02.11.1981
Efri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

7. mál, útvarpslög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er e. t. v. ekki veigamikið sem ég þarf að svara, en mér þykir þó hlýða að gera örfáar athugasemdir.

Hv. 5. þm. Vesturl. var að býsnast mikið út af íhaldssemi hér í deildinni. Hann mun þá hafa átt við mig, hv. 3. þm. Vesturl., hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Reykv. Þetta er breið og fríð fylking. Víst getum við í þessu máli státað af íhaldssemi, en það geta fleiri en þeir sem tilheyra aðstoðaríhaldinu. (Gripið fram í.) Ég hygg að þetta þurfi ekki miklar skýringar. Ég segi það ekki Alþfl. til lasts þegar ég nefni hann aðstoðaríhald. Það verða menn að skilja.

Hér hefur borist aftur í tal hver væri ástæðan fyrir því, að ekki hefur verið sjónvarpað á fimmtudögum og ekki í júlímánuði. Það er ekki höfuðatriði að ræða sérstaklega um það, þó að ég kæmi inn á það að gefnu tilefni.

Menn vilja sumir halda sig við það, að ekki hafi verið hægt, að því er virðist, að fá tækjabúnað og þjálfa menn, eins og það væri einhver skortur á slíkum gæðum á markaðinum. Það er ekki svo. Það var hægt að fá nóg af tækjum og þjálfa menn eftir vild, aðeins ef peningar hefðu verið til þess. Læt ég svo útrætt um það.

Hv. 5. þm. Vesturl. sagði að þessi lenging á dagskránni kostaði ekki nema um 22 kr. á hvert mannsbarn. Ég hef ekki reiknað þetta út og rengi ekki þennan útreikning hv. þm. En þetta segir ekkert um það sem við erum hér að ræða um — ég vil ekki segja deila. Við erum að ræða um lausn á vandamáli. Ef sömu upphæð væri varið til að bæta dagskrána væru þetta ekki nema 22 kr. á hvert mannsbarn. Við erum að ræða um með hverjum hætti þessu fjármagni verði best varið. Ég er sammála mörgu sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði um aðbúnaðinn að Ríkisútvarpinu og ætla ekki að endurtaka það.

Það var sagt að ekki væri hægt að taka alvarlega fréttamiðla sem tækju sér frí. Ég skil þetta ekki alveg. Við höfum haft þetta ástand síðan sjónvarpið var stofnað. Mér finnst að sjónvarpið sé tekið enn í dag svo alvarlega sem fréttamiðill að í hugum flestra gangi sjónvarpið fyrir, menn horfi á sjónvarpið frekar en hlusta á fréttirnar í hljóðvarpinu. Ég held að menn horfi jafnmikið á sjónvarp eftir að það tekur til starfa eftir sumarleyfi og þeir gerðu áður. Ég sé enga breytingu á því. En auðvitað sé ég eins og allir aðrir muninn á því, að það sé sjónvarpað alla mánuði ársins eða bara ellefu mánuði. Það er auðvitað munur á því.

Hv. þm. Vesturl. vildi gera heldur lítið úr því sem ég sagði, að það væri flókið mál að gera sér grein fyrir hver kostnaðurinn væri af þessu frv. Ég tók svo til orða vegna þess að ég hafði í höndum bréf frá fjármáladeild Ríkisútvarpsins, undirritað af Herði Vilhjálmssyni fjármálastjóra Ríkisútvarpsins, og að gefnu tilefni ætta ég að leyfa mér að lesa nokkrar setningar úr þessu bréfi til áréttingar þessu sjónarmiði, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur:

„Lenging á útsendingu sjónvarps er býsna flókið mál og erfitt að tilgreina nákvæmlega kostnað við slíka breytingu. Vaktakerfi yrði að breyta verulega og líklega þyrfti að fjölga starfsfólki í ýmsum deildum. Útreikningar, sem lagðir voru fyrir útvarpsráð í febr. s. l., eru hér lagðir til grundvallar áætluðum kostnaði við útsendingu sjónvarpsefnis í júlímánuði og hins vegar ef útsending yrði tekin upp á fimmtudögum (fyrirvari gerður vegna óvissuþátta í þessari áætlun).“

Ég leyfi mér að taka nokkurt tillit til þessara orða sem ég hef lesið. Auðvitað er ekkert óyfirstíganlegt í þessu máli. Og þetta er ekkert aðalatriði. Aðalatriðið er: Eigum við að verja þeim fjármunum, sem þarf til lengingar á útsendingu sjónvarpsins, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, í því skyni — eða er þeim betur varið í öðru skyni í þágu sjónvarpsins, til að bæta dagskrána, auka menningargildi hennar? Þetta er aðalatriði.

Ég sagði áðan að ég hefði ekki staðið upp til að vera fjandsamlegur gagnvart þessu frv. Mér finnst að það, sem ég hef hér sagt, hafi verið vinsamlegar ábendingar. Ég óskaði eftir því eða bar fram þá von, að þetta mál fengi vandlega athugun í nefnd sem ég á sæti í, þ. e. menntmn. þessarar deildar. Læt ég svo útrætt um þetta.

Það væri ástæða til að ræða hér um þær upplýsingar sem hv. 4. þm. Norðurl. e. gaf. Það var margt skynsamlegt sem hann sagði um þetta mál sem hér er til umr., enda tók hann fram að það væri ekki sagt á ábyrgð Alþb. Hins vegar sagði hann það ekki varðandi þá ákvörðun sína, sem hann tilkynnti hér, að í næstu viku, skildist mér, mundi hann bera fram frv. um nýja viðtækjaeinkasölu. Það væri fróðlegt að vita hvort Alþb. hefur samþykkt það. Ég sé að um leið og ég minntist á þetta vék hv. formaður þingflokks Alþb. úr sæti sínu og úr þessum sal svo að hann verður ekki til andsvara að þessu sinni.