15.03.1982
Neðri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3055 í B-deild Alþingistíðinda. (2586)

170. mál, flutningssamningar

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 441 er nál. frá samgn. Þetta frv. er komið frá Ed. sem gerði smávægilega breytingu á því eða viðauka við 24. gr. Þetta frv. var sent til umsagnar til Landssambands iðnaðarmanna og Félags ísl. iðnrekenda og voru umsagnir báðar jákvæðar.

Frv. er samið af nefnd sem hæstv. samgrh. skipaði. Ólafur S. Valdimarsson skrifstofustjóri var formaður þessarar nefndar og með honum voru Jónas Þór Steinarsson framkvæmdastjóri Félags ísl. stórkaupmanna og Stefán Pálsson hrl., framkvæmdastjóri Landvara. Frv. var flutt hér um bil óbreytt frá því sem nefndin gekk frá því.

Tildrögin að starfi nefndarinnar og skipun hennar voru þau, að hér á landi finnast engin lög eða reglugerðir um flutningssamninga og ábyrgð viðkomandi aðila við vöruflutninga á landi og tæpast hefur nokkur sú venja skapast í þessum málum að til lagaígildis teljist.

Í nefndinni voru fyrst og fremst fulltrúar þeirra aðila, sem eiga þarna hlut að máli, og leggur samgn. til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Ed.