taka yfirleitt ekki ákvörðun um rekstur bankans og hafa yfirleitt ekki afskipti af útlánum, innlánum eða veðsetningu einstaklinga eða athugun á þeim veðum sem bankinn tekur — það er ekki talið heyra beint undir bankaráð — boðaði ég til fundar á sunnudagsmorguninn niðri í banka til þess að kynna bankaráðsmönnum þetta svokallaða Iscargo-mál til þess að þeir vissu eins mikið um það og ég. Ég hef haft það fyrir reglu að boða bankaráðsmenn á óbókaða, óformlega fundi til þess að leggja fyrir þá og upplýsa þá um öll þau mál sem snerta starf mitt sem bankaráðsformanns, þannig að þeir viti á hverjum tíma eins mikið og ég eins fljótt og ég næ þeim saman.

Við hittumst þennan sunnudagsmorgun að undanskildum fulltrúa Alþfl., sem var erlendis, og ræddum þetta mál fram og til baka. Ég kynnti það og við ræddum það og okkur kom saman um að þetta væri út af fyrir sig ekki bankaráðsmál. Ég tel að við höfum skilið þannig, en eigi að síður væri gott að við hefðum þessar upplýsingar.

Síðan kemur fulltrúi Alþfl. heim frá útlöndum. Var það mitt fyrsta verk að ná sambandi við hann til þess að hann vissi nákvæmlega það sama. Í millitíðinni hafði ég rætt hér í hliðarsölum við minn ágæta samstarfsmann í bankaráði. Fann ég á honum að hann taldi að bankaráð ætti að ræða þetta mál að bankastjórunum viðstöddum, þannig að málið væri alla vega rætt í bankaráði þó að bankaráð sem slíkt tæki ekki ákvarðanir í málinu.

Þegar í stað lét ég boða bankaráðsfund til að ræða þetta mál, til þess að bankaráðsmenn gætu þá lagt fyrir bankastjórn þær spurningar sem þeir óskuðu eftir að bera fram. Sá fundur var haldinn í dag. Það er því ekki rétt hjá mínum ágæta samstarfsmanni, að bankaráðsmenn hafi ekki vitað um þetta mál fyrr en í dag eða að okkur hafi ekki verið sýnd nein gögn fyrr en í dag. Ég hafði afrit af þeim á þessum fundi á sunnudaginn og við lásum þau allir hver um sig. Ég vil leiðrétta þetta.

Því, sem kom fram hjá virðulegum þm. til viðbótar, að þetta væri sýnishorn af einkarekstrinum, læt ég ósvarað. Fyrirtæki geta aldrei vitað fyrir fram, hvort þau lifa eða lifa ekki, þegar þau fara af stað. En það þarf bjartsýni og kjark til þess að leggja út í rekstur stórra fyrirtækja. Öðruvísi væri þjóðfélagið lítils virði. Í þetta sinn, því miður, mistókst það. Og það skilur eftir sig vandamál á fleiri en einum stað. Bankinn er einn þessara staða. Þau vandamál þarf að leysa. Þjóðfélagið eða einstaklingarnir sitja eftir með þau, þegar um samstarf margra aðila er að ræða, ef illa fer.