15.03.1982
Neðri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3065 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

207. mál, söluskattur

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það mætti kannske segja að heppilegra væri að hæstv. fjmrh. kynni hlutfallareikning, en röksemdafærsla hans minnti mig mjög á tvo aldraða menn vestur í Ögurvík sem einn góðan veðurdag tóku að þræta um hvort væri lengra úr Ögurvíkinni norður á Hesteyri eða frá Bolungarvík og norður á Hesteyri, og þrættu um þetta ákaflega þangað til annar segir: Það er ekkert lengra frá Bolungarvík norður á Hesteyri en verið hefur. Og víst, sagði hinn, víst er það lengra. Það er ekki að ófyrirsynju að þessi þræta kom upp í hug mér við að heyra röksemdafærslu hæstv. ráðh. því að hann sagði að ríkið tæki ekki hlutfallslega meira til sín en verið hefði og enda þótt við blasi eftir útreikningum sem ég hef frá aðilum sem hann hefur greiðan aðgang að og treysta má.

Ég nefndi í fyrstu ræðu minni að t.a.m. 1972 runnu 50% af skattgjaldi hvers bensínlítra í Vegasjóð og þá gerði vegasjóðsgjaldið 73% af opinberu sköttunum sem á bensínverðið voru lagðir. Þá fóru 27% af opinberu sköttunum, sem í heild voru lagðir á bensínlítrann, í annað en í vegi. En árið 1980 — þá er ég með síðustu tölur — fer 21% af verði hvers bensínlítra í Vegasjóð og bensíngjaldið er 38% í stað 73% áður af heildarskattlagningu hins opinbera á bensínlítra. 62% af skattlagningunni 1980 fara beint í ríkissjóð. Svo ætla menn að halda því fram, að hér sé ekki um allt aðrar viðmiðunartölur að tefla. Og það eru engar smáfjárhæðir sem hér skipta máli.

Hæstv. fjmrh. minnti á hið mikla framfaraspor sem stigið hefði verið 1979 í hans samgönguráðherratíð með vegáætluninni þá. Ég vil nú minna á það, sem kom fram í máli hv. 7. landsk. þm., að öll þessi mál tóku stakkaskiptum við afgreiðsluna í fyrra, 1981. Ég þarf ekki að minna á þáltill. ríkisstj. þá. Það muna allir. Það var 20 ára vegáætlun. En þeir þorðu ekki annað en að samþykkja till. sjálfstæðismanna um 12 ára vegáætlun. En hvernig var hún úr garði gerð, vegáætlunin sem var lögð fyrir hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds árið 1979? Muna menn það? Vilja menn kannske ná í grg. með þeirri þáltill.? Það muna auðvitað allir hvernig hún var úr garði gerð. Þar var ekkert orð um hvernig fjárins skyldi aflað, nema örfáir þættir. Um alla aðra fjáröflun, sem nam t.a.m. fyrir árið 1980 7 milljörðum 847 millj. kr., var sagt að það yrði athugað síðar, og alla endilanga vegáætlunina þá voru óljósir þættir upp á 8 milljarðar árið 1981, svo ég rifji þetta upp. Alveg var þetta botnlaus áætlun, peningalaus og allslaus, enda fór sem fór: menn neyddust til að endurskoða hana með þessum hætti sem raun ber vitni um.

En við skulum slíta öllum þrætum um hlutfallareikning í þessu sambandi. Það sem hæstv. fjmrh. ber skylda til að segja okkur frá er með hvaða hætti hann ætlar að framfylgja samþykktum Alþingis í vegamálum. Við skulum sleppa öllum útúrsnúningum og orðhengilshætti. Aðeins þetta: Ég hef sýnt og sannað með upplýsingum, sem samgrh. hefur lýst yfir úr þessum ræðustól að væru réttar, að það skorti á 28 millj. að vísu, en gera má ráð fyrir að áform stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins nái fram að ganga þannig að fjárskorturinn verði 18 millj. kr. Þetta skortir á. Við erum með till. um 9 millj. hér, og enn hef ég getið þess, að áform eru uppi um að Byggðasjóður dragi málin að landi með 7 millj. kr. En ef ekki verður við þessu litið og menn vilja ekki þessa leið ber hæstv. ráðh. skylda til að benda á aðra. Hið háa Alþingi hefur markað stefnuna og gert síðan samþykktir, og umboðsmanni þess ber óhjákvæmilega að fara eftir því. Hann á þess vegna, hæstv. ráðh„ ekkert erindi hingað upp í ræðustólinn. Að vísu þakka ég fyrir að hann þakkar fyrir samstarf við mig og óskar þess áfram. Það geri ég í sama máta. En aðalerindinu gleymdi hann, að segja okkur frá því án tvímæla, hvernig fjár verður aflað til að framkvæma samþykkt Alþingis í vegamálum, til að framkvæma lagaígildið sem vegáætlun er og samþykkt var á hinu háa Alþingi í þinglok 1981.