16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (2624)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ágreiningur utanrrh. og ráðh. Alþb. hefur ekki farið fram hjá neinum að undanförnu. Klögumálin hafa gengið á víxl og stór orð fallið um yfirgang ráðherranna hvers í annars garð. Hæstv. utanrrh. segir að vinnubrögð félmrh. séu markleysa. Fyrir þau orð kvittar hæstv. félmrh. með því að segja að orð Ólafs séu ekki lög. Félmrh. setur eina skipulagsnefnd til að fjalla um málefni varnarsvæðanna, utanrrh. setur aðra. Utanrrh. eða aðilar á hans vegum gera samning við Orkustofnun um afnot af jarðbor til könnunar á jarðlögum við Helguvík. Iðnrh. sem yfirmaður Orkustofnunar skipar orkumálastjóra að hafa þennan samning að engu. Með þeirri athöfn einni færir hann verk upp á einn milljarð gkr. úr höndum Íslendinga í hendur útlendinga. Þetta er líklega hin íslenska atvinnustefna sem Alþb. hefur verið að prédika að undanförnu.

Með þessari athöfn tekur iðnrh. fram fyrir hendurnar á utanrrh., ómerkir gerðir hans, m.ö.o. niðurlægir kollega sinn sem mest hann má. En þetta eru víst dugandi menn og drengir góðir í ríkisstj., eins og sagt var fyrir ekki löngu. Eða hefur það álit kannske eitthvað breyst?

Það er ekki að ófyrirsynju að hæstv. forsrh. er beðinn um að gera grein fyrir úrskurði sínum um valdsvið ráðherra sinna, þeirra sem þarna deila einkum. En hvert var svo svar hæstv. forsrh.? Jú, það var svo sem eins og við mátti búast, nákvæmlega ekki neitt, engu svarað. Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir hæstv. forsrh. „að hann telji ekki tímabært og það greiði ekki fyrir lausn mála að ræða málið á þessu stigi við Morgunblaðið“. Þetta svar var í sjálfu sér eðlilegt við dagblað. En það er ekki hægt að svara svona á hv. Alþingi. Alþingi getur ekki horft á það þegjandi að ráðherrar í ríkisstj. hagi sér eins og smákrakkar. Það er til annars ætlast af þeim sem sýndur er sá trúnaður að taka við ráðherradómi. Og það er engin afsökun í þessu máli að þeir ráðherrar Alþb., sem hér koma við sögu, hafi enga reynslu af stjórnarstörfum eða þingstörfum yfirleitt þegar þeir setjast í ráðherrastóla.

Sá fíflskapur, sem hafður hefur verið í frammi af einstökum ráðherrum að undanförnu, er ekki samboðinn Alþingi. Hann kann vel að vera samboðinn þeim einstaklingum sem um ræðir, en ekki Alþingi sjálfu. Hvernig má það vera, að svo er nú komið fyrir þeim mönnum sem á sínum tíma bundust samtökum um myndun núv. ríkisstj. til þess að bjarga sóma Alþingis, eins og það hét þá? Hvar er nú sómatilfinning þessara sömu manna? Hvar eru nú hin föstu tök forsrh. sem allir ráðherrarnir virtust hlýða í byrjun? Eða hefur hann gefist upp á að halda hjörðinni saman? Menn hafa svo sem veitt því athygli, að forsrh. hefur forðast að greina frá skoðunum sínum í þeim deilumálum sem hæst hefur borið að undanförnu. Hann forðast að kveða upp úr um það, hver af ráðherrum hans hefur rétt fyrir sér. Á meðan geta þeir svo haldið áfram sínum sandkassaleik og gera það.

Svo alvarlegt sem þetta ástand er, þá fer það að minna mann á vitleysuna sem sýnd er í sjónvarpinu og nefnd er Löður. Hvað gerist í næsta þætti? Verður Ólafur áfram utanrrh.? Éta kommarnir allt ofan í sig? Svo að notuð séu orð utanrrh. Hvaða skipulagsnefnd fer með mál varnarsvæðanna, nefnd Svavars eða nefnd Ólafs? Á samvinnuhreyfingin að marka stefnuna um staðarval og stærð olíugeyma fyrir Keflavíkurflugvöll, eins og kommarnir vilja, eða á utanrrh. í umboði Alþingis að gera það? Eru orð Ólafs lög eða ekki? Verða samningar um Blönduvirkjun staðfestir í ríkisstj. eða var Hjörleifur bara að stríða Páli í gær með því að narra norðanmenn hingað suður? Hvor ræður meiru í þingflokki Framsóknar, formaður þingflokksins Páll Pétursson eða iðnrh. Hjörleifur Guttormsson?

