16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3075 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

324. mál, opinber stefna í áfengismálum

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Batnandi manni er best að lifa, og það væri óskandi að um varanlegan bata væri að ræða hjá hæstv. félmrh. Hv. þm. Halldór Blöndal rifjaði það upp, að fyrir fjórum árum skrifaði hæstv. núv. félmrh., þáv. ritstjóri Þjóðviljans, greinar í blað sitt um „Alþingi götunnar“ vegna þeirra efnahagsráðstafana sem þáv. ríkisstj. stóð fyrir. Markmið þeirra efnahagsráðstafana var að minnka verðbólgu í landinu og það var enginn vafi á að sú mundi raunin hafa orðið hefði ekki verið gripið til óyndisúrræða og ólögmætra verkfallsaðgerða. Það var tilgangurinn að minnka verðbólguna og auka þannig kaupmátt launa. Það vildi hæstv. félmrh. ekki hlusta á þá. Þá var lækkun verðbólgunnar ekki jafngildi aukins kaupmáttar, eins og hann var að enda við að skýra þingheimi frá að sú væri raunin.

Hann nefndi „slétt skipti“ í sambandi við efnahagsráðstafanir ríkisstj. um næstliðin áramót og taldi til viðbótar 1.5% skattalækkun, sem þó tekur ekki til lægst launaða fólksins og 1.3–1.5% vegna áhrifa afnáms skerðingarákvæða Ólafslaga, taldi að þetta jafngilti 7% kauplækkun. Mismuninn, 4% og raunar meira; áttu launþegar að fá uppi borinn með því, að verðbólgan varð samkvæmt fölsuðum tölum rúmlega 40% Í staðinn fyrir tæplega 60% eins og hún hafði verið áður. Ég vek athygli á þessari röksemdafærslu hæstv. félmrh.

Þessu til viðbótar vil ég taka fram að það var ekki eingöngu 1. mars s.l., því að nú er búið að viðurkenna á ný skerðingarákvæði Ólafslaga sem höfðu þau áhrif að útborgað kaup var 2.21 % lægra en ella hefði orðið, og það verður einnig svo 1. júní n.k. að skerðingarákvæði Ólafslaga verða í gildi og munu valda 1.5 %–2 % lækkun á kaupi. Þá hafa skerðingarákvæði Ólafslaga afturgengin þau áhrif, að launþegar fá allt að 4% lægri laun en ella, þannig að öll grunnkaupshækkunin, sem fékkst í samningunum s.l. haust, er aftur tekin og meira til. Undir þessum kringumstæðum ganga launþegar til samninga.

Ég vænti þess, að bæði launþegar og vinnuveitendur sýni ábyrga afstöðu í þeim samningum, sem nú fara í hönd, og taki með í reikninginn að minnkandi verðbólga er auðvitað öllum til hagsbóta. Og ég vænti þess, að hvort sem hæstv. félmrh. á sæti í ríkisstjórn eða er utan ríkisstjórnar haldi hann fast við þá skoðun, sem hann hélt fram áðan, að minnkandi verðbólga, sem m.a. stafar af lækkuðu kaupi, sbr. kaupskerðinguna í fyrra, sé jafnvel þáttur í því, þegar til lengdar lætur, að verða launþegum til gagns eins og öðrum þjóðfélagsþegnum.