15.03.1982
Neðri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3057 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

207. mál, söluskattur

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 346 eigum við sjálfstæðismenn velflestir frv. til l. um breyt. á lögum um söluskatt. Hefði ég gjarnan kosið, hæstv. forseti, að fjmrh. sæi sér fært að vera við umr. þessa. Ég þykist eiga erindi við hann um þetta mál ekki síður en hæstv. samgrh. — Þetta er lítið frv., örstutt, sem inniheldur breytingar í þá átt, að söluskattur, sem innheimta skal af síðustu bensínverðshækkun, renni óskiptur til framkvæmda í vegamálum. Það er ekki stórt lagt undir, aðeins 9 aurar af hverjum lítra til framkvæmda til vegamála 1982. En margt smátt gerir eitt stórt og því er það að hér er um að tefla 9 millj. kr. ef þetta frv. nær lagagildi.

Það er ekki að ófyrirsynju að þetta frv. er fram borið. Eins og vísað er til í grg. alveg ljóst að ríkið hefur notað þessa aðferð til stóraukinnar innheimtu skatta í ríkishítina. Þær aðstæður hafa verið notaðar sem hafa þrengt mjög að öllum almenningi í landinu því bifreiðar eru almenningseign. Þegar verð á þessari vöru margfaldaðist var það notað til að margfalda innheimtu í ríkissjóð með þessum hætti. Enda þótt allir hv. þm. sem hafa á annað borð látið skoðun sína í ljós í sambandi við framkvæmdir í vegamálum, játi að þetta séu einna mikilsverðustu framkvæmdirnar hefur það samt sem áður ekki orðið til þess, að ráðamenn hafi treyst sér til að sjá af meiri fjármunum af tekjum umferðarinnar til vegamála en raun ber vitni.

Þetta hefur farið hríðversnandi á umliðnum árum. Ég nefni sem dæmi að árið 1972 var varið 50% af bensínverðinu til vegaframkvæmda, í Vegasjóð sem svo er kallaður, og af opinberum sköttum, sem á bensín voru lagðir, var varið 73% í Vegasjóðinn. En þetta hefur gengið þann veg til, að árið 1979, fyrsta fjárhagsárið eftir að vinstri stjórnin tók við völdum og Framsfl. eignaðist fjmrh. og Alþb. eignaðist samgrh., er það, sem rennur í Vegasjóð af verði hvers bensínlítra komið ofan í 19% og 36% af heildarskattlagningu hins opinbera á þessar miklu nauðsynjavörur. Fleiri tölur mætti þylja í þessu sambandi, en næsta óþarft því allir þekkja þessa sorgarsögu. Vegaframkvæmdirnar hafa verið sveltar í gegnum árin, enda þótt bæði æðstu ráðamenn, hæstv. ráðh., og ýmsir þm., sem um málið hafa talað, hafi lýst yfir þeirri skoðun sinni, að þetta væri einna mikilsverðustu framkvæmdirnar jafnhliða með og samhliða orkumálum.

Ef litið er á aftur veggjald sem hluta af heildarsköttum ríkisins nær það hæst árið 1966. Þá renna af heildarsköttum ríkisins af bensíni 78.1% til vegamála. En hvernig ætli þessu sé varið nú síðustu árin? Lægst kemst það auðvitað 1979, þegar vinstristjórnarstefnan varð ráðandi í fjármálum okkar. Þá eru það 35.6% af skattlagningu ríkisins sem hverfa til vegamálanna. — Og ef við nefnum tölur í þessu sambandi, þá kostar bensínlítrinn árið 1974 49 kr. gamlar. Þá eru skattar af því 30.70. Í Vegasjóð renna þá 16 kr. og 14.70 í ríkissjóð. Eftir þetta breytir svo rækilega um stefnu að árið 1979 eru skattarnir, sem lagðir eru á hvern bensínlítra, 199.39. Þá fara í veggjald aðeins 70.93, en í ríkishítina 128.46. Og enn árið 1980: Af 327 kr. heildarskattlagningu fara aðeins 123 í veggjald, en 203 í ríkissjóð.

Þannig hefur stefnan verið þrátt fyrir breiðar yfirlýsingar um nauðsyn á auknum vegaframkvæmdum. Og þá er spurningin: Hvernig er ástandið í dag? Hvernig er ástandið í þessum málum í dag og hvernig hafa hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. brugðist við?

