16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3085 í B-deild Alþingistíðinda. (2625)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að deilurnar um valdsvið og verkaskiptingu hæstv. ráðherra hafa farið dagvaxandi. Skiptast þeir á brigslyrðum annaðhvort um valdníðslu einstakra ráðherra ellegar þá að einn ráðherra ber á annan að með athöfnum sínum hafi hann gert tiltekna ríkisstofnun skaðabótaskylda. Samkv. lögum ber hæstv. forsrh. að skera úr slíkum ágreiningsefnum. Ef hæstv. forsrh. hefði farið að lögum í þessu sambandi mundi deilan að sjálfsögðu fyrir löngu vera leyst því að það er hann sem á að skera úr þessum ágreiningi og þar með að leysa þessa deilu.

Hæstv. forsrh. hefur hins vegar lýst því yfir úr þessum ræðustól, að hann telji sig ekki þurfa að hafa skoðun í þessu máli. Ég tel að slíki svar sé alls ekki samboðið hæstv. forsrh. með jafnlangan og að mörgu leyti merkan stjórnmálaferil að baki. En það er ótvírætt orðið í augu stingandi, hversu mjög hæstv. forsrh. virðist gera sér far um að hafa ekki skoðanir á viðkvæmum málum í stjórnmálum landsins og viðkvæmum málum í eigin ríkisstj.

Herra forseti. Ég tel að hæstv. utanrrh. hafi hvergi farið út fyrir valdsvið sitt né heldur heimildir í þeim athöfnum og ákvörðunum sem hann hefur tekið í sambandi við Helguvíkurmálið. Ég tel að hæstv. utanrrh. sé þar að framkvæma vilja Alþingis, sem honum var falið að framkvæma með þáltill. um þessi mál sem samþykkt var af öllum flokkum þingsins. Eins og mál standa, þar sem hæstv. forsrh. neitar tilmælum að hann fari að lögum og skeri úr um ágreiningsefni ráðh. um valdsvið og verkaskiptingu, held ég að ekki verði hjá því komist að óska þess við hæstv. utanrrh., að hann geri hv. Alþingi einhvern tíma á næstunni grein fyrir þeim framkvæmdum sem hann hefur unnið að og þeim ákvörðunum sem hann hefur tekið í framhaldi af samþykkt þáltill. sem honum var falið að hrinda í framkvæmd og ég tel að hann hafi verið að framkvæma.