15.03.1982
Efri deild: 55. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3051 í B-deild Alþingistíðinda. (2574)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Enn heldur áfram umr. um Sinfóníuhljómsveit Íslands, en vonandi fer nú að styttast í þeirri umr.

Annar flm. brtt á þskj. 373, sem menn hafa mikið fjallað um hér, vék í ræðu sinni nokkrum orðum að því sem ég hafði drepið á í minni ræðu. Hann hafði, sem að sjálfsögðu er ekki óeðlilegt miðað við brtt., ýmislegt við minn málflutning að athuga.

Það er þá fyrst til að taka þar sem minnst er í brtt. hv. þm. Þorv. Garðars og Salome Þorkelsdóttur á að fella niður prósentugreiðslu Seltjarnarness. Hv. þm. bar saman Seltjarnarnesið sem sveitarfélag og Ísafjörð í þessu sambandi. Ég vil endurtaka afstöðu mína í þessu efni. Mér finnst þetta allsendis ósambærilegt. Ég vil endurtaka þá skoðun mína, að til hugsanlegrar þátttöku sveitarfélaganna hér á stór-Reykjavíkursvæðinu var auðvitað reynt að stofna í ljósi góðrar aðstöðu íbúanna á þessu svæði til að njóta hljómlistarflutnings Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Að þessu leyti finnst mér ekki rétt að vera að bera saman sveitarfélög sem eru í svo mikilli nálægð við Reykjavík og sveitarfélög víðs fjarri.

Hv. þm. kom allnokkuð inn á þann samanburð sem ég gerði á hljómsveitarráði, eins og hv. þm. leggja til í brtt. sinni, og hins vegar stjórn hljómsveitarinnar og verkefnavalsnefnd, eins og er í frv. Ég er enn sem fyrr þeirrar skoðunar, að heppilegra sé að aðskilja faglega þáttinn, þ.e. tónlistarkunnáttuna, með tilliti til ákvarðana við val á verkefnum og hinn fjármunalega þátt. Ég held að þetta geti orðið og verði að ýmsu leyti einfaldara. Það er a.m.k. svo að mínum dómi. Ég held nefnilega að það geti orðið dálítið vandasamt að velja í stjórn hljómsveitar þegar um er að ræða einstaklinga sem þyrftu að hafa þekkingu á fjármunalegum rekstri beint og líka faglega þekkingu. Ég vil minna á að gert er ráð fyrir að stjórn hljómsveitarinnar sé æðsti yfirboðari að þessu leyti. Verkefnavalsnefndin er fyrst og fremst til stuðnings við stjórn hljómsveitarinnar. Ég er því í grundvallaratriðum á móti þeirri breytingu sem hv. flm. leggja til.

Komið hefur fram brtt. á þskj. 412 frá hv. þm. Geir Gunnarssyni, sem er raunar brtt. við brtt. hv. þm. Þorvalds Garðars og hv. þm. Salome Þorkelsdóttur, þar sem stendur í brtt. við 4. gr.: „Menntmrn. skipar formann án tilnefningar “ — þá er átt við hljómsveitarráðið — „og skal hann vera menntaður tónlistarmaður.“ Þarna kemur raunar strax fram að það er komin eins konar ásteyting um það. hvort skuli vera ofar sett hin fjármunalega eða faglega þekking. Ég endurtek þess vegna einu sinni enn að ég tel skynsamlegra að aðskilja þetta. Hin fjármunalega ábyrgð og ábyrgð á rekstri er hjá stjórn hljómsveitarinnar fyrst og fremst.

Ég sé ekki ástæðu til að víkja fleiri orðum að því sem hv. þm. Þorv. Garðar kom inn á. Margt af því var auðvitað endurtekning á því sem komið hafði fram í framsögu. Ég lít því svo til að okkur sé ljóst, hver vilji hv. þm. er í þessu efni, og ástæðulaust í sjálfu sér að ræða það frekar. En til þess að enginn vafi leiki á því, hafi það komið óskýrt fram í mínu máli þegar ég talaði fyrr í umr. um þetta frv., hvaða brtt. ég væri fús að samþykkja á þskj. 373, þá vil ég taka þetta fram:

Ég get fallist á fyrstu brtt. sem þar er, þ.e. að 2. gr. frv. verði umorðuð. Ég tel óþarfa að fara efnislega ofan í 2. gr. Hún er öllum hv. þdm. kunn.

Ég gæti jafnframt fellt mig við breytingu á málsgreininni: „Efna má til samvinnu Sinfóníuhljómsveitar Íslands við Þjóðleikhúsið og aðra aðila á viðskiptagrundvelli um uppfærslur.“ — Þannig stendur þetta í frv. sjálfu. Á þskj. 373 er nákvæmari upptalning á þessu. Ég get í sjálfu sér fellt mig við þá upptalningu. Þar er talað um Íslensku óperuna og Íslenska dansflokkinn og síðan kemur á eftir: „og annarra aðila.“ Í frv. eins og það var lagt fram var enginn aðili tilgreindur nema Þjóðleikhúsið. Þar stendur líka „aðra aðila“, þannig að engri loku er fyrir það skotið að samvinna verði á viðskiptagrundvelli við fleiri aðila en Þjóðleikhúsið. En vegna þess að þessar merkilegu stofnanir eru til, Íslenska óperan og Íslenski dansflokkurinn, og vafalaust má ætla að þar sé þegar um einhverja samvinnu að ræða, þá sé ég ekki ástæðu til að amast við því, að þetta verði fellt inn í.

Ég held að ég hafi áður tekið það skýrt fram, að ég teldi að mörgu leyti út í hött að binda prósentutölu um eigin tekjur sem hlutfall af útgjöldum, ekki síst í ljósi þess, að eigin tekjur á liðnu ári voru um það bil 16% af heildartekjum. Ég sé enga ástæðu til að hafa þessa prósentu í frv. og get vel fellt mig við þá breytingu sem gerð er á þskj.373, þar sem stendur: „Sinfóníuhljómsveitin skal kappkosta að afla sjálfstæðra tekna af tónleikahaldi, svo að sem mest af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greitt af slíkum tekjum hennar.“ Þessa brtt. get ég fellt mig við og greiði henni atkv.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að breyta frv. Ég hafði áður reynt að gera grein fyrir viðhorfum mínum í þessu máli og sé ekki ástæðu til að fara að eyða löngu máli eða tíma í það. Ég hef þessi orð ekki fleiri.