02.11.1981
Efri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

7. mál, útvarpslög

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna nokkurra atriða, sem fram komu í ræðum hv. þm., sem hér hafa talað í þessu máli.

Ég verð að segja það strax, að mér þykir sem íhaldssemin eigi hér nokkuð djúpar rætur, í hvaða flokki sem menn eru. Menn virðast ekki neitt tiltakanlega nýjungagjarnir í þessum efnum, hvað þá að menn vilji brjóta upp á því að auka þá þjónustu sem þessi stofnun veitir. Og verð ég að segja það strax alveg eins og er, að ég get ekki séð að styttri sjónvarpsdagskrá þurfi af sjálfu sér að þýða betri sjónvarpsdagskrá né heldur er sjálfgefið að lengri sjónvarpsdagskrá þýði lakari sjónvarpsdagskrá — engan veginn. Þarna eru engin bein tengsl á milli. Sömuleiðis tala menn um það, að ef fjármagn, sem þessi lenging kostaði, væri til umráða til þess að veita til annars, þá yrði allt mjög miklu betra.

Staðreynd málsins er sú, að gæði sjónvarpsefnis eru ekki í neinu hlutfalli við verð. Ég skal bara nefna tvö afar nýleg dæmi. Myndin um Snorra Sturluson kostaði held ég, 2.8 millj. kr. samkv. þeim tölum sem Ríkisútvarpið hefur birt. Menn greinir á um hversu gott það efni var. Mér fannst það ekki tiltakanlega gott. Í gærkvöld var í sjónvarpi sýndur þáttur af Austurlandi sem mér fannst vera góður þáttur og gott sjónvarpsefni, þar sem Ómar Ragnarsson stiklaði á stóru. Sá þáttur hefur verið hundódýr í framleiðslu. Það fannst mér vera gott efni. Þetta tvennt, kostnaður og gæði, fer því alls ekki saman. Sumir „Poppþættir“ svokallaðir, sem sjónvarpið hefur framleitt, hafa verið feiknalega dýrir í gerð. Þar hafa gæðin að mínu mati ekki verið að sama skapi, en kannske að mati einhverra annarra. En um smekk þýðir kannske lítið að ræða, svo sem þar stendur.

Ég sé ekki heldur hvað þm. geta í raun haft á móti því, að í Útvarpslögum sé almenn yfirlýsing sem kveði á um skyldur stofnunarinnar til þess að flytja landsmönnum dagskrá alla daga. Ég sé alls ekkert á móti því, að slíkt sé ákveðið í löggjöf. Mér finnst raunar vera afar eðlilegt að í útvarpslögum séu tekin af tvímæli um með hverjum hætti þjónusta þessarar stofnunar við landsfólkið skuli vera.

Auðvitað leiðir það af sjálfu sér, að ef sjónvarpað verður á fimmtudögum og í júlímánuði er samfara því nokkur kostnaðarauki. Núverandi afnotagjöld sjónvarps eru miðuð við sjónvarp 6 daga vikunnar 11 mánuði ársins. Auðvitað leiðir það af sjálfu sér, að afnotagjöld mundu hækka sem þessu nemur. Og hver óskapa upphæð skyldi það nú vera sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson nefndi hér áðan? Það mundi vera um 22 kr. á hvert mannsbarn í landinu, gróft reiknað, ef þetta yrði gert, dagskrá sjónvarps yrði send út á fimmtudögum og allan júlímánuð, þ. e. a. s. alla daga ársins. Það mundi vera nálægt því að vera 22 kr. á hvert mannsbarn í landinu. Margt er gagnrýnt í sambandi við sjónvarp, en aldrei minnist ég þess að hafa heyrt kvartað undan því að afnotagjöldin væru of há, enda er það mála sannast, að stofnunin hefur ekki fengið að hækka sín afnotagjöld svo sem eðlilegt er.

Háttvirtur þm. Davíð Aðalsteinsson talaði um það áðan, að kannske væri ástæðulaust að ausa fé í svona stofnanir. Þannig held ég að hafi verið tekið til orða. Ríkisútvarpið fær ekki eina einustu krónu úr ríkissjóði. Það borgar þvert á móti stórfé til ríkissjóðs þar sem Ríkisútvarpinu — einum allra fjölmiðla í landinu — er gert að greiða söluskatt af auglýsingum. Ef söluskatturinn af auglýsingum væri afnuminn þyrftum við ekki að vera að tala um fjárhagsvandræði Ríkisútvarpsins hér og nú. En hæstv. ríkisstj. virðist ekkert á þeim buxunum að afnema þennan skatt sem Ríkisútvarpinu einu allra fjölmiðla er gert að greiða. Þvert á móti segir hæstv. fjmrh. þegar hann kemur fram í sjónvarpi: Þeir geta hækkað auglýsingarnar. Það er von að hann segi þetta, vegna þess að hver hækkun auglýsinganna þýðir auknar tekju fyrir ríkissjóð. Þetta er kannske mesta ranglætið sem Ríkisútvarpið á við að stríða núna.

Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson talaði um að sjónvarpið væri vannýtt sem kennslutæki. Það er sjálfsagt eitthvað til í því. En hitt verða menn að hafa í huga, að með tilkomu myndsegulbandanna gegnir sjónvarpið ekki neinu sérstöku hlutverki t. d. í sambandi við kennslu í skólum landsins. Ef ætti að nota sjónvarpið til þess í skólum landsins þýðir það samhæfingu á öllum stundaskrám, og það er ekkert auðvelt mál. Nú munu ýmsir skólar þegar hafa myndsegulbönd og sjálfsagt verður þess mjög skammt að bíða að allir skólar hafi slík tæki og það mörg. Og það eru þau tæki sem munu verða mjög mikilsverð kennslutæki. Sjónvarpið er hins vegar ekki kennari og getur aldrei orðið kennari. Það er hjálpartæki kennara. Það er hins vegar rétt, að í sambandi við endurmenntun og fullorðinsfræðslu ætti að nýta sjónvarpið meira. Nægir að minna á að nú eru í gerð og verða væntanlega sýndir áður en langt um líður þættir um dönskukennslu sem gerðir hafa verið á vegum Dana aðallega. Þar mætti nýta möguleika sjónvarpsins langtum betur.

Eitt atriði, sem hv. þm. Stefán Jónsson vék að áðan í sínu máli, var kannske smáatriði, en mér finnst þó ástæða til að gera það að umtalsefni. Þar var vikið að því, að textarnir, hinir íslensku textar við myndir á erlendu máli í sjónvarpi væru fyrir neðan allar hellur. Þarna er ég hv. þm. alls ekki sammála. Ég fullyrði að það er nær undantekning að sjá ritvillur í þessum textum. Þýðingarvillur slæðast inn stöku sinnum og er það ekki furðulegt, þegar þess er gætt, hversu mikið magn hér er um að ræða. Ég skal aðeins geta þess, hafi menn farið í kvikmyndahús þar sem sýndar eru erlendar kvikmyndir með íslenskum texta, þá sjá menn þar ekki aðeins þýðingarvillur, oft herfilegar og langtum verri og meinlegri heldur en ég hef nokkurn tíma séð í sjónvarpi, nánast bull, heldur liggur stundum við að stafvillur séu í þriðja hverjum texta. Þar ber sjónvarpið af eins og gull af eiri. Ég fullyrði alveg hiklaust, hafandi haft af þeim málum nokkur kynni, að miðað við þá tækni, sem nú er beitt í sjónvarpinu við þetta, sem er vissulega gömul og úrelt, þá er ástand þessara mála tiltölulega gott. Hins vegar er fyrir löngu komin ný tækni við þessa textagerð sem sjónvarpið ætti að hafa tekið upp fyrir löngu og gerir öll þessi mál miklu auðveldari og einfaldari. En það hefur einhverra hluta vegna ekki fundið náð fyrir augum þeirra sem ráða fjárfestingu á tæknisviði sjónvarpsins. Þau tæki, sem við þetta eru notuð núna, eru mörg óralangt á eftir tímanum og löngu úrelt.

Varðandi það, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sagði áðan, að það væri býsna flókið mál að lengja útsendingu sjónvarps, þá er það ekkert flókið mál. Auðvitað er fólk að vinna í sjónvarpi fimmtudaga sem aðra daga. Það er ekkert frí þar. Og ég ítreka það, að ég hygg að ein af meginröksemdunum fyrir sjónvarpslausa fimmtudeginum í upphafi hafi verið að mönnum varð að gefast ráðrúm, eins og hv. þm. Haraldur Ólafsson minntist á áðan, til að sinna tækjunum. Ég starfaði þarna í upphafi sjónvarpsins og er mæta vel kunnugt hvernig ásigkomulag þeirra tækja var sem þá var verið að nota. Það var yfirleitt eingöngu snilli tæknimannanna, sem þar unnu, að þakka að það voru útsendingar, þegar var verið að gera við tækin, oft alveg fram á síðustu mínútu áður en útsending átti að hefjast. Það var eingöngu fyrir þeirra dugnað og snilli, og ég held að þetta hafi átt verulegan þátt í þessari ákvörðun. En ég skal ekki fara út í langar deilur um það.

Mér þykir miður, eins og ég sagði í upphafi, að íhaldssemin skuli vera svona geysilega rík hér í mönnum. Ég held að þessi krafa, þessi ósk um að sjónvarpað verði allan ársins hring, þannig — eins og hv. þm. Haraldur Ólafsson sagði alveg réttilega — að sjónvarpið verði tekið alvarlega sem fjölmiðill og fréttamiðill, en loki ekki og fari í frí í 4–6 vikur á hverju ári, það er auðvitað fyrir neðan allar hellur, og eins að sjónvarp verði á fimmtudögum, — ég held að þessi krafa eigi mjög ríkan hljómgrunn meðal almennings. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að í útvarpslögum komi skýrt og skorinort fram vilji Alþingis, sé það vilji Alþingis á annað borð, að sjónvarpað skuli alla daga ársins.