15.03.1982
Neðri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3056 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og hefur verið afgreitt þaðan óbreytt. Frv. er um staðfestingu á brbl. sem gefin voru út 14. jan. sl. Þá var ákveðið af Seðlabanka Íslands með samþykki ríkisstj. að breyta gengi íslenskrar krónu og fól það í sér lækkun á gengi krónunnar um 12%.

Þegar gengi hefur verið lækkað á annan veg en með gengissigi hefur jafnframt oftast verið ákveðið að gengishagnaður af birgðum skyldi tekinn í sérstakan sjóð, oftast gengismunarsjóð, og því fé ráðstafað þá til fiskvinnslu og sjávarútvegs nokkuð á mismunandi veg, en í meginatriðum til þeirra þarfa. Nú var ákveðið að fara ekki þá leið að taka gengishagnaðinn allan og láta hann renna í sérstakan gengismunarsjóð, heldur skyldi tekinn helmingur gengishagnaðar og hann látinn renna til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Þó var um leið ákveðið af ríkisstj. samkv. heimild í lögunum að undanþiggja frystinguna og greinar hennar þessu ákvæði þannig að fyrirtækin sjálf, sem að frystingu starfa, skyldu njóta gengismunar af birgðum að fullu.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengri framsögu um þetta mál og legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.