15.03.1982
Neðri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3067 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

207. mál, söluskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er sjálfsagt ástæðulítið að lengja þessar umr. að ráði, en mér þykja viðmælendur mínir, hv. þm. Sjálfstfl. Halldór Blöndal og Sverrir Hermannsson, vondir sagnfræðingar. Ég trúi ekki öðru en þeir minnist þess, að það var einmitt í vegáætlun 1979 sem stóra sporið var stigið fram á við eftir að vegaframkvæmdir höfðu verið samkvæmt fyrri vegáætlunum í algeru lágmarki um margra ára skeið. Þá átti Sjálfstfl. aðild að ríkisstjórn, á árunum 1974–1978, og þó urðu vegaframkvæmdir á því tímabili með því allra minnsta sem verið hefur hér á landi. Þeirri öfugþróun, sem þá var í gangi, var snúið við með vegáætlun 1979.

Svo er það rétt munað hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að ég var spurður að því í sjónvarpsviðtali af tilteknum mönnum, Ellert B. Schram og Jóni Baldvin Hannibalssyni, hvort staðið yrði við vegáætlun sem samþykkt hafði verið árið áður. Ég svaraði því játandi, að það yrði staðið við hana — og það var gert. Allar þær tölur, sem stóðu í vegáætlun frá árinu 1979 og vörðuðu framkvæmdir á árinu 1980, stóðu óhreyfðar og þó voru verulegar verðbætur á þeim fjárhæðum í vegáætluninni sjálfri. Hitt er annað mál, að það er engin nýlunda að verðbólga rýri fjárveitingar sem ákveðnar eru af Alþingi. Það gerist nánast á hverju ári að Alþingi ákveður fjárveitingar til tiltekinna mála, en þessar fjárveitingar reynast ekki hafa alveg nákvæmlega jafnmikið framkvæmdagildi þegar til kastanna kemur og menn höfðu gert sér vonir um þegar fjárveitingin var ákveðin. Vissulega skal ég játa það hér, að að því leyti má segja að vegáætlunin frá 1979 hafi, þegar til kastanna kom 1980, ekki haft nákvæmlega sama framkvæmdagildi og menn höfðu gert ráð fyrir í upphafi. En það breytir ekki hinu, að árið 1980 sker sig alveg úr hvað það varðar að þá er varið miklu meira fjármagni til vegamála en hafði þá verið um 5–6 ára skeið. Þeirri sókn hefur síðan verið haldið áfram á árinu 1981, og ég vænti þess að ekki dragi neitt úr á þessu ári 1982. Ég tel hins vegar að það sé ekki efni til að fara að fjalla hér í einstökum atriðum um væntanlega vegáætlun fyrir árið 1982. Hún hefur nú þegar verið samþykkt og það á eftir að ganga endanlega frá vissum þáttum fjármögnunar hvað hana varðar. En ég óttast það hins vegar ekki, að við getum ekki leyst þann vanda, sem þar er við að glíma, á viðunandi hátt þannig að ekki verði um að ræða neinn samdrátt á þessu sviði.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði sögu af Vestfjörðum og hún var út af fyrir sig ágæt. En ég verð að segja alveg eins og er, eftir að hafa hlýtt á málflutning hans og ekki síður eftir að hafa hlýtt á málflutning samflokksmanns hans, hv. þm. Halldórs Blöndals, að mér virðist að málflutningur þeirra sé ekkert vitlausari í dag en hann hefur verið.