Ég get skotið því hér inn í, að það skiptir mjög í tvö horn um skattlagningu á hinu bráðnauðsynlega bensíni og það sem við höfum fyrir augum í sambandi við gasolíuna. Það hefur verið betur róið á þeim miðum. Ef ég nefni sem dæmi, þá eru skattar árið 1979 af útsöluverði gasolíu 20 af 79 kr. sem lítrinn kostaði í gömlum. Þá voru 20 kr. í skatta sem prósenta af útsöluverði, en frá árinu 1980 hef ég síðustu tölur, aðeins 3 kr. Þar er auðvitað verið að hlífa húseigendum, íbúum þessa lands, vegna hins gífurlega kyndingarkostnaðar. Í sjálfu sér má auðvitað meta það sem nauðsynlegan þátt í þjóðarbúskapnum að menn geti staðið undir kyndingu híbýla sinna, en ekki langt á eftir þeirri nauðsyn kemur notkun bifreiðarinnar í nútímaþjóðfélagi. En þar skiptir alveg í annað horn. Ég verð að segja það um samtök bifreiðaeigenda, að það liggur ekki margt eftir þau samtök, en hins vegar þóknast þeim að hækka árgjöld til sín, að því mér virðist, um 530% frá árinu 1978. Þyrftu þeir menn, ef þeir ætla að halda félagsskap sínum vakandi og lifandi, að leggjast betur á árar.

En ég á alveg sérstakt erindi við hæstv. ráðh. fjármála og samgöngumála vegna þeirra ástæðna sem ríkja í sambandi við fjármögnum framkvæmda og vegáætlunar fyrir árið 1982. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, má ætla að til þess að staðið verði við vegáætlun fyrir þetta ár, sem samþ. var á hinu háa Alþingi í fyrra og hefur lagaígildi sem ályktun frá Sþ., þarfnist til að framkvæma hana eins og hún liggur fyrir 616.7 millj. kr., miðað við það verðlag sem nú er. Sjálfsagt þarf enn hærri tölu þegar líður á árið, eftir því sem útlit er um verðlagsþróun. — Mér er ekkert gagn í því að hafa ráðh. ef þeir ætla að hafa sérfund með sér um allt önnur mál þarna úti í horni. — Á fjárlögum eru til ráðstöfunar 593.1 millj. kr., en niðurskurður ákveðinn 7.8 millj. kr. samkv. niðurskurðartilfærslum hæstv. ríkisstj. Þá er sem sagt til ráðstöfunar á fjárlögum 585.3 millj. kr., en síðasta endurskoðun markaðra tekna sýnir að ætla má að þær hefðu verið vanáætlaðar um 12 millj. kr. og því er hér um að tefla til ráðstöfunar 597.3 millj. kr. Þá liggur fyrir að mismunurinn á því, sem framkvæmdir kosta samkvæmt vegáætlun, og því, sem er til ráðstöfunar, er 20 millj. kr. Þar við bætist að halli á vetrarviðhaldi er 8 millj. kr. Þá höfum við 28 millj. kr. sem á skortir að staðið verði undir þessum framkvæmdum eins og lög gera ráð fyrir.

Þá skortir enn á allt fé sem skyldi vera til ráðstöfunar í hina svonefndu Ó-vegi: Ólafsvíkurenni, Óshlíðarveg og Ólafsfjarðarmúla. Ég býst jafnvel við að hæstv. samgrh. hafi lýst yfir þrívegis að hann mundi afla sérstaks fjár til framkvæmda í Ó-vegina, en ekkert bólar á því. 28 millj. vantar upp á fyrir utan margítrekaðar yfirlýsingar um sérstaka fjáröflun til Ó-veganna svonefndu. Eftir því sem mér skilst og nýjustu upplýsingar segja til um virðist fjármagnið til framkvæmdanna í Ó-vegunum nema á núverandi verðlagi um 186 millj. kr. Nú væri ekki of í lagt að ætla 4–5 ár til þess arna. Ef við höfum það í huga er hér 35 millj. kr. skammtur á ári um það bil, en ekkert heyrist um ráðstafanir til að standa við þessar margítrekuðu yfirlýsingar. Og þær voru ótvíræðar og enn fremur ótvíræðar í því efni að ekki skyldi gengið á Vegasjóðinn til þeirra framkvæmda, enda ekki í að ganga þar sem stórfé skortir í hann til þess að staðið verði við framkvæmdir.

Hið háa Alþingi á kröfu á að heyra frá hæstv. ráðh. fjármála og samgöngumála með hvaða hætti þeir ætli að framfylgja þessum ákvörðunum Alþingis í vegamálum og standa við yfirlýsingar sínar í sambandi við framkvæmdir við Ó-vegina. Hér er aðeins hendi veifað til að ná fjármagni upp í þetta, þar sem lagt er til að söluskatturinn innheimtur af síðustu bensínhækkun, einvörðungu á þessu ári, hverfi til vegamálanna sem mundi nema 9 millj. Eftir sem áður skortir 19 millj. til framkvæmdanna samkv. vegáætlun og allt Ó-vegaféð.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði máli þessu vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.