15.03.1982
Neðri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3059 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

207. mál, söluskattur

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um það mál, sem hér liggur fyrir, út af fyrir sig.

Ég get sagt að ég hef lengi talið að endurskoða ætti innheimtu söluskatts af bensíni. Sérstaklega var áberandi á meðan olíuvörur hækkuðu meira en annað vegna ástands í orkumálum í heiminum að innheimta ríkissjóðs af bensíni hækkaði meira en af ýmsum öðrum vöruflokkum sem fremur fylgdu algengu verðlagi. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að það mál þurfi að athuga á breiðari grundvelli og vafasamt að taka eina bensínhækkun út úr. Ég held að þurfi að endurskoða það mál í heild sinni.

Um vegamálin almennt vil ég hins vegar upplýsa að þær tölur, sem hv. þm. fór með, voru réttar. Það er rétt sem hann sagði, að við endurskoðun á tekjustofnum kemur í ljós að áætla má tekjur í Vegasjóð 12 millj. kr. hærri en áður var talið. Það er einnig rétt, að niðurskurður á vegamálum nemur 7.8 millj. kr. Að sjálfsögðu verða vegaframkvæmdir að þola slíkan niðurskurð eins og annað, en þó vil ég upplýsa að þessi niðurskurður er töluvert minni en á öðrum framkvæmdum. Hann er um 3.6% af framlagi ríkissjóðs, þ.e. beinu framlagi ríkissjóðs og því fjármagni sem ríkissjóður tekur að láni og leggur fram, sem er um 200 millj. kr„ en af öðrum framkvæmdum er niðurskurðurinn 6%. Um þetta varð samkomulag, m.a. til að tryggja að unnt yrði að standa við vegáætlun.

Hv. þm. hefur rætt við mig um þessi mál og hann hefur m.a. tjáð mér að í stjórn Framkvæmdastofnunar liggi fyrir tillaga um 20 millj. kr. framlag til vegamála, ekki lán, heldur framlag til vegamála, og hann hefur jafnframt tjáð mér að hann telji líklegt að stjórn Framkvæmdastofnunar sé reiðubúin að verja 10 millj. kr. af því framlagi í svokallaða Ó-vegi, þ.e. sérstaklega hættulega vegi. Ég fagna þessu og hef gert ráð fyrir að þetta verði samþykki eins og mér hefur verið tjáð. Ég hef tekið þetta upp í ríkisstj. og ríkisstj. hefur samþ. að þessu fé verði bætt við vegáætlun. Ég hef því jafnframt látið útbúa till. til þál. um byrjunarframkvæmdir á svonefndum Ó-vegum, þ.e. þessum lífshættulegu vegum, þar sem gert er ráð fyrir í samræmi við okkar samtal að 10 millj. af þessu fé verði varið í þessa Ó-vegi ef stjórn Framkvæmdastofnunar samþykkir svo. Þáltill. er tilbúin og hægt að leggja hana fram nú þegar, svo ég vona að þessi mál geti þannig gengið upp.

Með þessu móti verða framkvæmdir í vegamálum rúmlega 2.1% þjóðarframleiðslu, líklega nálægt 2.13 % af þjóðarframleiðslu. Að vísu er spá um þjóðarframleiðslu dálítið óljós. Spáin er um 1/2–1 % samdrátt í þjóðarframleiðslu og þar munar að sjálfsögðu töluverðu í þessu sambandi, en samkvæmt þeim mælikvarða, sem Alþingi setti, ber að reikna lágmarkið sem hundraðshluta af þjóðarframleiðslu.

Ég get getið þess, að unnið er nú ötullega að því að undirbúa til að leggja megi hér fram — og sýna nú í vor langtímaáætlun í vegamálum. Ég vona að hún verði tilbúin. Nefnd með mönnum tilnefndum af þingflokkum vinnur nú með Vegagerðinni að því máli.

Ég vona að með þessu hafi ég upplýst um stöðu þessara mála. Ekki er ástæða til að endurtaka það sem hv. þm. sagði að öðru leyti um fjármagn til vegamála. Ég geri mér sem sagt vonir um að það takist að standa við vegáætlun og ekki þurfi að endurskoða hana nú á þingi, eins og gert hefur verið á hverju ári síðan 1974 þar til nú. Ég geri ráð fyrir að í svo mikilvægum málaflokkum sem t.d. bundnu slitlagi muni enn aukast framkvæmdir. Framkvæmdir í bundnu slitlagi á s.l. ári urðu 142 km. Ég geri ráð fyrir að á þessu ári verði framkvæmdir með því fjármagni, sem er til ráðstöfunar, um 155–160 km og svipað megi segja um aðra þætti vegáætlunar, að við þá verði staðið.