02.11.1981
Efri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

7. mál, útvarpslög

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir efni þessa frv. Ég held að okkur sé að vissu leyti nauðsyn að sjónvarpið útvarpi alla daga ársins.

Ég er einn af þeim mönnum sem hafa orðið svo ógæfusamir eða gæfusamir að lenda í svokallaðri myndbandvæðingu. Þegar sjónvarpi lýkur seinnipart vikunnar og á fimmtudögum t. d. þarf ég ekki annað en að skipta um rás og horfa á myndband.

Það kom fram hjá flm. og reyndar fleirum, að það efni, sem væri á myndböndunum, væri ótínt rusl og afsiðandi efni. Að fenginni reynslu, sem er ekki löng, vil ég ekki endilega taka undir þetta. Það er úti í Vestmannaeyjum sem ég hef lent í þessu. Þarna hafa eigendur 32 húsa, að mig minnir, tekið sig saman og myndvætt þetta hverfi. Mér sýnist að efnið, sem þarna er flutt, sé engu síðra en það sem er í íslenska sjónvarpinu. Það eru ágætar kvikmyndir sem við eigum kost á að horfa á, t. d. á fimmtudögum. Það eru íþróttaþættir. Á föstudagskvöldum, þegar sjónvarpi lýkur, getum við í flestum tilvikum valið um hvort við viljum eða viljum ekki horfa á ágæta kvikmynd. Oft eru það mjög frægar og góðar kvikmyndir sem sýndar eru. Alveg sama er á laugardagskvöldum. Ef við kærum okkur um að horfa lengur getum við það. Ég sé ekkert á móti þessu. Í þessu kerfi er flutt barnaefni á laugardögum um miðjan dag eða seinni part dagsins og eins um miðjan dag á sunnudögum. Ungur sonur minn hefur haft mikinn áhuga á að horfa á þetta. Ég sé ekki að þær teiknimyndir, sem þarna eru sýndar, séu neitt meira afsiðandi en þær myndir sem fluttar eru í íslenska sjónvarpinu vikulega. Sumar eru alls ekki óhollar og hafa ágæt áhrif. Ég hef lagt mig eftir því að fylgjast með þessu, og ég hef ekki séð ástæðu til að banna að hann horfi á það.

Annað er það, að ég held að ef íslenska sjónvarpið fer ekki þessa braut muni það þýða að áhugamannahópar taki sig saman og gefi vissum hóp þjóðarinnar kost á að ná til dagskráa sem sendar eru austan um haf, annaðhvort frá Skandinavíu eða jafnvel frá Bretlandi. Ég held t. d. að við á Suðurlandi eigum ekki ákaflega erfitt með að ná bæði t. d. BBC og eins jafnvel efni frá Noregi. Mér er sagt að t. d. í Vestmannaeyjum séu aðstæður þannig að menn, sem búa austarlega á eynni, þurfi jafnvel ekki annað en snúa nokkuð til sjónvarpsloftnetum sínum til þess að geta móttekið á vissum tímum efni frá Noregi. Mér skilst að það sé ekki ákaflega miklum vandkvæðum bundið og þurfi ekki að kosta mikið innan fárra ára að taka á móti efni frá Bretlandi. Þess vegna held ég að það væri betur komið að Íslendingar sjálfir legðu út í þetta. Ég held að þeir peningar, sem fólk eyðir í þetta og eru jafnvel greiddir nú í þjóðfélaginu fyrir aðgang að sjónvarpsefni, séu miklum mun meiri en eytt væri ef íslenska sjónvarpið tæki að sér þetta hlutverk. Og ég held að væri mjög vel ef svo skipaðist, að íslenska sjónvarpið og Íslendingar sjálfir réðu því, hvað gengi út yfir þjóðina af sjónvarpsefni og að menn gætu þá fjallað nokkuð um það, t. d. í útvarpsráði, heldur en að þarna gerðist hver sinn ráðamaður um það, á móti hverju hann tæki og það yrðu eingöngu áhugamannahópar sem ákvæðu að hvaða efni menn ættu aðgang. Það hlýtur að verða innan stutts tíma.