14.10.1981
Efri deild: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það var lítill tími til þess að athuga þetta frv. á síðasta þingi á síðustu dögum þingsins. En ég verð nú að gera þá játningu hér, að það hefur verið litill tími hjá mér til að athuga þetta frv. sem komi fram í gær, þannig að ég ætla ekki núna að fara að ræða frv. efnislega. Ég vildi þó að gefnu tilefni standa hér upp, og af því að ég stend hér í ræðustól vil ég ekki láta hjá líða að lýsa þeirri skoðun minni, hversu þýðingarmikil sú starfsemi er og merkileg sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur haldið uppi.

Hæstv. ráðh. sagði að Sinfóníuhljómsveitin hefði starfað með miklum þrótti, eins og hann orðaði það, í 30 ár. Ég tek undir þessi orð. Þó eru engin sérstök lög um Sinfóníuhljómsveitina, en hún er búin að starfa af miklum þrótti. Þetta vekur spurninguna um það, hvort það sé endilega nauðsynlegt að setja lög. Ef venja eða hefð hefur reynst mjög vel þarf það ekki að vera gefið að nauðsynlegt sé að setja lög. Þessi orð má samt ekki skilja þannig að ég sé á móti því að setja lög, ég er alls ekki að mæta gegn því. Forsvarsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar telja nauðsynlegt að gera slíkt, og ég vil ekki mótmæla því.

En ég kvaddi mér hér hljóðs til þess að gera athugasemd við það sem hv. síðasti ræðumaður sagði varðandi framlag Ríkisútvarpsins til Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég er ekki sannfærður um að það sé rétt að létta af Ríkisútvarpinu þeim byrðum sem það hefur borið með stuðningi sínum og fjárframlögum til Sinfóníuhljómsveitarinnar á undanförnum áratugum. Ég held að það sé rétt að það komi hér fram, að það er ekki síst að þakka Ríkisútvarpinu að þessari starfsemi hefur verið haldið uppi með miklum þrótti á undanförnum áratugum. Getur verið að það hafi verið óhagstætt fyrir Ríkisútvarpið? Ég veit það og vil rifja það hér upp, að á þeim stundum, þegar framtíð Sinfóníuhljómsveitarinnar hefur kannske verið vafasömust, hefur Ríkisútvarpið gengið fram fyrir skjöldu — ekki til þess að minnka framlag sitt til Sinfóníuhljómsveitarinnar, heldur hefur Ríkisútvarpið lagt áherslu á að þessari starfsemi yrði haldið uppi þó að Ríkisútvarpið yrði að leggja fram fjármuni. Hvers vegna er það?

Áður en Sinfóníuhljómsveitin var stofnuð taldi Ríkisútvarpið sér nauðsynlegt og skylt að halda uppi sérstakri hljómsveit, svokallaðri útvarpshljómsveit. Menn töldu að menningarstofnun eins og Ríkisútvarpið yrði að eiga völ á flutningi slíkrar tónlistar sem hljómsveit gerði mögulega. Og það er á grundvelli þessa sjónarmiðs sem Ríkisútvarpið frá fyrstu tíð hefur lagt sitt af mörkum til þess að reka Sinfóníuhljómsveit Íslands. Og ég þykist muna það, að þegar slíkt sjónarmið kom upp áður, að Ríkisútvarpið ætti ekki að taka á sig slíkar byrðar vegna Sinfóníuhljómsveitarinnar, þá var það mál athugað alveg sérstaklega, hvort fjárhagslega væri hagkvæmara fyrir Ríkisútvarpið að greiða ekkert til Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem þýddi að Sinfóníuhljómsveitin yrði lögð niður, en Ríkisútvarpið yrði þá að koma sér upp hljómsveit, ekki heilli sinfóníuhljómsveit, en þó hljómsveit af þeirri stærð að talið var að það yrði ekki ódýrara fyrir Ríkisútvarpið.

Ég hygg því að málið liggi ekki þannig fyrir að Ríkisútvarpið eigi að draga úr framlagi sínu til Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég geri ráð fyrir að það sé enn forsenda fyrir því, að Sinfóníuhljómsveitinni sé haldið uppi, að Ríkisútvarpið sé sterkur aðili að rekstri hennar, og að það sé betri fjárhagslegur kostur fyrir Ríkisútvarpið heldur en ef hljómsveitin yrði lögð niður og Ríkisútvarpið þyrfti að koma sér upp eigin hljómsveit.

Það er alveg rétt sem síðasti ræðumaður sagði, að nú eru miklir fjárhagserfiðleikar hjá Ríkisútvarpinu. En við eigum ekki að móta framtíðarstefnu í slíku höfuðmenningarmáli sem Sinfóníuhljómsveit Íslands er með hliðsjón af tímabundnum fjárhagserfiðleikum Ríkisútvarpsins. Við eigum að snúast gegn þeim vanda með öðrum hætti.

Ég vildi, herra forseti, að þetta kæmi fram nú við 1. umr. málsins.