16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3076 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

324. mál, opinber stefna í áfengismálum

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég heyrði það á síðustu orðum hæstv. félmrh., að hann býr sig nú mjög undir að setja á stofn Alþingi Helguvíkur eða dreymir a.m.k. um það. En út af því sem hann sagði, að ríkisstj. hefði sett sér að verðbólgan á s.l. ári yrði 40% innan ársins, vil ég vekja athygli á tölum sem eru í nýjasta hefti af Hagtölum mánaðarins, mars 1981, sem út eru gefnar af Seðlabanka Íslands. Kauptaxtar launþega — þá er miðað við 1. mars eðlilega — á síðustu 12 mánuðum hækkuðu um 57.4% og næstsíðustu 12 mánuðum um 50.8% eða samtals á 24 mánuðum um 237.36%. Ef við tökum vísitölu framfærslukostnaðar hækkaði hún frá 1. febr. 1981 til 1. febr. 1982 um 58% og á næstsíðustu 12 mánuðum um 61.4% eða samtals um 255%. Ef við tökum vísitölu neysluvöruverðs hækkaði hún enn meir eða á síðustu 12 mánuðum um 58.5% og næstsíðustu 12 mánuðum um 62.6% eða samtals um 257.72%. Þessar tölur staðfesta því að verðbólgan á síðasta ári lá einhvers staðar nær 60% en 50.

Ég vil líka vekja athygli á því, að engin verðkönnun fór fram 1. jan. 1981 borið saman við 31. des. 1981. Það var gerð verðkönnun um miðjan janúarmánuð 1981. Engin slík verðkönnun fór fram á sama tíma á þessu ári þannig að samanburður á því, sem hæstv. félmrh. kallar verðbólgu innan ársins 1981, er ekki til. Þetta hefur aldrei verið reiknað. Það, sem við komumst næst því, er að miða við 1. febr. 1981 og 1982, bæði árin, og þá er verðbólgan og framfærslukostnaður 58% og vísitala neysluvöruverðs 58.5% Ef hæstv. félmrh. veit einhver gögn sem eru nær því að sýna verðbólguna á árinu 1981 — eða hæstv. dómsmrh., sem situr hjá honum, eða aðrir sem á mál mitt hlýða, þá skora ég á þá að gera grein fyrir þeim mælingum, hvernig þau gögn eru fundin og hvar þær eru. Slíkar mælingar eru, held ég, ekki til.