15.03.1982
Efri deild: 55. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

190. mál, almannatryggingar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, var tekið fyrir í þessari hv. deild fyrr í vetur. Eins og þingsköp gera ráð fyrir fór það til Nd. og þar voru gerðar á því breytingar. Hér er um að ræða frv. vegna ellilífeyris sjómanna á þilfarsbátum undir 12 brúttólestum.

Það kann einhver að hafa höggvið eftir því, að það voru gerðar breytingar á frv. í Nd. Það voru þó engar efnislegar breytingar. Aðeins var bætt við 2. gr. þessari málsgrein: „Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 67/1971, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.“

Þessari breytingu er hér með komið á framfæri. Efnisbreytingar eru engar.