16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3082 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. eins og öllum er kunnugt hefur risið harkalegur ágreiningur um valdsvið og verkaskiptingu ráðherra í ríkisstj. vegna ákvarðana hæstv. utanrrh. í svonefndu Helguvíkurmáli. Hæstv. félmrh. hefur fullyrt að með ákvörðunum sínum í málinu hafi utanrrh. farið út fyrir valdsvið sitt, m.a. með ákvörðunum er snerta skipulagsmál sem eru á verksviði félmrh. Í samræmi við þessa skoðun sína hefur hæstv. félmrh. skipað sérstaka nefnd á vegum rn. síns til þess að fjalla um skipulagsmál á hinu umdeilda svæði, en hæstv. utanrrh. gaf í gær út reglugerð um skipulagsmál á varnarsvæðunum sem gerir ráð fyrir skipun annarrar nefndar um skipulags- og byggingarmál innan varnarsvæðanna og starfi nefndin á vegum utanrrn., enda lúti skipulagsmálin eins og önnur mál á varnarsvæðinu forræði utanrrn.

Í Þjóðviljanum 10. mars s.l. lýsir formaður þingflokks Alþb. yfir að Keflavíkurflugvöllur sé skipulagsskyldur og heyri undir skipulagsyfirvöld, m.ö.o. hvað skipulag varðar undir félmrn. Í Þjóðviljanum sama dag segir hæstv. félmrh. orðrétt: „Að sjálfsögðu hlýtur ríkisstjórnin sem heild að fjalla um slík mál.“ M.ö.o.: þau eru ekki á forræði hæstv. utanrrh. Í sama streng tekur iðnrh. Hjörleifur Guttormsson sem segir í viðtali við Dagblaðið og Vísi í dag að ákvörðun hans um hvort heldur frestun eða stöðvun framkvæmda, sem Orkustofnun hafi samið um við Almennu verkfræðistofuna á Helguvíkursvæðinu, stafaði af því, að hann vildi fá úr því skorið, „hvort hægt sé að teygja varnarsvæði hingað og þangað og stunda skiptiverslun með land til þess að planta út varnarsvæðum eftir geðþótta einstakra ráðherra.“

Í lögum nr. 73 frá 1969 um Stjórnarráð Íslands og í reglugerð settri samkv. þeim eru ákvæði um valdsvið og verkaskiptingu ráðherra. Í 4. gr. þessara laga stendur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú þykir vafi á leika undir hvert ráðuneyti málefni heyri og sker forsrh. þá úr.“

Þar sem ágreiningur um valdsvið og verkaskiptingu ráðherra hefur risið í ríkisstj. hefur þingflokkur Alþfl. samþykkt að óska þess með tilvísun til framangreindrar lagagreinar, að hæstv. forsrh. geri Alþingi grein fyrir úrskurði sínum. Hefur utanrrh. tekið einhverjar ákvarðanir í svonefndu Helguvíkurmáli sem falla utan valdsviðs ráðherrans?