15.03.1982
Efri deild: 55. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Guðmundur Karlsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki heldur að gerast langorður um þetta mái. Við Egill Jónsson skilum minnihlutaáliti á þskj. 443 og segjum þar:

„Í hvert sinn, sem núv. hæstv. sjútvrh. hefur mælt fyrir lögum um tímabundið olíugjald til fiskiskipa, hefur hann jafnframt lýst yfir vilja sínum til að breyta því og afnema í þeirri mynd sem það nú er. Við höfum jafnoft lýst yfir vilja okkar til samvinnu um skynsamlega breytingu, en ekkert hefur gerst annað en hringlað hefur verið með olíugjaldið um nokkur prósentustig upp eða niður.

Sú ákvörðun, sem nú er verið að taka um 7% olíugjald, er ekki annað en staðfesting á gefnum loforðum, á þegar gerðum samningum, og er í raun hluti af síðustu fiskverðsákvörðun.

Við höfum ekki orðið til að tefja gang þessa máls í gegnum þingið og munum ekki greiða atkv. gegn því, en sitja hjá við atkvgr.“

Við afgreiðslu þessa máls og þegar fiskverðsákvörðun stóð yfir voru gefnar stórar yfirlýsingar um afnám þessa olíugjalds sem ekki reyndist unnt að standa við. Í sjálfu sér hef ég aldrei verið á móti olíugjaldi og tel eðlilegt að það verði áfram. Þetta er ekki annað en hluti af þeirri verðlagningu sem átti sér stað. En vert er að hafa það í huga, að milli áranna 1980 og 1981 hækkar t.d. svartolía, sem mest er notuð af togaraflotanum, um 73%, og í byrjun þessa árs varð um 18% hækkun á þessari olíu. Þegar tillit er tekið til þess, að um 18 þús. tonna samdráttur er í afla á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs og olía hefur hækkað, að mér skilst, um 20%, miðað við fiskverð, frá því sem var í fyrra, þá sýnist e.t.v. ekki ástæða til að lækka þetta gjald endilega núna, enda finnst mér að þessi hálfa prósenta, sem hreyfð er þarna til, sé allt að því brosleg. Ef litið er á hlutfall olíu í aflaverðmæti flotans á árinu 1980, þá eru bátar með 13.4%, minni togarar með 20.4% og stærri togarar 19.6%. Þetta breytist á árinu 1981. Þá hækkar hlutfallið í 15.6% hjá bátum; 22.3% hjá minni togurum og 25.2% hjá hinum stærri.

Eins og getið er um í nál. okkar hefur ráðh. margoft lýst yfir að hann hafi í hyggju að breyta þessu, hafi vilja til þess. Það höfum við líka. Miðað við þær aðstæður, sem eru að verða hjá fiskiskipaflotanum, minni möguleika sem hann hefur sér til bjargar, virðist vera ástæða til þess. Benda má t.d. á að frændur okkar Færeyingar hafa þann hátt á í mörgum tilvikum að taka ýmsa kostnaðarliði útgerðarinnar af óskiptu, svo sem olíu, veiðarfæri, beitu og fæði. Hinu sama er, að því er mér skilst, oft beitt hjá Norðmönnum, þó að ég sé ekki endilega að leggja það til. Ég vil enn undirstrika að við í stjórnarandstöðunni erum tilbúnir að vinna með stjórninni að því að á þessu geti orðið raunhæf og skynsamleg breyting.