11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3042 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði áðan. Hann leiðrétti nokkuð staðfestingu sína á ummælum Árna Gunnarssonar frá því fyrr í kvöld og sagði að það hefði ekki falist í mati Útvegsbankans á flugvél Iscargos neitt annað en það álit Útvegsbankans, hvað bankinn þyrfti að fá fyrir flugvélina til að fá skuldbindingum sínum svarað þegar aðrar eignir aðila væru uppgengnar. Nú er þetta auðvitað, eins og hv. þm. veit, langreyndur í viðskiptalífinu, alveg þveröfugt. Menn byrja að sjálfsögðu á því, lánastofnanir og aðrir slíkir aðilar, þegar þeir eiga viðskipti við sjálfstæð fyrirtæki, að veðsetja eignir viðkomandi fyrirtækja fyrir þeim lánum sem viðkomandi peningastofnanir veita. Telji peningastofnanir að eignir viðkomandi fyrirtækja séu ekki nægilegar fyrir lánveitingu, þá fyrst fara lánastofnanirnar fram á það hjá eigendum fyrirtækjanna að þeir setji sínar persónulegu eigur í veð. Hv. þm. Albert Guðmundsson hefur áður skýrt frá því, að mat Útvegsbankans væri það, að ef til uppgjörs hefði komið á fyrirtækinu Iscargo hefðu þeir eigendur, sem höfðu lagt sínar persónulegu eignir í veð. gengið slyppir og snauðir frá. M.ö.o.: eignir fyrirtækisins hefðu ekki nægt til að standa undir skuldbindingum fyrirtækisins, heldur hefði orðið að ganga að því með viðbótartryggingu sem einstaklingar, sem fyrirtækið áttu, höfðu lagt fram. Auðvitað veit jafnviðskiptareyndur maður og hv. þm. Albert Guðmundsson að svona uppgjör fer ekki fram með því að byrjað sé að ganga á persónulegar skuldbindingar eigendanna áður en eignirnar eru teknar og reynt að ná sem mestu út úr þeim. Því er algerlega út í hött að segja að í áliti Útvegsbanka Íslands um að meta umrædda flugvél á andvirði 1 millj. dollara hafi bara falist það sem eftir stóð á reikningum hjá Útvegsbankanum og hann taldi sig þurfa að fá, fyrir umrædda flugvél þegar búið væri að ganga að öllum öðrum eignum sem veðsettar hefðu verið, þar á meðal eignum einstaklinganna sem að fyrirtækinu standa. Þetta er alveg fráleitt. En látum það nú vera. Það er ekki aðalatriði þessa máls.

Það liggur fyrir í fyrsta lagi, hvað Útvegsbanki Íslands hefur metið flugvélina mikið verðmæti og það hefur líka verið upplýst, hvert sé söluverð sambærilegra flugvéla sem nú eru til sölu á Bandaríkjamarkaði, en seljast ekki. Söluverðið er á bilinu 700 þús. til 900 þús. dollarar. Málið er ákaflega einfalt. Þarna liggur fyrir annars vegar mat viðskiptabankans á verðmæti eignarinnar, hins vegar upplýsingar frá Bandaríkjunum um söluverð sambærilegra eigna. Menn geta að sjálfsögðu haft þetta til hliðsjónar þegar þeir áætla sannvirði umræddrar flugvélar í viðskiptum Iscargos og Arnarflugs. Þessu til viðbótar liggur fyrir í skrifstofu Húsatrygginga Reykjavíkurborgar brunabótamat á öðrum fasteignum félagsins, þannig að vitað er nokkuð nákvæmlega um raunverðmæti aðaleigna fyrirtækisins. Þá er að sjálfsögðu lausafé sem vart getur verið álíka verðmikið og umræddar fasteignir. Þar er mjög auðvelt fyrir handhafa almannavaldsins að ganga úr skugga um þetta því þeir eiga milliliðalitla aðild að þeim ákvörðunum sem þarna hafa verið teknar í krafti eignarhaldsins á hlutafé hjá Flugleiðum. Það er mjög auðvelt bæði fyrir hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. að fá þetta upplýst. Komi í ljós, eins og fullyrt hefur verið hér, að eignir Iscargos hafi verið keyptar á verði sem er talsvert umfram markaðsverð, jafnvel langt umfram markaðsverð, er ósköp eðlilegt, eftir þær umr. sem hér hafa farið fram, að þessir hæstv. ráðh. neyti aðildar sinnar að málinu til að fá það upplýst hjá þeim aðilum í Arnarflugi, sem standa að kaupunum, fyrir hvað menn voru þá að greiða umfram markaðsverð. Um það snýst málið og er mjög auðvelt að fá það upplýst ef menn hafa áhuga á.