Af því, sem ég hef nefnt, geta menn ráðið að næsti Löður-þáttur ríkisstj. verður býsna spennandi og forsrh. mundi gera vel að slaka svolítið á spennunni með því að svara einhverju af þessu strax, þó ekki væri nema því, að hve miklu leyti einstakir ráðherrar hafa forræði þeirra ráðuneyta sem þeir eru kenndir við. Þegar hæst söng í stönginni hér fyrir skömmu vegna buslugangs hæstv. iðnrh. í Alusuisse-málinu svonefnda voru einstakir ráðherrar spurðir álits á forræði málsins. Með leyfi hæstv. forseta nefni ég hér nokkur atriði úr svörum þeirra.

„Þetta er stórt mál sem varðar ríkisstj. alla og ég tel eðlilegt að þriggja manna ráðherranefndin ræði við dr. Müller,“ sagði Friðjón Þórðarson dómsmrh. En Steingrímur, hæstv. sjútvrh., sagði: „Þetta er mál sem er tvímælalaust í höndum iðnrh. og hann hefur samkv. öllum reglum og lögum forustu um.“ Forsrh. svaraði: „Íslensk stjórnskipun kveður á um verkaskiptingu milli ráðherra. Hver þeirra hefur sín lögákveðnu verkefni. Þannig fer iðnrh. með iðnaðar- og orkumál, þ. á m. málefni ÍSALs, eins og fyrirrennarar hans hafa einnig gert.“

Ég rifja þetta upp hér ef hæstv. forsrh. skyldi finna þarna einhverja hliðstæðu, sem auðveldaði honum svarið við þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram. Eru athafnir hæstv. utanrrh. í samræmi við ákvæði laga um Stjórnarráð Íslands, eða eru afskipti hæstv. iðnrh. og hæstv. félmrh. eðlileg? Svona einföld er spurningin. Er ekki hægt að svara henni beint? Þarf að vefja tungu um höfuð sér þegar svarað er svo einföldum og skýrum spurningum.

Kannske er það svo, að ráðherrar í þessari ríkisstj. séu alls ekki bundnir við venjulegar leikreglur. Upphaf þessarar ríkisstj. og tilurð var það ekki og því e.t.v. eðlilegt að framhaldið sé það ekki heldur.

Áður hafa orðið hér á Alþingi umræður um leynisamninginn svonefnda. Ráðherrar hafa keppst um að afneita tilveru hans, og víst er að hæstv. utanrrh. vinnur í sínu rn. eins og hann sé ekki til. Hins vegar freistast maður til þess að ætla að ráðherrar Alþb. eigi slíkt plagg í fórum sínum og þeir kunni að draga það fram þegar þeim sýnist henta.

Ég líkti áðan þessum skrípalátum ráðherranna við þáttinn „Löður“ í sjónvarpinu. Það á við þann hluta í leiksýningu þessari sem hægt er að hlæja að. En kannske ætti frekar að líkja þessu við „Dallas“, svo að maður haldi áfram við sjónvarpsþættina. Baktjaldamakkið, óheilindin, tilraunir einstakra ráðherra til að koma höggi á starfsbræður sína, minna fremur á það illa, sem þar er sýnt, en saklaust grínið í hinum fyrrnefnda þætti. Það má kannske segja að þeir Alþb.-menn kunni að vinsa úr þeim þáttum bandarískum þau atriði sem þeim eru kærust og þeir stunda mest sjálfir.

Herra forseti. Við þurfum að fá fram hér á Alþingi það sem ráðherrar hafa verið að varpa á milli sín að undanförnu í blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Það er nefnilega ekki nóg að berja sér á brjóst á þeim vettvangi. Ráðherrar verða að standa við það á Alþingi sem þeir eru að gaspra um í fjölmiðlum. Hæstv. ráðherrar, sem mest hafa deilt á opinberum vettvangi að undanförnu, verða því að gera Alþingi grein fyrir sínum málum og til þess er tækifæri nú.